Beint í efni

Mansal er stundum kallað nútíma-þrælahald, af því það er án sýnilegra hlekkja. Það er þegar fólk notfærir sér vonir og drauma annarra um betra líf og þvinga fólk þannig til að lifa lífi sem það bað ekki um.

Margir halda að vændi sé eina birtingarmynd mansals og bara kona geti orðið þolandi mansals en það er ekki rétt. Sumir hópar eru viðkvæmari en aðrir, til dæmis fólk á flótta eða í leit að betra lífi. Fólk í neyslu eða þeir sem hafa lítið milli handanna eru líka berskjaldaðir auk þess eru börn og heimilislaus ungmenni líklegri til að verða þolendur mansals.

Hver sem er getur verið gerandi, til dæmis fjölskyldumeðlimur, einhver sem lætur eins og vinur þinn eða jafnvel maki. Þolandi heldur ekki að sé verið að misnota hann og veit því ekki endilega af því að hann sé þolandi mansals. Gerandinn tælir hann til sín til dæmis með ást, umhyggju, athygli eða öryggi. Allt til þess að ná að mynda traust við þolandann.

Það getur verið mansal ef einhver:

  • Greiðir þér ekki pening fyrir vinnu þína. 
  • Hótar þér eða fjölskyldu þinni ofbeldi ef þú gerir ekki eitthvað.
  • Neyðir þig til að búa við óviðunandi aðstæður.
  • Heldur þér gegn vilja þínum á einhverjum stað.
  • Tekur af þér vegabréf eða önnur mikilvæg skjöl.
  • Falsar eða útvegar þér vegabréf.
  • Borgar ferðakostnað þinn hingað og lætur þig borga skuldina með því að vinna.
  • Nýtir fíkn þína til að fá þig til að gera eitthvað.
  • Bannar þér að tala um aðstæður þínar við fjölskyldu, vini eða yfirvöld. 
  • Bannar þér að sækja heilbrigðisþjónustu eða vill koma með þér til læknis.

Úrræði

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi og þolendum mansals stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins sem er til staðar allan sólarhringinn ef þú vilt tala við einhvern. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.

Fjölmenningarsetur

Hjá Fjölmenningarsetrinu geta innflytjendur á Íslandi fengið upplýsingar um réttindi sín.

Mannréttinda­skrifstofa

Hjá Mannréttindaskrifstofu fá innflytjendur ókeypis lögfræðiráðgjöf.

Stop The Traffik: Iceland

Stop The Traffik: Iceland eru sjálfstæð hjálparsamtök sem vinna að fræðslu til þolenda mansals og almennings um eðli mansals, einkenni og úrræði.