112

EINN- EINN- TVEIR- Eitt númer- allt landið

Fyrirtækið Neyðarlínan ohf. var stofnað í október 1995 og hóf 112 neyðarsímsvörun 1. janúar 1996. Tilgangur félagsins er rekstur neyðarvaktstöðvar vegna samræmda neyðarnúmersins 112, almenn svörun neyðarboða, fjarskiptaþjónusta og skyldur rekstur. Rekstur neyðarvaktstöðvar er í samræmi við lög um samræmda neyðarsvörun nr. 40/2008.

112 veitir almenningi alhliða hágæða neyðarþjónustu. Hlutverk 112 er að veita mannúðlega, óhlutdræga og áreiðanlega þjónustu.

Sameiginlegt neyðarnúmer landsmanna er 112 (einn-einn-tveir). Flestar aðgerðir viðbragðssveita hefjast með því að hringt er í neyðarnúmerið. Neyðarverðir greina erindið og boða viðeigandi viðbragðsaðila eftir eðli þess. Neyðarverðir gegna mikilvægu hlutverki við miðlun og skráningu upplýsinga á meðan á útkalli stendur. Berist neyðarbeiðnir af sjó til 112 er þeim beint til Vaktstöðvar siglinga sem annast móttöku og miðlun tilkynninga um óhöpp á sjó. Hjá Vaktstöð siglinga starfar fólk með sérþekkingu á skipulagi leitar og björgunar á sjó.

Upplýsingar um alþjóðlega neyðarnúmerið 1-1-2 má m.a. finna á vefnum Wikipedia. Þar eru einnig upplýsingar um neyðarnúmerið 9-1-1 í Norður-Ameríku.