Stefna Neyðarlínunnar

Kurteisi í samskiptum er grundvallarregla hjá starfsmönnum, stjórnendum sem og við viðskiptamenn félagsins. Einnig að komið sé fram við alla af virðingu og í samræmi við siðareglur Neyðarlínunnar.

Markmið stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi er að koma í veg fyrir slíka háttsemi og aðra ótilhlýðilega hegðun í starfsemi Neyðarlínunnar með forvörnum og jafnframt að tryggja að úrræði séu til staðar telji aðili sig hafa orðið fyrir slíkum brotum.

Við mat á því hvort viðbragðsáætlun sé virkjuð skiptir ekki máli hvort annar en starfsmaður sé gerandi eða þolandi. Þá skiptir ekki máli hvort atvikið sem um ræðir á sér stað utan vinnustaðar svo lengi sem starfsmenn eiga hlut að máli.


Einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir, eða orðið vitni að, ósæmilegri hegðun geta fyllt út eyðublað hér fyrir neðan til að koma tilkynningu eða ábendingu á framfæri við siðanefnd félagsins. Starfsmaður sem þess óskar getur þó jafnan borið málið upp við framkvæmdastjóra félagsins og leitað aðstoðar hans, kjósi hann það fremur. Siðanefnd Neyðarlínunnar tekur öll mál til skoðunar og/eða beinir í viðeigandi farveg. Mál sem varða framkvæmdarstjóra skal vísa til stjórnarformanns Neyðarlínunnar.

Í Siðanefnd Neyðarlínunnar eru: Framkvæmdarstjórn Neyðarlínu ohf.

Skilgreiningar

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Viðbragðsáætlun Neyðarlínunnar

Sé ábendingu eða umkvörtun um óæskilega hegðan, sem reglum þessum er ætlað að taka til komið á framfæri við framkvæmdastjóra skal hann hið fyrsta í samráði við þann sem beint hefur til hans kvörtun eða ábendingu meta hvort rétt sé eða skylt að setja málið í formlega umfjöllun siðanefndar félagsins eða hvort málið sé þess eðlis að óformlegri viðbrögð séu líkleg til að skila árangri.

  • Koma skal ábendingum á framfæri skriflega með tölvupósti eða í gegnum ábendingarhnapp á innri vef Neyðarlínunnar.
  • Móttaka erinda skal staðfest innan 48 klst.
  • Siðanefnd ber skylda til að bregðast eins fljótt og unnt er við öllum kvörtunum um áreitni, einelti, ofbeldi eða aðra óæskilega framkomu sem valdið getur starfsmönnum ama eða óþægindum. Nefndin skal sýna nærgætni, sanngirni og gæta hlutleysis við meðhöndlun viðkvæmra mála.
  • Fulltrúi/fulltrúar siðanefndar skal/skulu ræða aðila málsins innan tveggja vikna.
  • Leiðbeina skal starfmönnum um meðferðar- og stuðningsúrræði.
  • Ef ástæða er til er óháður aðili fenginn til að meta aðstæður og hlutast til um úrlausn.
  • Leiði mat á aðstæðum fram þá niðurstöðu að einelti, áreitni eða ofbeldi hafi ekki átt sér stað á vinnustaðnum skal þó gripið til aðgerða sem hafi það að markmiði að draga úr líkum á því, að einstakir starfsmenn finni til óþæginda í samskiptum á vinnustaðnum.
  • Teljist atvikið alvarlegt verður það kært til lögreglu en þó aðeins með samþykki þolanda.
  • Einelti, áreitni og ofbeldi getur varðað áminningu eða brottvikningu úr starfi. 

Skyldur Neyðarlínunnar

Neyðarlínan skal samræmi við ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 1009/2015 greina áhættuþætti eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum og skal niðurstaða matsins höfð til hliðsjónar við mótun fyrirbyggjandi aðgerða gegn ofbeldi af öllum toga á vinnustöðum félagsins.

  • Stjórnendur skulu vinna að því að tryggja gott vinnuumhverfi og samskipti á vinnustað.
  • Stjórnendum ber að sýna gott fordæmi í öllum samskiptum.
  • Að stjórnendur gefi starfsmönnum skýr skilaboð um að einelti, áreitni og ofbeldi líðist ekki á vinnustaðnum.
  • Að upplýsa og fræða starfsfólk um orsakir og afleiðingar eineltis, áreitni og ofbeldi og þær reglur sem um þessa hegðun gilda á vinnustaðnum.
  • Að vinna að forvörnum og reyna að fyrirbyggja að þær aðstæður skapist sem geti leitt til ótilhlýðilegrar háttsemi eða eineltis.
  • Að vinna að jákvæðum starfsanda og vinnustaðarmenningu sem byggist á góðum samskiptum, virðingu og umburðarlyndi gagnvart margbreytileika mannlífsins.
  • Að bjóða starfsmönnum sem upplifa einelti, áreitni eða ofbeldi að leita sér aðstoðar hjá fagaðilum eins og sálfræðingi og lækni.
  • Að virkja viðbragðsáætlun Neyðarlínunnar þegar við á.
  • Að hafa skýrt verklag um meðferð mála er varða einelti, kynferðislega áreitni og ofbeldi.
  • Að stjórnendur bjóði upp á starfsmannasamtöl a.m.k. einu sinni á ári þar sem rætt er um þessi mál meðal annarra.
  • Að hafa reglulega fundi með starfsfólki þar sem hægt er að ræða innri mál.
  • Meðan athugun fer fram skal næsti yfirmaður grípa til ráðstafana sem tryggja að ætlaður þolandi og ætlaður gerandi þurfi ekki að hafa samskipti er varðar starfsemi vinnustaðarins, svo sem með breyttum verkferlum.
  • Varði málsatvik aðila sem ekki er starfsmaður félagsins skal næsti yfirmaður, eins og hægt er, sjá til þess að starfsmaður þurfi ekki að vera í samskiptum við aðilann meðan málið er í vinnslu.

Skyldur starfsfólks Neyðarlínunnar

  • Að sýna öllum góða og vandaða framkomu og fara eftir siðareglum og jafnréttisstefnu vinnustaðarins.
  • Að leggja sitt af mörkum til að stöðva óæskilega hegðun sem getur leitt til eineltis, t.d. með því að reyna að leysa ágreining og vandamál sem koma upp í samskiptum og gera athugasemdir við óviðeigandi orðalag eða hegðun.
  • Að sýna þeim stuðning sem hallar á í samskiptum og taka ekki þátt í neikvæðri umræðu um samstarfsmenn.
  • Að upplýsa ef einstaklingur telur að brotið sé á sér.
  • Að upplýsa ef grunur er um einelti, áreitni, ofbeldi eða vanlíðan.

Aðgerðir í kjölfar niðurstöðu

Þegar mál telst nægjanlega upplýst skal framkvæmdarstjóri taka ákvörðun, í samráði við siðanefnd Neyðarlínunnar, til hvaða aðgerða verði gripið í samræmi við alvarleika máls hverju sinni.

Þegar atvik eða hegðun telst vera einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi eða önnur ótilhýðilega hegðun verður brugðist við eftir eðli máls með því að veita geranda tiltal, áminningu, tilfærslu í starfi eða honum sagt upp störfum.

Þolanda og geranda verður veitt viðhlítandi aðstoð.

Mál sem talin eru varða við almenn hegningarlög skal aðeins tilkynna til lögreglu í samráði við þolanda.

Tilkynna skal hlutaðeigandi starfsmönnum sem og trúnaðarmanni skriflega um málalyktir. Áður en málinu er lokið skal bera skýrsluna undir ætlaðan þolanda og ætlaðan geranda.

Upplýsingar til annarra starfsmanna

Meta þarf í hverju tilviki hvort nauðsynlegt sé að upplýsa aðra starfsmenn um lyktir mála eða farveg þeirra, með það að markmiði að tryggja heilbrigt og jákvætt vinnuumhverfi. Þess skal gætt að persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar, sem eðlilegt er að trúnaður ríki um, séu ekki veittar óviðkomandi aðilum.

Eftirfylgni mála

Næstu yfirmenn þolanda og geranda skulu fylgja málinu eftir í þeim tilgangi að tryggja að umrædd háttsemi endurtaki sig ekki. Láti gerandi ekki af háttsemi sinni sem leiddi til málsmeðferðar, þrátt fyrir leiðsögn eða áminningu, getur það leitt til tafarlausrar brottvikningar úr starfi.

Stefnu þessa skal endurskoða á tveggja ára fresti.

Samþykkt á stjórnarfundi nr. 210 dagsetning 3.6.2024

Hafðu samband

Ábendingu til siðanefndar Neyðarlínunnar má koma á framfæri hér. Staðfesting á móttöku beiðna verður svarað innan 48 klst.