Að hafa samband í neyð
Upplýsingagjöf frá innhringjanda er mikilvæg til þess að viðbragðsaðilar átti sig betur á umfangi atviksins og aðstæðum á vettvangi.
Ákvarðanir um hvaða bjargir eru boðaðar og á hvaða forgangi eru meðal annars byggðar á upplýsingum frá þeim sem hefur samband frá vettvangi. Taktu þér tíma í samtalið og reyndu að draga upp sem skýrasta mynd af vettvangi.
Í neyðaratburði má búast við að á vettvangi skapist öngþveiti, hræðsla og streita. Þegar mikið álag myndast gengur allt miklu hægar. Ef þú veist hvernig á að bregðast við minnkar álagið og streitan. Það skapar dýrmætan tíma sem getur oft skilið á milli lífs og dauða. Þá er gott að undirbúa sig fyrir að svara eftirfarandi spurningum.
- Hvar er atburðurinn?
- Hvað gerðist?
- Hvenær?
- Hver ert þú?
Ekki slíta samtalinu! Neyðarvörður ákveður hvenær nauðsynlegar upplýsingar hafi borist frá þér.
Eftir að samtalinu lýkur er einnig mikilvægt að fylgjast með þeim veika eða slasaða, undirbúa og tryggja móttöku viðbragsðaðila.
- Hafa samband aftur ef ástand versnar.
- Opna hurðir eða taka úr lás.
- Fylgjast með viðbragðasðilum sem eru á leiðinni.
- Taka á móti þeim sem koma.
Ef þú ert í vafa hvort þú eigir að hafa samband eða ekki, hafðu þá samband í 112.
Athugaðu að öll samtöl til 112 eru vistuð.
Það er líka hægt að hringja í 1-1-2 þó þú sért erlendis. Þá er númerið +354 57 02112
Þú nærð líka sambandi við 1-1-2 í gegnum gervihnött. Þá er númerið +354 809 0112