Beint í efni

Ofbeldi er alls konar

Sumir halda að ofbeldi sé bara líkamlegt eða kynferðislegt eða andlegt en svo er ekki. Ofbeldið getur líka verið stafrænt eða fjárhagslegt. Það getur oft verið erfitt að fatta hvað sé heilbrigt eða óheilbrigt í sambandi og hvenær það er ofbeldi.

Ef einhver gerir eitt eða fleira af þessu við þig er það líklegast ofbeldi:

 • Hótar þér.
 • Meiðir þig með því að sparka, lemja eða hrinda.
 • Missir stjórn á skapi sínu.
 • Niðurlægir þig.
 • Ásakar þig um eitthvað sem þú hefur ekki gert.
 • Einangrar þig frá fjölskyldu eða vinum.
 • Sýnir brjálæðislega afbrýðisemi.
 • ‍Skoðar símann þinn eða tölvupóst án leyfis.
 • Segir þér hvað þú átt að gera eða hvernig þú átt að haga þér.
 • Pressar á þig eða neyðir þig til að stunda kynlíf.
 • Sendir þér óumbeðna nektarmynd eða þrýstir á þig að fá nektarmynd.
 • Verslar með kortinu þínu án leyfis.

Þetta eru bara örfá dæmi. Endilega skoðaðu meira á þessari síðu til að kynna þér betur hvernig ofbeldi lýsir sér.

Fáðu hjálp

Ef þér líður illa eða ert með áhyggjur, hvort sem það er vegna þín eða einhvers sem þú þekkir, er best að tala við einhvern sem þú treystir. Það getur til dæmis verið einhver í fjölskyldunni, þjálfari, kennari, námsráðgjafi eða skólasálfræðingur. Þeir sem beita ofbeldi geta líka fengið hjálp.

Þú getur alltaf talað við einhvern hjá hjálparsíma og netspjalli 1717. Þar er opið allan sólarhringinn og hægt að tala í trúnaði um hvað sem er. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Bergið headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur sem aðstoðar ungt fólk og er alveg ókeypis. Þar geturðu bókað tíma hjá ráðgjafa sem fer yfir vandann, veitir stuðning og ráðgjöf.

Margar heilsugæslustöðvar eru með sérstaka móttöku fyrir ungt fólk á aldrinum 13-20 ára. Þú getur farið þangað til að ræða um heilsu þína og líðan.

Að tilkynna til barnaverndar

Ef þig vantar hjálp vegna ofbeldis geturðu haft samband við 112. Þar geturðu tilkynnt um ofbeldi og fengið aðstoð frá Barnavernd. Oftast er það ráðgjöf eða stuðningur við fjölskylduna. Það er reynt að vinna með foreldrum eins og hægt er. Aðalatriðið er að stoppa ofbeldið með því að styðja við alla aðila, hvort sem þeir verða fyrir ofbeldinu eða beita því.

Það þarf að gefa Barnavernd upp nafn en þú getur beðið um að enginn annar fái að vita það. Það er allt í lagi að tilkynna þótt maður sé ekki alveg viss.

Ofbeldi í samböndum

Ofbeldi í samböndum, líka kallað heimilisofbeldi, er þegar sá sem beitir ofbeldinu er skyldur eða tengdur þér. Til dæmis fjölskyldumeðlimur, núverandi eða fyrrverandi kærasti eða kærasta, vinir eða umönnunaraðili.

Dæmi um ofbeldi er að slá, klípa, hrinda, hóta, öskra, vanræksla, káf og að láta aðra gera eitthvað kynferðislegt sem þeir vilja ekki. Að horfa upp á aðra á heimilinu vera beitta ofbeldi er líka ofbeldi.

Sóley er 13 ára stelpa sem ólst upp við heimilisofbeldi. Hún hefur nú flutt á annað heimili með mömmu sinni. Í dag er hún glöð og býr við öryggi.

Stafrænt kynferðisofbeldi

Stafrænt kynferðisofbeldi er til dæmis að sýna eða dreifa nektarmyndum af öðrum í leyfisleysi, senda óumbeðnar nektarmyndir og kynferðisleg skilaboð, þrýsta á aðra að senda nektarmyndir, dreifa fölsuðum nektarmyndir af öðrum eða nota nektarmyndir til þess að hrella, hóta eða kúga peninga af öðrum. Þessi listi er ekki tæmandi, enda er tæknin sífellt að breytast og þar af leiðandi breytist stafrænt kynferðisofbeldi líka.

Stuttmynd sem er byggð á sönnum frásögnum úr íslenskum raunveruleika þegar nektarmyndir sem eru sendar í trúnaði fara á flakk.

Óviðeigandi efni á netinu varðandi börn og unglinga

Ef þú sérð eða veist um eitthvað óviðeigandi efni varðandi börn og unglinga á netinu geturðu notað Ábendingalínu Barnaheilla sem kemur því áfram til lögreglu.

Að virða mörk

Mörkin þín og mörk annarra eru ekkert endilega eins. Allir vilja að sín mörk séu virt. Ekki áreita eða pressa á aðra. Það er ofbeldi.

Aðstoð vegna kynferðisofbeldis

Ef þú verður fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi geturðu farið á Neyðarmóttöku kynferðisofbeldis á Landspítalanum í Fossvogi. Þar eru hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og læknar sem geta hjálpað andlega og líkamlega.

Kynlíf og samskipti

Kynlíf snýst um að tala saman, segja hvað þér finnst gott og spyrja hvað hinn aðilinn fílar. Kynlíf verður aldrei eins innilegt og það á að vera nema þú þorir að spyrja og segja hvað þér finnst.

Fáðu samþykki

Allir eiga rétt á því að ákveða hvaða kynferðislegu athafnir þeir samþykkja eða samþykkja ekki. Ef snertingu, kossum eða einhverju kynferðislegu er þröngvað upp á aðra er það kynferðislegt ofbeldi. Þetta myndband sýnir hversu auðvelt það er að fá samþykki með því að líkja því við að bjóða manneskju tebolla.

Einelti

Einelti er líka ofbeldi. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Að horfa á einelti og gera ekki neitt er það sama og taka þátt. Það tapa allir á einelti.

  Bergið headspace

  Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri.

  1717

  1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

  Heilsuvera

  Á vef Heilsuveru er hægt að tala við hjúkrunarfræðing gegnum netspjall. Á vefnum eru upplýsingar um allt varðandi heilsu.