Vaktakerfið
Frá því í febrúar 2003 hafa neyðarverðir unnið eftir sveigjanlegu vaktakerfi, fyrst TimeCare og seinna My Time Plan (MTP).
Tilgangur
Hornsteinar áætlanagerðar í vaktakerfinu eru að mönnun vaktstöðvar sé ávallt í samræmi við eftirspurn og að vinnutími sé að mestu í samræmi við óskir hvers og eins neyðarvarðar. Styrkur hugmyndarinnar er að uppfylla um leið ólíkar þarfir neyðarvarða, fyrirtækis og viðskiptavinar þannig að allir njóti góðs af.
Mönnunarþörf
Til að uppfylla mönnunarþörf vinnustaðar fram í tímann þarf að gera ítarlega spá um eftirspurn eftir starfsfólki. Skilgreint er nákvæmlega hver lágmarks- og hámarksmönnun á að vera fyrir hverja klukkustund yfir tiltekið tímabili sem getur verið mismunandi að lengd. til dæmis 12 vikur að sumri en annars um 6-8 vikur. Mannaflaþörf er skoðuð í skjóli reynslunnar, álag metið og mönnun ákveðin.
Einstaklingsóskir
Hverjum neyðarverði er ætlað að setja fram í kerfinu óskir um vinnutíma fyrir tiltekið tímabil sem hefur verið skilgreint. Frjálst val er um hvenær vinnudagur hefst og hver lengd hans er, en kerfið sjálft hindrar brot á reglum kjarasamninga. Einnig er mögulegt að neita ákveðnum tímabilum innan dags eða heilum dögum fyrir persónuleg erindi eins og þessi.
- Skóli, dag eða kvöldskóli.
- Barnapössun
- Maki sem er í svipaðri vinnu, auðvelt að stilla saman frítíma.
- Afmæli.
- Fyrirfram vitaðar uppákomur.
Hver neyðarvörður hannar þar með eigin vinnuáætlun til samræmis við þarfir sínar hverju sinni. Algert skilyrði er að setja inn sínar eigin hugmyndir, ekki að leita samþykkis vinnufélaga eða að setja sig inn í óskir samstarfsfólks. Neyðarverðir ráða sveigjanleikanum sjálfir þar sem vinnuáætlun getur tekið breytingum milli tímabila.
Lokaskipulag
Eftir aðlögun á frumskipulagi verður til lokaskipulag og svokölluð bestun þar sem kerfið fyllir upp í nauðsynlega mönnun sjálft. Þannig leitar kerfið að tímabilum þar sem óskir starfsmanna eru yfir eða undir skilgreindri mönnunarþörf og lagar.
Punktasöfnun
Byggt á einstaklingsóskum starfsfólks skilgreinir kerfið vinsældir hverrar klukkustundar. Vinsældir ákveðinnar klukkustundar, til dæmis fimmtudags milli kl. 8 og 9, geta breyst milli vikna samhliða breyttum óskum starfsfólks. Vinsældum klukkustunda er umbreytt yfir í ákveðin gildi þar sem óvinsæll vinnutími hefur hátt gildi og öfugt. Starfsfólk sem vinnur á tímum sem hafa há gildi, óvinsælum vinnutímum, fá marga punkta. Punktastaða hvers starfsmanns er tilgreind eftir hvert tímabil. Þegar kerfið sjálft raðar niður með bestun, sem er nauðsynlegt fyrir óvinsælar klukkustundir, er sá starfsmaður sem hefur fæsta punkta valinn til vinnu. Grunnurinn og ábyrgðin á mönnun vinnustaðar er algerlega í höndum starfsfólksins og er stjórnendum létt sú vinna að ákveða hvern á að velja til vinnu á óvinsælum vinnutímum.
Tímabanki
MTP leyfir neyðarvörðum að eiga inni eða skulda vinnutíma miðað við vinnuskyldu. Skuld eða inneign getur verið gerð upp hvenær sem er í samræmi við þarfir fyrirtækis og neyðarvarðar. Neyðarvörður getur þannig notað tímabankann til að vinna sér inn inneign fyrir fyrirhugað frí án þess að taka það af orlofi. MTP samþættir þannig hefð og síbreytileika, hefðbundnar vinnuáætlanir með nýjum sveigjanlegum vinnuáætlunum. Það er val hvers neyðarvarðar hvort hann velur hefð eða sveigjanleika í MTP. Reynslan hefur sýnt að um 70% af vinnutíma er valinn af starfsfólki.