Síða 112

  • Á öllum síðum um ofbeldi á vef 112 er svartur takki til hægri þar sem þú getur lokað vefsíðunni í flýti og upp kemur vefsíða google.
  • Slóð hverrar síðu segir ekki til um hvaða efni er á henni. Þetta kemur í veg fyrir að hægt sé að reka augun í hvað þú hefur verið að skoða í sögunni í vafranum.
  • Það er öruggast að nota vafrann í einkaham (enska: private / incognito window) svo að enginn geti séð hvað þú hefur verið að skoðað.

Vafri í einkaham

Þegar þú ert í vafra á síma eða í tölvu, stilltu á einkaham (private/incognito window). Þá er ekki hægt að sjá í sögu vafrans hvaða vefsíður þú hefur skoðað.

Annað netfang

Fáðu þér nýtt netfang sem þú deilir eingöngu með fólki sem þú treystir. Þannig geturðu sent tölvupósta á öruggan hátt. 

Örugg lykilorð

  • Notaðu örugg lykilorð á aðgangana þína og tæki. Reyndu að nota orð og tölustafi sem eingöngu þú getur vitað og erfitt er að giska á.
  • Ekki nota nöfn eða dagsetningar sem aðrir vita að eru þér mikilvæg.
  • Ef þú hefur áhyggjur af því að geta ekki munað lykilorð geturðu deilt því með einhverjum sem þú treystir.

Notaðu mismunandi lykilorð

Öruggast er að nota nýtt lykilorð fyrir hvern aðgang og hvert tæki. Þetta kemur í veg fyrir að einhver komist inn á alla þína miðla með eina og sama lykilorðinu. Þú getur notað lykilorðaforrit eins og 1Password til að hjálpa þér að hafa mismunandi lykilorð á hverjum aðgangi.

Hafðu aðganga eins örugga og hægt er

  • Breyttu öryggisspurningum þannig að eingöngu þú vitir svörin við þeim.
  • Skráðu þig inn og út í hvert sinn sem ferð inn á tæki, tölvupóst eða aðra miðla.
  • Notaðu alltaf tveggja-skrefa staðfestingu þegar mögulegt er.

Varastu njósnabúnað á símanum

Ef þig grunar að síminn þinn sé með njósnabúnað, vertu varkár þegar þú notar hann. Skildu símann eftir heima eða hafðu hann í öðru herbergi þegar þú átt samtal sem á að vera í trúnaði.

Í sumum tilvikum er hægt að komast að því hvort þú sért með njósnabúnað á símanum með vírusavörn. Passaðu að þú gætir verið í meiri hættu ef þú fjarlægir búnaðinn. Hafðu frekar samband við Bjarkahlíð eða Bjarmahlíð og fáðu aðstoð.

Aðgangur að öðru tæki

Ef þú veist eða þig grunar að sá sem beitir ofbeldinu geti komist í síma þinn eða tölvu er gott að hafa annað tæki til að nota án þess að viðkomandi komist að því. Þú getur geymt tækið á öruggum stað á heimilinu, hjá vini eða nágranna.

Ekki deila staðsetningu

Passaðu að ekki sé stillt á að deila staðsetningunni þinni á tækjunum þínum eða samfélagsmiðlum sem þú notar. Forðastu að láta tagga þig á samfélagsmiðlum og biddu þá sem þú treystir að setja aldrei neitt inn á netið sem sýnir hvar þú sért.

Best er að slökkva á Bluetooth. Það er hægt að nota Bluetooth til að fylgjast með staðsetningunni þinni, til að deila skrám og að para önnur tæki við símann, eins og heyrnartól.