Jaðarsettir hópar

Jaðarsetning er það þegar manneskja eða hópur er settur til hliðar og lengra frá því sem aðrir hafa greiðari aðgang að.

Manneskja í jaðarsettum hóp á erfiðara með vissa hluti í samfélaginu heldur en aðrir.

Dæmi um hluti sem geta verið erfiðari fyrir fólk í jaðarsettum hópum er til dæmis:

  • að fá aðgang að grunnþjónustu.
  • að nýta sér tækifæri í samfélaginu.
  • að fá aðstoð og stuðning.

Þeir hópar sem eru oft jaðarsettir eru til dæmis:

  • fólk af erlendum uppruna
  • fólk með dökkan húðlit
  • innflytjendur
  • flóttafólk
  • hinsegin fólk
  • fátækir
  • fatlaðir.

Fólk í sama hópi getur fundið mismikið fyrir jaðarsetningu.

Innflytjendur

Íbúar á Íslandi sem eru fæddir erlendis, óháð ríkisborgararétti, kallast innflytjendur.

Það á líka við um:

  • flóttafólk
  • fólk sem á erlent foreldri eða foreldra
  • farandverkafólk (verkafólk sem fer á milli landa þar sem vinna býðst).

Árið 2023 voru 18% af íbúum á Íslandi innflytjendur.

Flóttafólk

Flóttafólk er yfirhugtak sem nær til einstaklinga sem hafa fengið viðurkennda stöðu sem flóttafólk samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og viðauki hans skilgreina og tryggja réttindi flóttafólks.

Lög um útlendinga nr. 80/2016 skilgreina flóttamann sem „útlending sem er utan heimalands síns eða ríkisfangalaus einstaklingur sem er utan þess lands þar sem hann hafði reglulegt aðsetur.“

Kvótaflóttafólk

Kvótaflóttafólk eru einstaklingar sem hafa fengið boð um að koma hingað til lands á vegum stjórnvalda. Á síðustu árunum hafa íslensk stjórnvöld boðið kvótaflóttamönnum meðal annars frá Sýrlandi og Afganistan.

Hælisleitendur (Umsækjendur um alþjóðlega vernd)

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eru einstaklingar sem koma hingað til lands á eigin vegum. Útlendingastofnun sér um umsóknir hælisleitenda.

Ísland er aðili að Dyflinnarsamstarfi en í því felst að ef einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd í einu landi, þá sér það land um mál þess einstaklings. Ísland þarf því ekki að taka mál til meðferðar ef einstaklingur hefur áður sótt um vernd í landi sem er hluti af Dyflinnarsamstarfinu.

Hinsegin fólk

Hinsegin er regnhlífarhugtak yfir alla þá sem eru ekki gagnkynhneigðir eða falla ekki inn í það sem kallast hefðbundið kyn. Þar með talið eru lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir, pankynhneigðir, trans fólk, intersex, eikynhneigðir og fleira.

Lögin standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Það þýðir að öll eigi fullkominn rétt til að ráða yfir eigin líkama og að borin sé virðing fyrir rétti allra til lífs, öryggis, frelsis og mannlegrar reisnar.

Lesa um ofbeldi gegn hinsegin fólki

Fatlað fólk

Fatlað fólk, bæði andlega og líkamlega fatlað, er oft jaðarsett.

Jaðarsetning á fötluðu fólki getur til dæmis falist í því að:

  • Það er ekki aðgengi fyrir það að fyrirtækjum eða stofnunum.
  • Þeim er ekki treyst fyrir verkefnum sem þau geta vel sinnt.
  • Þau fá ekki að taka þátt í athöfnum og viðburðum sem aðrir fá að taka þátt í.
  • Það er talað niður til þeirra eða sjálfsákvörðunarréttur þeirra er tekin af þeim.

Lesa um ofbeldi gegn fötluðu fólki

Aðrir hópar

Einstaklingar sem eru ekki endilega jaðarsettir almennt í samfélaginu geta verið jaðarsettir í vissum hópum. Þeir hópar geta verið allt frá vinahóp eða fjölskyldu og yfir í vinnustað eða trúarsamfélag. Sem dæmi eru konur jaðarsettar í mörgum hópum.