Í samstarfi við Landssamband sumarhúsaeigenda og Þjóðskrá hefur Neyðarlínan haft forgöngu um að koma öryggismerkingum með fasteignanúmeri eignar á öll frístundahús í landinu. Landssamband sumarhúsaeigenda hefur sinnt þessu verkefni frá 2002, en í byggingareglugerð 112/2012 segir m.a. í grein 9.8.7. að farið sé fram á að auðkenni um staðsetningu sumarhúsa, fjallaskála, skíðaskála, veiðihúsa og annarra slíkra bygginga sem má gefa upp til Neyðarlínu, skuli vera utandyra á útvegg.

Tilgangur merkinganna að auka öryggi sumarhúsaeigenda. Dæmi eru um að í neyðartilvikum fari björgunaraðilar villur vegar vegna ónákvæmra upplýsinga um staðsetningu þess sem óskar eftir aðstoð. Öryggisnúmer á sumarhús geta komið í veg fyrir að mikilvægur tími björgunarliðs fari til spillis í neyðartilvikum. Enn fremur geta þriðju aðilar með einföldum hætti látið vita ef vá steðjar að og látið Neyðarlínuna vita með því að hringja í 112 og gefið upp öryggisnúmerið, ef eigandi sumarhússins er ekki viðstaddur, þannig að hægt sé að hafa samband við viðkomandi.

Hægt er að nálgast slíkar öryggismerkingar hjá Landssambandi sumarhúsaeigenda. Við pöntun á öryggisskilti þarf að gefa upp nafn, kennitölu, heimilisfang, póstnúmer og símanúmer eiganda frístundahússins, ásamt götuheiti eða fastanúmeri hússins. Fasteignanúmerið birtist á greiðsluseðli fasteignagjalda og má einnig finna á vef Þjóðskrár. Sumarhúsaeigendur fá tvö skilti, annað til að festa á húsið utanvert, (30x10cm að stærð) og hitt innanhúss (15x5cm að stærð). Framleiðsluaðili sér til þess að öryggisnúmerin verði skráð í gagnagrunn Neyðarlínunnar.

Landssamband sumarhúsaeigenda

pöntunarsími 5813200

sumarhus[hjá]sumarhus.is