Beint í efni

Börn eiga rétt á vernd og umönnun

Barnaverndarnefndir sveitarfélaga sjá um að öll börn búi í viðunandi aðstæðum. Aðstoðin er oftast í formi ráðgjafar eða stuðnings. Það er lögð áhersla á samvinnu við foreldra eins og hægt er. Velferð barnsins er alltaf í forgangi.

Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita. Allir undir 18 ára teljast börn og einnig ófædd börn. Dæmi um hluti sem ætti að tilkynna er vanræksla, vanhæfni eða slæm framkoma foreldra gagnvart barni og áreitni eða ofbeldi annarra gagnvart barni. Ekki treysta á að aðrir láti vita. Það er líka mikilvægt að tilkynna aftur ef ástandið helst óbreytt.

Þú getur tilkynnt til barnaverndarnefnda með því að hringja í 112 eða nota netspjall 112. Einnig er hægt er að hringja í þá barnaverndarnefnd þar sem barn býr. Ef barnið býr í Reykjavík er hægt að hringja í Barnavernd Reykjavíkur í síma 411 9200 alla virka daga frá klukkan 8:20-16:15 eða senda tilkynningu á vefsíðu þeirra. Barnaverndarnefndir stærri sveitafélaga eru líka með rafrænar tilkynningar og ábendingar á vefsíðum sínum.

Þú þarft að segja til nafns þegar þú tilkynnir en getur alltaf óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum.

Börn geta líka haft samband sjálf. Það er allt í lagi að tilkynna þótt maður sé ekki alveg viss. Mundu að börn eiga alltaf að njóta vafans.

Losaðu þig við áhyggjurnar og komdu þeim í farveg. Tilkynntu um mál sem varða börn til 112.

Reynslusaga Sóleyjar

Ofbeldi á heimilinu hefur alvarlegar afleiðingar fyrir börn þótt þau verði ekki fyrir ofbeldinu sjálf. Sóley er 13 ára stelpa sem ólst upp við ofbeldi af hendi pabba síns. Hún hefur nú flutt á annað heimili með mömmu sinni og bróður þar sem þau lifa nýju lífi í öryggi.

Áhrif ofbeldis á börn

Ofbeldi hefur neikvæð áhrif á börn. Ofbeldi gegn börnum getur verið alls konar. Ofbeldið getur beinst beint gegn barninu eða óbeint, eins og þegar barn verður vitni að ofbeldi á heimili sínu.

Fleiri úrræði

Skoða öll úrræði
Þrjár dökkhærðar stelpur sitja á grasi. Þær snúa baki í myndavélina og spjalla saman.

Barnaheill

Barnaheill býður upp á ráðgjöf um allt varðandi börn. Á vefsíðu þeirra er hægt að benda á óviðeigandi hegðun gagnvart börnum á netinu.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Foreldrahús

Foreldrahús veitir börnum, unglingum og foreldrum ráðgjöf, meðal annars vegna áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga, áhættuhegðunar og hegðunarvanda. Foreldrasíminn 581 1799 er opinn allan sólarhringinn.