Landspítali – Háskólasjúkrahús

Landspítali – Háskólasjúkrahús

Á milli Neyðarlínunnar 112 og Landspítala-háskólasjúkrahús (LSH) er í gildi samstarfssamningur, sem felur í sér að LSH er  læknisfræðilegur umsjónaraðili og ráðgjafi Neyðarlínunnar um heilbrigðisþjónustu.

Landspítalinn veitir ráðgjöf um læknisfræðileg álitaefni á öllum tímum sólarhringsins árið um kring og  fer yfir og þróar verklagsreglur Neyðarlínunnar, sem lúta að svörun og viðbrögðum við slysum, sjúkdómum og öðru, sem snertir bráða heilbrigðisþjónustu. Þá mun spítalinn sjá um reglulega fræðslu fyrir starfsmenn Neyðarlínunnar.

Brynjólfur Mogensen, sviðstjóri slysa- og bráðadeildar LSH, sem verður yfirlæknir um heilbrigðistengd málefni Neyðarlínunnar, sagði í viðtali við undirskrift samnings að mjög mikil bráð heilsutengd starfsemi færi fram á Neyðarlínunni. Neyðarlínan þarf að hafa samstarfsaðila og hefur valið Landspítalann til þess að vera þessi bakhjarl, sem er nauðsynlegur.

Starfssamningur 112 og LSH:

1. LSH verði læknisfræðilegur umsjónaraðili og ráðgjafi Neyðarlínunnar um heilbrigðisþjónustu.
2. LSH veitir Neyðarlínunni ráðgjöf um læknisfræðileg álitaefni á öllum tímum sólarhringsins árið um kring
3. LSH fer yfir og þróar verklagsreglur Neyðarlínunnar sem lúta að svörun og viðbrögðum við slysum, sjúkdómum og öðru sem snertir bráða heilbrigðisþjónustu.
4. LSH hefur reglubundna skipulagða fræðslu um heilsutengd mál og verklagsreglur fyrir starfsmenn Neyðarlínunnar átta sinnum á ári.
5. LSH veitir ráðgjöf og aðstoðar Neyðarlínuna varðandi skýrslugerð um heilbrigðismál.
6. LSH aðstoðar Neyðarlínuna með símafundi um málefni tengt heilbrigðisþjónustu.
7. LSH hefur dagleg samskipti við Neyðarlínuna um málefni er varða svörun, greiningu og viðbrögð Neyðarlínunnar vegna heilbrigðistengdra vandamála.
8. LSH verður ráðgjafi Neyðarlínunnar varðandi hugsanlegar kvartanir og kærur sem lúta að svörun og viðbrögðum Neyðarlínu um heilbrigðisþjónustu.

Landspítali – Hákólasjúkrahús