Af hverju Ofbeldisgátt?

Í upphafi kórónaveirufaraldursins varð töluverð aukning í tilkynningum um heimilisofbeldi, sem meðal annars leiddi til þess að tvær konur voru myrtar við slíkar aðstæður. Stjórnvöld ákváðu að ráðast í aðgerðir til að stemma stigu við þeirri ógnvænlegu þróun. Eitt af því var að skapa hlutlausan stað fyrir allar upplýsingar um ofbeldi á einum stað - sem hlaut nafnið Ofbeldisgátt og er hýst á vefsvæði Neyðarlínunnar, 112.is.

Vefurinn var fyrst birtur í október 2020 og er gerður í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og dómsmálaráðuneyti. Hugmyndin kom fyrst upp hjá aðgerðateymi gegn ofbeldi sem þá var skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur Ríkislögreglustjóra og Eygló Harðardóttur, sem þá var verkefnastjóri í félagsmálaráðuneytinu.

Áherslur

Áhersla var lögð á að 112.is væri aðgengilegur, inngildandi og laus við dómhörku. Öll rannsóknarvinna miðaðist við að þolendur og þolendasamtök hefðu sterka rödd.

Efnið á 112.is spannar ofbeldi vítt og breitt og lögð er áhersla á að ná sérstaklega til viðkvæmra hópa á borð við börn, fatlað fólk og innflytjendur. Vefurinn er því settur upp á aðgengilegan hátt fyrir þá sem ekki nota lyklaborð og mús, skrifaður á auðskildu máli og skartar hlutlausum teiknuðum myndum. Allt efni á vefnum er aðgengilegt á ensku og pólsku.

Engin fótspor

Vefurinn geymir engin fótspor eftir heimsókn notanda, notar ekki aðrar leiðir til að elta notandann á vefnum og það er alltaf hægt að slökkva með einum smelli. Markmiðið er að gera vefinn að öruggu svæði fyrir alla notendur, til að tryggja að notandinn komi aftur ef hann þarf þess.

Vitundarvakning

Vitundarvakningu var ýtt úr vör samhliða Ofbeldisgáttinni, þar sem ólíkar birtingarmyndir ofbeldis voru ræddar, allt frá ofbeldi í nánum samböndum, yfir í barnavernd, yfir í ofbeldi gagnvart öldruðum, fötluðu fólki og fólki af erlendum uppruna.

Markmið

Tilgangur og markmið Ofbeldisgáttar er að lækka þröskuld þolenda ofbeldis að hjálp, með fræðslu sem er sett fram á skýran og aðgengilegan hátt. Sérstök áhersla var lögð á að fjalla um viðkvæma hópa á borð við fatlað fólk, hinsegin einstaklinga, innflytjendur og eldra fólk.

Markmið Ofbeldisgáttar er einnig að texti sé auðlesinn, kynhlutlaus og að efni vefjarins endurspegli samfélagsumræðu hverju sinni.

Árangur

Umferð um Ofbeldsgáttina hefur aukist jafnt og þétt frá upphafi. Mest lesna síða Ofbeldisgáttarinnar er andlegt ofbeldi, sem er sterk vísbending um að þó að málaflokkurinn sé falinn, veki efnið áhuga margra. Lesendur dvelja lengi við hverja síðu, sem endurspeglar að lesandi virkilega lesi innihald vefjarins, gefi sér tíma og taki það inn. Notkun netspjallsins hefur einnig aukist jafnt og þétt, en netspjall er annar valkostur til að ná beinu sambandi við neyðarvörð hvenær sem er.

Á 112 deginum 2023, þann 11.febrúar var undirritaður samstarfssamningur milli Neyðarlínunnar og dómsmálaráðuneytisins um áframhaldandi vinnu við Ofbeldisgátt, til að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum um ofbeldi til næstu fimm ára.

Er það ofbeldi ef umönnunaraðili vanrækir eldri manneskju?

Vanræksla er nýleg birtingarmynd ofbeldis, þar sem aðstandandi eða umsjónaraðili sinnir eldri manneskju ekki eins og þarf. Til dæmis með því að neita henni um lyf eða aðra þjónustu sem hún á rétt á.