Að hafa samband í neyð

Upplýsingagjöf frá innhringjanda er mikilvæg til þess að viðbragðsaðilar átti sig betur á umfangi atviksins og aðstæðum á vettvangi.

Ákvarðanir um hvaða bjargir eru boðaðar og á hvaða forgangi eru meðal annars byggðar á upplýsingum frá þeim sem hefur samband frá vettvangi. Taktu þér tíma í samtalið og reyndu að draga upp sem skýrasta mynd af vettvangi.

Í neyðaratburði má búast við að á vettvangi skapist öngþveiti, hræðsla og streita. Þegar mikið álag myndast gengur allt miklu hægar. Ef þú veist hvernig á að bregðast við minnkar álagið og streitan. Það skapar dýrmætan tíma sem getur oft skilið á milli lífs og dauða. Þá er gott að undirbúa sig fyrir að svara eftirfarandi spurningum.

  • Hvar er atburðurinn?
  • Hvað gerðist?
  • Hvenær?
  • Hver ert þú?

Ekki slíta samtalinu! Neyðarvörður ákveður hvenær nauðsynlegar upplýsingar hafi borist frá þér.

Eftir að samtalinu lýkur er einnig mikilvægt að fylgjast með þeim veika eða slasaða, undirbúa og tryggja móttöku viðbragsðaðila.

  • Hafa samband aftur ef ástand versnar.
  • Opna hurðir eða taka úr lás.
  • Fylgjast með viðbragðasðilum sem eru á leiðinni.
  • Taka á móti þeim sem koma.

Ef þú ert í vafa hvort þú eigir að hafa samband eða ekki, hafðu þá samband í 112.

Athugaðu að öll samtöl til 112 eru vistuð.

Það er líka hægt að hringja í 1-1-2 þó þú sért erlendis. Þá er númerið +354 5702112.

Stutt æfing fyrir neyðarsímtal

1-1-2 er barnanúmerið

Neyðarlínan tekur á móti tilkynningum til Barnaverndar. Ef þú hefur áhyggjur af barni og telur að foreldrar þess séu ekki færir um góða umönnun þess, ættir þú að tilkynna til barnaverndar.

Í 16. gr. barnaverndarlaga kemur fram að öllum er skylt að tilkynna til barnaverndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:
a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Þá er hverjum manni skylt að gera barnavernd viðvart ef ástæða er til að ætla að heilsu eða lífi ófædds barns sé stefnt í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni þungaðrar konu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu, eða með því að þunguð kona er beitt ofbeldi eða ef ástæða er til að ætla að þunguð kona sé beitt ofbeldi, eða um hvert það tilvik sem telja má að barnavernd eigi að láta sig varða.

Öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Það er á ábyrgð fullorðinna að passa upp á það. Kynntu þér nánari upplýsingar er varða velferð barna.

Ef þú ert í vafa hvort þú eigir að hafa samband eða ekki, hafðu þá samband í 112.

Viðbragðsaðilar

Neyðarlínan gegnir mikilvægu hlutverki sem tengiliður milli hinna ýmsu aðila í neyðar- og viðbragðsþjónustu. Samtöl í 1-1-2 eru því mjög fjölbreytt og snúast ekki öll um slys eða bráð veikindi. Neyðarlínan kallar til viðbragðsaðila til aðgerða á vettvangi eins og þurfa þykir. Þessir aðilar eru:

  • Almannavarnarsvið Ríkislögreglustjóra
  • Barnavernd
  • Landhelgisgæslan
  • Lögreglan
  • Rauði Kross Íslands
  • Slysavarnarfélagið Landsbjörg
  • Slökkviliðin í landinu
  • Vegagerðin

Sjá nánar um samstarfsaðila Neyðarlínunnar.

Afgreiðsla erinda

Þegar hringt er í 112 birtist símanúmerið á skjá hjá neyðarverði, sé það til staðar, ásamt áætlaðri staðsetningu á korti hafi verið gefið leyfi til þess að deila henni. Neyðarvörður spyr þá fyrst hvers eðlis erindið sé, fær staðsetningu og nánari upplýsingar eftir því sem eðli málsins er.

Gæðakerfi Neyðarlínunnar er með hundruði verklagsferla, allt frá því hvernig spyrja skal um staðsetningu atburðar að leiðbeiningum um fæðingu í bíl. Þessir ferlar eru innbyggðir í tölvukerfi neyðarvarða og er neyðarvörður þannig studdur skref fyrir skref í viðleitni sinni til að komast sem hraðast að því hver sé nauðsynlegur forgangur viðbragðs og hver sé vettvangur neyðar. Þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir lætur kerfið vita að nú sé komið nóg til að velja réttu viðbragðsaðilana og boða þá í verkefnið.

Erindi eru af mörgum toga

Yfirlit sem sýnir verkefni Neyðarlínunnar 2017 til 2021. Algengustu verkefnin eru aðstoð lögreglu, sjúkraflutningar, veikindi og slys. Önnur eru leit og björgun, heimilisofbeldi, barnavernd og aðstoð slökkviliðs.

Öll erindi sem berast 112 eru greind í Forgang 1-4 samkvæmt greiningarferlum neyðarvarða.

  • Forgangur 1 er aðgerð sem er metin sem lífsógn og í efsta forgangi. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri. Til dæmis aðgerð þar sem allt tiltækt björgunarlið kemur að, stóreldur, fjöldaslys eða einstaklingsslys með alvarlegum áverkum.
  • Forgangur 2 er aðgerð sem er metin í næst efsta forgang. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri en í atburði án lífsógnar.
  • Forgangur 3 er aðgerð sem er metin til afgreiðslu strax en án forgangs. Aðeins viðeigandi björgunarlið er kallað til. Þetta er staðbundin aðgerð sem krefst hvorki forgangs né fjölda manns.
  • Forgangur 4 er aðgerð sem má fara í biðröð annarra verkefna hjá verkefnastjóra á varðstofu. Aðgerðin hefur hugsanlega ákveðin tímamörk, svo sem flutningur milli sjúkrastofnana vegna rannsókna eða aðgerða.