Afgreiðsla erinda
Þegar hringt er í 112 birtist símanúmerið á skjá hjá neyðarverði ásamt áætlaðri staðsetningu á korti. Neyðarvörður spyr þá fyrst hvers eðlis erindið sé, fær staðsetningu og nánari upplýsingar eftir því sem eðli málsins er.
Gæðakerfi Neyðarlínunnar er með hundruði verklagsferla, allt frá því hvernig spyrja skal um staðsetningu atburðar að leiðbeiningum um fæðingu í bíl. Þessir ferlar eru innbyggðir í tölvukerfi neyðarvarða og er neyðarvörður þannig studdur skref fyrir skref í viðleitni sinni til að komast sem hraðast að því hver sé nauðsynlegur forgangur viðbragðs og hver sé vettvangur neyðar. Þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir lætur kerfið vita að nú sé komið nóg til að velja réttu viðbragðsaðilana og boða þá í verkefnið.
Erindi eru af mörgum toga

Öll erindi sem berast 112 eru greind í Forgang 1-4 samkvæmt greiningarferlum neyðarvarða.
- Forgangur 1 er aðgerð sem er metin sem lífsógn og í efsta forgangi. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri. Til dæmis aðgerð þar sem allt tiltækt björgunarlið kemur að, stóreldur, fjöldaslys eða einstaklingsslys með alvarlegum áverkum.
- Forgangur 2 er aðgerð sem er metin í næst efsta forgang. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri en í atburði án lífsógnar.
- Forgangur 3 er aðgerð sem er metin til afgreiðslu strax en án forgangs. Aðeins viðeigandi hluta björgunarliðs er kallaður til. Þetta er staðbundin aðgerð sem krefst hvorki forgangs eða fjölda manns.
- Forgangur 4 er aðgerð sem má fara í biðröð annarra verkefna hjá verkefnastjóra á varðstofu. Aðgerðin hefur hugsanlega ákveðin tímamörk, svo sem flutningur milli sjúkrastofnana vegna rannsókna eða aðgerða.