Neyðarlínan veitir neyðar- og öryggisþjónustu

Neyðarverðir Neyðarlínunnar eru á vakt allan sólarhringinn, tilbúnir að veita aðstoð á láði eða legi. Viðbragðsaðilar og þeir sem reka innviði í dreifingu orku og fjarskipta stóla á Tetra fjarskiptakerfið.

Neyðarlínan

Neyðarlínan sér um neyðar- og öryggisþjónustu á Íslandi og starfrækir til þess 112, Vaktstöð siglinga og Tetra fjarskiptakerfið. Rekstur neyðarvaktstöðvar er í samræmi við lög um samræmda neyðarsvörun nr. 40/2008. Neyðarlínan boðar björgunar- og neyðarsveitir á öllu landinu og er tengiliður milli almennings og viðbragðsaðila.

Ein stærsta neyðin er hjálp við endurlífgun

Neyðarlínan er fyrst og fremst til fyrir fólk í sínum stærstu neyðum þótt það sé ekki nema 1% af tilfellum. Í þeim tilvikum þar sem fólk er ekki með hjartslátt og andar ekki verður að hafa samband við 112. Þá hjálpar neyðarvörður við endurlífgun. Með því að hnoða hjartað er hægt að halda góðri heilastarfsemi í um það bil 10 mínútur. Þá ættu bjargir að vera komnar á staðinn sem geta tekið við.

Meira um Neyðarlínuna

Stefna Neyðarlínunnar er að vera ávallt í fararbroddi á sínu sviði. Þekking og færni starfsfólks er ein dýrmætasta eign sérhvers fyrirtækis og ljóst að hæft starfsfólk er grunnurinn að góðum árangri Neyðarlínunnar.

Björgunarsveitarfólk aðstoðar slasaða manneskju á börum

1-1-2, eitt samræmt neyðarnúmer

Neyðarlínan rekur fullkomnustu vaktstöð á landinu sem nýtir nýjustu upplýsinga- og fjarskiptatækni. Í vaktstöð Neyðarlínunnar svara neyðarverðir beiðnum um hjálp gegnum síma og netspjall 112 allan sólarhringinn, árið um kring. Hlutverk 112 er að bjóða upp á eitt samræmt neyðarnúmer sem veitir mannúðlega, óhlutdræga og áreiðanlega þjónustu.

Vaktstöð siglinga

Vaktstöð siglinga er einnig til húsa í vaktstöð Neyðarlínunnar. Þar er fylgst með sjálfvirkum tilkynningum frá öllum skipaflotanum. Berist ekki tilkynning eða komi neyðarbeiðnir af sjó til 112 er þeim beint til Vaktstöðvar siglinga sem annast móttöku og miðlun tilkynninga um óhöpp á sjó. Hjá Vaktstöð siglinga starfar fólk með sérþekkingu á skipulagi leitar og björgunar á sjó.

Tetra

Neyðarlínan rekur einnig Tetra fjarskiptakerfið. Tetra er fullkomið fjarskiptakerfi fyrir öryggis- og neyðarþjónustu sem þjónar öllum viðbragðsaðilum um allt land, ásamt aðilum í rekstri innviða eins og framleiðslu og dreifingu raforku, vegagerðar og fjarskipta.

Öryggisnúmer sumarhúsa

Sumarhúsaeigendum stendur til boða að merkja sumarhús sín með fasteignanúmeri og neyðarnúmerinu, 112 til að til að auka öryggi og geta veitt björgunarliði nákvæmari upplýsingar þegar hætta steðjar að.