Starfsfólk Neyðarlínu sinnir að jafnaði verkefnum sem varða kjarnastarfsemi félagsins en öðrum verkefnum er útvistað eins og kostur og hagræði er af. Útvistun verkefna getur meðal annars náð til upplýsingatækniþjónustu, þjónusta ýmissa iðnaðarmanna, mannauðs-, lögfræði- og fjármálaþjónustu og ýmissar birgja- og viðgerðarþjónustu.

Markmið

Útvistunar- og verktakastefnu er ætlað að stuðla að því að:

 • starfsaðstæður veiti starfsfólki tækifæri til að einbeita sér að því að sinna kjarnaverkefnum,
 • hagræða í rekstri með því að kaupa að þjónustu sem aðrir hafa getu til að sinna jafnvel eða betur en starfsfólk Neyðarlínu og með minni tilkostnaði,
 • fjöldi starfsfólks sé hæfilegur til að sinna reglulegum verkefnum og að álagi vegna tímabundinna verkefna sé útvistað þ.a. hæfilegt jafnvægi sé á milli innri þjónustu og útvistaðri,
 • nýta ávallt bestu tækni og sérfræðiþekkingu sem völ er á hverju sinni,
 • útvistun styðji við nýsköpun, atvinnulífið og auki fjölbreytni,
 • stuðli að til staðar sé mannskapur með þekking á vinnulagi og verkefnum Neyðarlínu um allt land.

Leiðir að markmiði

Leiðir Neyðarlínunnar að ofangreindum markmiðum eru að:

 • gerðir séu skriflegir samningar um verktöku þar sem verkefni er afmarkað þ.m.t. umfang þess og kostnaður og að nákvæmt eftirlit sé haft með efndum verktaka,
 • einungis sé skipt við trausta verktaka sem skilja og virða stefnur Neyðarlínu,
 • verkefni sé ekki útvistað nema á grundvelli mats sem m.a. byggi á hæfni og getu, sérþekkingu og öryggis- og áhættugreiningu,
 • verktaki tryggi og ber ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni,
 • sömu kröfur séu gerðar til starfsfólks verktaka sem vinna fyrir Neyðarlínuna hvað varðar trúnað og heilindi og gerðar eru til starfsfólks Neyðarlínu,
 • enginn starfsmaður verktaka starfi fyrir Neyðarlínuna nema hann hafi verið samþykktur formlega af viðkomandi yfirmanni Neyðarlínunnar og hafi ef við á undirritað trúnaðaryfirlýsingu gagnvart fyrirtækinu,
 • tryggja að verktakar fylgja stjórnsýslulögum, lögum um persónuvernd, upplýsingalögum og öðrum lögum sem kunna að eiga við.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að stefnunni sé fylgt og getur falið starfsmönnum að framfylgja tilteknum atriðum hennar.

Stefna þessi er gefin út af Neyðarlínunni ohf. og gildir frá útgáfudegi og til þess tíma að ný verktaka- og útvistunarstefna tekur gildi. Stefna þessi var staðfest á fundi stjórnar þann 25. janúar 2023 og birt á vef 112.is þann 21.febrúar 2023. Stefna þessi er endurskoðuð reglulega og kann því að taka breytingum. Markmið Neyðarlínunnar er að stefnan sé skýr og auðskilin.