Tetra

Tetra talstöðvarkerfið er öflugt hópfjarskiptakerfi, sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila.

Um Tetra

Tetra talstöðvarkerfið er öflugt, miðstýrt hópfjarskiptakerfi, sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila en kerfið er mikilvirkt stjórntæki fyrir hröð og örugg samskipti milli einstaklinga og hópa ásamt flotastjórnun með hjálp ferilvöktunar. Kerfið er samtengt, stafrænt landsþekjandi talstöðvakerfi og getur þannig tengt saman aðila alls staðar á landinu. Margir aðilar geta notað Tetra samtímis án truflana og hægt er að tengja aðila saman eftir þörfum.

Tetra þjónusta hófst hér á landi árið 2000 þegar tvö félög hófu rekstur tveggja Tetra kerfa og náði þjónustan aðeins til hluta landsins. Árið 2005 tók Neyðarlínan við rekstri Tetra þjónustunnar og í framhaldinu var ákveðið að útvíkka þjónustuna þannig að hún næði til meginhluta landsins ásamt því að kerfin voru endurnýjuð.

Frá þeim tíma hefur kerfið verið stækkað smám saman og nær nú til meginhluta landsins. Áfram er unnið að stækkun kerfisins eftir því sem aðstæður krefjast. Fyrir liggur að Tetra þjónustan verður í boði a.m.k. næsta áratuginn, enda hefur hún reynst afar vel fyrir notendur og stuðlað að auknu öryggi.

Fjöldi sendastaða í Tetra kerfinu eru um 200 á landinu öllu þar af eru 17 sendastaðir á höfuðborgarsvæðinu. Tetra stöðvar má einnig nota utan þjónustusvæðisins í beinu sambandi (Direct Mode) við aðrar Tetra stöðvar í nágrenninu.

Útbreiðsla

Reiknað þjónustusvæði Tetra, febrúar 2021.

Neyðarlínan annast rekstur Tetra kerfisins. Mikið er lagt upp úr rekstraröryggi kerfisins og er sólarhringsvöktun á ástandi þess. Tetra kerfið er byggt á kerfi frá Motorola og sérstaklega hannað fyrir viðbragðsaðila sem og þá sem sinna rekstri mikilvægra innviða, svo sem sjúkrahús, orkufyrirtæki, Isavia, Vegagerðina og fleiri.

Fjarskipti

Aðgerðahópar

Fyrir nokkrum árum var tekið upp samvinnuband Tetra kerfisins sem kallað er „Bláa bandið“. Þegar aðgerð er í gangi er þeim hópum sem hlut eiga að máli úthlutað viðeigandi samvinnubandi sem er sérstakur talhópur sem þeir nota við samskipti sín á milli.

Bláa bandið inniheldur möppurnar „Blár 1“ til „Blár 9“ og er hver mappa merkt einu lögregluembætti á Íslandi sem eru 9 talsins. Þannig tilheyrir Blár 1 lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu, 2 lögregluembættinu á Suðurnesjum, 3 lögregluembættinu á Vesturlandi, 4 lögregluembættinu á Vestfjörðum, 5 lögregluembættinu á Norðurlandi vestra, 6 lögregluembættinu á Norðurlandi eystra, 7 lögregluembættinu á Austurlandi, 8 lögregluembættinu á Suðurlandi og 9 lögregluembættinu í Vestmannaeyjum.

Öllum stærri aðgerðum viðbragðsaðila er stjórnað um Bláa bandið.

Skilgreindir aðgangar Ríkislögreglustjóra eru þrír talsins og auðkenndir hver með sínum lit, rauður, gulur og blár. Aðgengi hópanna að talhópunum er mismunandi eftir mikilvægi. Mestan aðgang hefur rauði hópurinn sem hefur aðgang að öllum talhópum, sá blái kemur næstur og minnstan aðgang hefur guli hópurinn.

Eftirtaldar stofnanir eru í hverjum hópi:

  • Rauður: Heilbrigðisstofnanir, Landhelgisgæslan, Lögreglan, Neyðarlínan varðstofa, sjúkraflutningar og slökkvilið.
  • Blár: Aðgerðastjórnir, björgunarsveitir, Isavia, Rauði krossinn ásamt öllum þeim sem aðilum sem tilheyra rauða hópnum.
  • Gulur: Fjarskiptafyrirtæki, hafnir, Jarðvísindastofnun, Strætó, sveitarfélög, Veðurstofan, Vegagerðin, veitustofnanir og þjóðgarðar, ásamt öllum þeim sem tilheyra rauða og bláa hópnum.

Þegar aðgerð er í gangi er hópum úthlutað úr viðeigandi samvinnubandi og fara Neyðarlínan og Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra með úthlutun þeirra.

Neyðarhnappurinn

Hvað gerist ef ýtt er á neyðarhnappinn?

Þegar ýtt er á neyðarhnappinn fer tækið í svokallaðan neyðarham og eru þá neyðarboð send til Neyðarlínunnar og fær þá notandinn sem ýtir á neyðarhnappinn samstundis efsta forgang í kerfinu, nema notandinn hafi ákveðið annað. Stöðin gefur jafnframt frá sér hljóð og skjárinn verður rauður uns slökkt hefur verið á neyðarboðunum. Hljóðneminn framan á stöðinni verður virkur og er þá hægt að tala við neyðarvörð í hálfa mínútu án þess að ýta á sendihnappinn. Þrátt fyrir þetta er hægt að halda áfram talstöðvarsamskiptum á öðrum talhópum.

Ef ýtt er á neyðarhnappinn fyrir mistök hefur það engar afleiðingar fyrir handhafa Tetra stöðvarinnar. Hins vegar er mikilvægt þegar slíkt hendir að viðkomandi útskýri fyrir neyðarverði að engin neyð sé í gangi, til þess að ekki verði brugðist við að óþörfu.

Innanhúss dekkun

Í sumum tilvikum hendir að Tetra þjónustan nái ekki inn í hús, svo sem rammgerðar byggingar, kjallara og byggingar með K-gleri sem kastar frá sér bylgjum svo einhver dæmi séu nefnd. Í þeim tilvikum er hægt að setja upp endurvarpa innanhúss sem dregur merkið inni í bygginguna. Óheimilt er án samráðs við Neyðarlínuna að setja upp slíkan búnað, því að tryggja verður að slíkir endurvarpar virki rétt og valdi ekki truflunum á Tetra samskiptum í nágrenninu.

Sala og þjónusta

Eftirfarandi aðilar selja og þjónusta Tetra-búnað frá Motorola:

  • Neyðarlínan, Skógarhlíð 14, sala [hjá] tetra.is
  • Múlaradíó, Fellsmúla 28, service [hjá] mularadio.is
  • Ísmar, Síðumúla 28, ismar [hjá] ismar.is
  • Hiss, Fosshálsi 1, hiss [hjá] hiss.is

Neyðarlínan selur aðeins dulkóðaðar Tetra stöðvar til viðbragðsaðila, stofnana og fyrirtækja. Hjá Neyðarlínunni eru ekki í boði aukahlutir fyrir Tetra stöðvar.

Fyrir áskrift skal hafa samband við okkur um netfangið sala [hjá] tetra.is

Ábending

Hægt er að senda ábendingu til deildarinnar með því að fylla út formið hér að neðan. Vinsamlegast gefið eins skýrar og miklar upplýsingar og hægt er svo hægt sé að bregðast við erindinu.