Ofbeldi er alls konar
Sumir halda að ofbeldi sé bara líkamlegt eða kynferðislegt eða andlegt en svo er ekki. Ofbeldið getur líka verið stafrænt eða fjárhagslegt. Það getur oft verið erfitt að fatta hvað sé heilbrigt eða óheilbrigt í sambandi og hvenær það er ofbeldi.
Ef einhver gerir eitt eða fleira af þessu við þig er það líklegast ofbeldi:
- Hótar þér.
- Meiðir þig með því að sparka, lemja eða hrinda.
- Missir stjórn á skapi sínu.
- Niðurlægir þig.
- Ásakar þig um eitthvað sem þú hefur ekki gert.
- Einangrar þig frá fjölskyldu eða vinum.
- Sýnir brjálæðislega afbrýðisemi.
- Skoðar símann þinn eða tölvupóst án leyfis.
- Segir þér hvað þú átt að gera eða hvernig þú átt að haga þér.
- Pressar á þig eða neyðir þig til að stunda kynlíf.
- Sendir þér óumbeðna nektarmynd eða þrýstir á þig að fá nektarmynd.
- Verslar með kortinu þínu án leyfis.
Þetta eru bara örfá dæmi. Endilega skoðaðu meira á þessari síðu til að kynna þér betur hvernig ofbeldi lýsir sér.
Fáðu hjálp
Ef þér líður illa eða ert með áhyggjur, hvort sem það er vegna þín eða einhvers sem þú þekkir, er best að tala við einhvern sem þú treystir. Það getur til dæmis verið einhver í fjölskyldunni, þjálfari, kennari, námsráðgjafi eða skólasálfræðingur. Þeir sem beita ofbeldi geta líka fengið hjálp.
Þú getur alltaf talað við einhvern hjá hjálparsíma og netspjalli 1717. Þar er opið allan sólarhringinn og hægt að tala í trúnaði um hvað sem er. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.
Bergið headspace er stuðnings- og ráðgjafasetur sem aðstoðar ungt fólk og er alveg ókeypis. Þar geturðu bókað tíma hjá ráðgjafa sem fer yfir vandann, veitir stuðning og ráðgjöf.
Margar heilsugæslustöðvar eru með sérstaka móttöku fyrir ungt fólk á aldrinum 13-20 ára. Þú getur farið þangað til að ræða um heilsu þína og líðan.