Lögreglan
Það er ekki bara barnavernd sem tekur við málinu þínu. Það eru líka lögreglan og lögfræðingur sem er kallaður réttargæslumaður. Allt þetta fólk vinnur saman. Þau tala við foreldra þína og rannsaka málið.
Hringt í lögreglu
Oft er lögreglan kölluð á staðinn vegna heimilisofbeldis. Kannski hefur einhver á heimilinu hringt eða einhver annar sem hefur látið lögregluna vita. Þegar lögreglan sér að ofbeldi á sér stað á heimili þar sem barn býr lætur hún alltaf barnavernd vita. Þá kemur manneskja frá barnavernd til að passa upp á þig og aðstoða fjölskylduna. Oftast er sá sem beitti ofbeldinu fjarlægður af heimilinu.
Lögreglan rannsakar
Lögreglan safnar saman alls konar upplýsingum um það sem hefur gerst. Til dæmis tala þau við foreldra þína og annað fólk sem gæti vitað eitthvað um málið. Ef þú ert 15 ára eða eldri talar lögreglan líka við þig en ef þú ert yngri er sérfræðingur hjá Barnahúsi sem talar við þig.
Þetta gerir lögreglan til að það sé hægt að sanna það sem gerðist.
Réttargæslumaður
Réttargæslumaður er lögfræðingur sem hjálpar þeim sem verða fyrir ofbeldi í gegnum réttarkerfið. Það þarf ekki að borga honum laun, heldur gerir ríkið það.