Að hringja í 112

Neyðarverðir eru á vakt allan sólarhringinn til að aðstoða fólki í neyð. Aðstaða er fyrir átta neyðarverði í vaktstöðinni í Skógarhlíð en mismargir eru á vakt, allt eftir væntu álagi.

Að hringja í neyð

Í neyðaratburði má búast við að á vettvangi skapist öngþveiti, hræðsla og streita. Þegar mikið álag myndast gengur allt miklu hægar. Ef þú veist hvernig á að bregðast við minnkar álagið og streitan. Það skapar dýrmætan tíma sem getur oft skilið á milli lífs og dauða. Þá er gott að undirbúa sig fyrir að svara eftirfarandi spurningum.

  • Hvar er atburðurinn?
  • Hvað gerðist?
  • Hvenær?
  • Hver ert þú?

Ekki slíta samtalinu! Neyðarvörður ákveður hvenær nauðsynlegar upplýsingar hafi borist frá þér.

Ef þú ert í vafa hvort þú eigir að hringja eða ekki, hringdu þá í 112.

Athugaðu að öll símtöl til 112 eru tekin upp.

Óútskýranleg upplifun

Fyrsta erfiða símtal Þorbjargar var strax fyrsta daginn hennar sem neyðarvörður, það var endurlífgun. Uppáhaldssímtalið hennar er þegar hún aðstoðaði við fæðingu gegnum símann. Þorbjörgu líður vel að koma heim að loknum vinnudegi og vita að hún hafi hjálpað einhverjum. 

Sérstök lífsreynsla

Starf neyðarvarðar felst í að bera ábyrgð á öryggi samborgara sinna. Neyðarverðir eru til staðar á verstu tímum fólks. Friðrik viðurkennir að starfið getur verið mjög yfirþyrmandi en á sama tíma gefandi. Friðrik man sem betur fer best eftir málum sem leysast vel.

Afgreiðsla erinda

Þegar hringt er í 112 birtist símanúmerið á skjá hjá neyðarverði ásamt áætlaðri staðsetningu á korti. Neyðarvörður spyr þá fyrst hvers eðlis erindið sé, fær staðsetningu og nánari upplýsingar eftir því sem eðli málsins er.

Gæðakerfi Neyðarlínunnar er með hundruði verklagsferla, allt frá því hvernig spyrja skal um staðsetningu atburðar að leiðbeiningum um fæðingu í bifreið. Þessir ferlar eru innbyggðir í tölvukerfi neyðarvarða og er neyðarvörður þannig studdur skref fyrir skref í viðleitni sinni til að komast sem hraðast að því hver sé nauðsynlegur forgangur viðbragðs og hver sé vettvangur neyðar. Þegar nægjanlegar upplýsingar liggja fyrir lætur kerfið vita að nú sé komið nóg til að velja réttu viðbragðsaðilana og boða þá í verkefnið.

Erindi eru af mörgum toga

Öll erindi sem berast 112 eru greind í Forgang 1-4 samkvæmt greiningarferlum neyðarvarða. 

  • Forgangur 1 er aðgerð sem er metin sem lífsógn og í efsta forgangi. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri. Til dæmis aðgerð þar sem allt tiltækt björgunarlið kemur að, stóreldur, fjöldaslys eða einstaklingsslys með alvarlegum áverkum.
  • Forgangur 2 er aðgerð sem er metin í næst efsta forgang. Sjúkrabíll og/eða annað björgunarlið er sent í forgangsakstri en í atburði án lífsógnar. 
  • Forgangur 3 er aðgerð sem er metin til afgreiðslu strax en án forgangs. Aðeins viðeigandi hluta björgunarliðs er kallaður til. Þetta er staðbundin aðgerð sem krefst hvorki forgangs eða fjölda manns.
  • Forgangur 4 er aðgerð sem má fara í biðröð annarra verkefna hjá verkefnastjóra á varðstofu. Aðgerðin hefur hugsanlega ákveðin tímamörk, svo sem flutningur milli sjúkrastofnana vegna rannsókna eða aðgerða.

Mál vegna heimilisofbeldis

Símtöl þar sem vitni af heimilisofbeldi hringja inn eru alltaf erfið. Þorbjörg lýsir því hvernig neyðarverðir svara þeim málum og koma áfram til lögreglu. Neyðarverðir veita einnig upplýsingar um úrræði fyrir ofbeldi gegnum síma eða netspjall.

Alls konar vandamál

„Þetta er ekki neyðarástand en …“ Þannig byrja mörg símtöl sem koma inn til Friðriks en eru samt kannski neyðarástand. Önnur mál eru smávægilegri en neyðarverðir reyna alltaf að hjálpa fólki.