Beint í efni

Dagskrá 112 dagsins, þann 11. febrúar 2022

Neyðarlínan heldur merkjum 112 á lofti þann 11.febrúar ár hvert, af því dagsetningin 11.2. minnir okkur á neyðarnúmer allra landsmanna, 112. Það er mikilvægt að minna á þetta númer - af því þetta er eina númerið sem landsmenn þurfa að þekkja í neyð.

Dagskráin er með smærra sniði í ár, líkt og í fyrra vegna faraldursins og því sendum við beint út hér úr Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Útsendingin hefst kl. 12 á hádegi, föstudaginn 11. febrúar 2022.

Dagskrá

Setning – Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar

Ávarp dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson

Viðurkenning fyrir eldvarnargetraun LSOS - Bjarni Ingimarsson varaformaður LSOS

Skyndihjálparmaður ársins - verðlaunaafhending - Sveinn Kristinsson formaður RKÍ

Nýtt gagnvirkt myndband frá Neyðarlínunni um samskipti við neyðarvörð kynnt

Samskipti við neyðarvörð

Á bak við Neyðarlínuna stendur fjöldinn allur af viðbragðsaðilum, sem við flest þekkjum andlitin á - björgunarsveitir, lögregla, sjúkraflutningafólk, heilsugæsla svo fátt eitt sé nefnt. Færri þekkja þó manneskjuna sem mætir okkur í símanum þegar neyðin bankar upp á.

Neyðarverðir eru þeir sem vinna bak við tjöldin, að því að miðla neyðarkalli eins hratt og mögulegt er. Aðstæður geta verið æði mismunandi, sem og ástand þess sem hringir. Í tilefni af 112 deginum í ár vörpum við kastljósinu á neyðarverðina okkar og til að veita innsýn inn í starf þeirra. Á 112 deginum birtum við myndband sem varpar ljósi á starf neyðarvarðar og hvernig við, sem almenningur, getum best miðlað nauðsynlegum upplýsingum til að fá hjálpina á staðinn sem fyrst. Hvert símtal er ólíkt því fyrra en kjarni þess sem neyðarverðir vinna eftir er HVAR ERTU og HVAÐ GERÐIST. Með því að miðla þessu fyrst, þá komast boðin skjótt til viðbragðsaðila.

Friðrik neyðarvörður

Þorbjörg neyðarvörður

Elva neyðarvörður

Tómas aðstoðarframkvæmdastjóri