Innflytjendur
Íbúar á Íslandi sem eru fæddir erlendis, óháð ríkisborgararétti, kallast innflytjendur.
Það á líka við um:
- flóttafólk
- fólk sem á erlent foreldri eða foreldra
- farandverkafólk (verkafólk sem fer á milli landa þar sem vinna býðst).
Árið 2023 voru 18% af íbúum á Íslandi innflytjendur.
Flóttafólk
Flóttafólk er yfirhugtak sem nær til einstaklinga sem hafa fengið viðurkennda stöðu sem flóttafólk samkvæmt alþjóðlegum samningum.
Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og viðauki hans skilgreina og tryggja réttindi flóttafólks.
Lög um útlendinga nr. 80/2016 skilgreina flóttamann sem „útlending sem er utan heimalands síns eða ríkisfangalaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur.“
Kvótaflóttafólk
Kvótaflóttafólk eru einstaklingar sem hafa fengið boð um að koma hingað til lands á vegum stjórnvalda. Á síðustu árunum hafa íslensk stjórnvöld boðið kvótaflóttamönnum meðal annars frá Sýrlandi og Afganistan.
Hælisleitendur (Umsækjendur um alþjóðlega vernd)
Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einstaklingar sem koma hingað til lands á eigin vegum. Útlendingastofnun sér um umsóknir hælisleitenda.
Ísland er aðili að Dyflinnarsamstarfi en í því felst að ef einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd í einu landi, þá sér það land um mál þess einstaklings. Ísland þarf því ekki að taka mál til meðferðar ef einstaklingur hefur áður sótt um vernd í landi sem er hluti af Dyflinnarsamstarfinu.