Hættustig er í gildi á Reykjanesi vegna jarðhræringa.

Hættustig Almannavarna tók við af Neyðarstigi þann 23. nóvember 2023 vegna jarðhræringa á Reykjanesi.

Svör við algengum spurningum sem kunna að vakna

Þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga

Þjónustumiðstöð í Tollhúsinu í Reykjavík er opin alla virka daga frá 10-18. Þar færðu stuðning og ýmsa ráðgjöf svo sem félagslega ráðgjöf, atvinnuráðgjöf og aðgang að fulltrúa Náttúruhamfaratrygginga Íslands. Þar er líka leikhorn fyrir börn og heitt á könnunni.
Merki lögreglunnar.

Skráning fyrir þá sem þurfa að komast inn í Grindavík

Skráningarferli á island.is þar sem íbúar geta skráð sínar óskir um að komast inn í bæinn að vitja eigna sinna. Beiðnunum er forgangsraðað og síðan er haft samband við þá aðila sem komast inn hverju sinni, ef hægt er að tryggja öryggi þeirra.

Er ennþá hægt að leita upplýsinga hjá Grindavíkurbæ?

Grindavíkurbær er ennþá starfandi, þótt íbúar hafi þurft að yfirgefa heimili sín í Grindavík. Á vef Grindavíkur er hægt að nálgast upplýsingar um þjónustu á vegum bæjarins, upplýsingar um hjálp í boði og önnur góð ráð.
Merki Almannavarna

Hvar fæ ég nýjustu upplýsingar um stöðu mála?

Almannavarnir samhæfa aðgerðir á Reykjanesskaga. Allir viðbragðsaðilar fá upplýsingum miðlað um leið og þær berast. Hægt er að skrá sig á póstlista Almannavarna til að fá nýjustu tilkynningarnar.

Hvernig er best að útskýra ástandið fyrir börnum?

Best er að leyfa börnum að spyrja um það sem liggur þeim á hjarta, á sínum tíma. Fyrir okkur fullorðna fólkið er mikilvægt að sýna að við erum róleg, en líka gott að viðurkenna að maður hefur oft ekki öll svörin. Sýnum þeim væntumþykju, sköpum öryggi og eyðum miklum tíma með þeim.

Hvar finn ég upplýsingar um bótarétt og tryggingar?

Allar húseignir á Íslandi eru vátryggðar hjá Náttúrutryggingum Íslands gegn beinu tjóni af völdum náttúruhamfara. Hér getur þú lesið um hvað er besta að gera eftir að neyðarstigi verður aflýst.
Merki Rauða Kross Íslands

Hvar fæ ég aðstoð ef ég þurfti að yfirgefa heimili mitt í Grindavík?

Rauði krossinn heldur utan um íbúa Grindavíkur sem þurfa að leita skjóls í fjöldahjálparstöðvum. Þar er einnig hægt að nálgast lista yfir fólk sem hefur boðist til að opna heimili sín fyrir íbúa Grindavíkur.
Merki hjálparsíma Rauða krossins með orðunum ókeypis, trúnaður og alltaf opið.

Hvernig tilkynni ég mig eftir rýmingu?

Þú tilkynnir þig og þá sem eru með þér með því að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Ef þú ferð í fjöldahjálparstöð, er hægt að tilkynna sig þar. Að tilkynna sig er mikilvægt til að tryggja að allir íbúar Grindavíkur séu öruggir og hafi húsaskjól.

Hvað ef ég varð viðskila við gæludýrið mitt?

Fólk hefur haft mjög stuttan tími til að sækja eigur sínar og gæludýr eftir rýmingu og enn eru gæludýr sem ekki hafa fundist. Hér er hægt að skoða hvort einhverjum íbúum Grindavíkur hafi tekist að bjarga gæludýrum annarra, í Facebook hópnum Gæludýr í Grindavík.

Þorbjörn - Björgunarsveit Grindavíkur

Björgunarsveitirnar eru til taks og aðstoða fólk við að ná í eigur sínar, tryggja öryggi á götum og stýra aðgangi að svæðinu. Fyrstu upplýsingar frá björgunarsveitinni birtast á Facebook síðu þeirra. Hlúum að hvert öðru og pössum að vinir okkar og nágrannar viti líka af þessum miðli.
Merki Rúv

Hvernig er fréttaflutningi háttað á neyðarstigi?

RÚV gegnir öryggishlutverki á neyðarstigi. Það þýðir meiri fréttaflutningur: Rás 2 er alltaf mönnuð, Rás 1 og Rás 2 eru samstilltar yfir nóttina og stærstur hluti fréttatíma er helgaður fréttum af Grindavík. Lifandi fréttavakt á ruv.is og þess gætt að fréttir séu líka fluttar á ensku og pólsku.

Nýjustu fréttir á auð-lesnu máli

Nýjustu fréttir af neyðarstigi í Grindavík er hægt að finna á vef RÚV. Allar fréttir eru skrifaðar á auðlesnu máli.

Hvernig er almenningur látinn vita í neyð?

Þegar neyðarstig er notar Neyðarlínan svokallað váboðskerfi (sms sendingar) til að koma skilaboðum til fólks. Samhæfingarstöð Almannavarna ákveður hvað skal senda og hvenær.

Hver er réttur leigjenda sem rýmdu leiguíbúð sína á neyðarstigi?

Leigjendur þurfa að vera í sambandi við leigusala sinn og semja um útfærslu leigusamnings á meðan óvissa rík­ir um leigu­samband. Leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna veitir aðstoð í slíkum málum en hægt er að lesa sér betur til um réttindi og skyldur leigjenda á vef samtakanna. Fyrirspurnir má senda með því að fylla út formið hér fyrir neðan.

Þjónustugátt á island.is fyrir Grindvíkinga

Á island.is er nú tengill á þjónustugátt fyrir Grindvíkinga. Þar er að finna ýmis gagnleg form, upplýsingar um skólagöngu barna og leikskólamál, umsóknarform fyrir fyrirtæki sem þurfa aðra staðsetningu og fleira. Gáttin er síbreytileg og uppfærist um leið og ný úrræði bjóðast.