Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.

Dómstólarnir taka við málinu

  1. Lögreglan sendir málið til héraðssaksóknara. Þar er málið skoðað aftur. Héraðssaksóknari er lægsta dómstigið á Íslandi. Önnur dómstig eru Landsréttur og hæstiréttur, sem er efsta dómstigið.
  2. Hjá héraðssaksóknara er ákveðið hvort einstaklingurinn sem braut á þér verði ákærður eða ekki.
  3. Ef hann er ákærður þarf hann að mæta fyrir dóminn og segja hvort hann sé sekur eða saklaus. Þetta fyrsta skref fyrir dómi er kallað þingfesting. Þú þarft ekki að mæta þangað.
  4. Ef viðkomandi segist vera sekur og viðurkennir að hafa brotið á þér, segir dómarinn hvaða refsingu viðkomandi á að fá.
  5. Ef einstaklingurinn sem braut á þér neitar því að hafa gert það, þá þarf að rétta í málinu í héraðsdómi. Héraðsdómar eru út um allt land.
  6. Það sem við köllum oft réttarhöld er kallað aðalmeðferð í dómsal. Þegar aðalmeðferð er lokið þá ákveður dómari dóminn. Þá segir hann til um það hvort það sé búið að sanna að viðkomandi sé sekur eða ekki. Ef það hefur ekki tekist að sanna það nógu vel er hann saklaus.

Hvar fer aðalmeðferðin fram?

Héraðsdómar eru á átta mismunandi svæðum á landinu. Yfirleitt er málið tekið fyrir þar sem gerandinn á heima.

Staðreynd: Það eru mestar líkur á að einstaklingur sem brýtur á þér sé einhver sem þú þekkir.

Af hverju eru mál felld niður?

Ef það hefur ekki náðst að safna nægum gögnum um málið þitt ákveður héraðssaksóknari að gefa ekki út ákæru. Þá er málið fellt niður. Ef málið þitt nær ekki lengra í kerfinu þýðir það alls ekki að ofbeldið hafi ekki átt sér stað.

Lögreglan og dómstólar mynda réttarvörslukerfið. Í réttarvörslukerfinu má ekki túlka mál öðruvísi en út frá gögnum og því sem er sannað. Helsta hlutverk lögreglu og dómstóla er að horfa blákalt á gögn í sakamálum.

Ef málið þitt er fellt niður er farið yfir ástæðurnar fyrir því með foreldrum þínum eða forsjáraðilum og réttargæslumanninum.

Niðurfelling kærð til ríkissaksóknara

Það er hægt að kæra það að málið hafi verið fellt niður. Þá ræða foreldrar þínir eða forsjáraðilar við réttargæslumanninn þinn um það.

Að fá upplýsingar

Héraðssaksóknari hefur aðeins samband við réttargæslumanninn. Hann eða hún kemur upplýsingunum um málið áfram til foreldra þinna eða forsjáraðila.

Hversu langan tíma tekur þetta stig?

  • Meðferð málsins hjá lögreglu tekur venjulega um 1 ár.
  • Meðferð málsins hjá héraðssaksóknara tekur yfirleitt um hálft ár í viðbót.

Þess vegna líður oft eitt og hálft ár síðan brotið var framið og þangað til það kemur í ljós hvort gerandinn verði ákærður eða ekki.

Hvað gerist næst? Þú berð vitni í héraðsdómi

Þegar héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru er málið flutt fyrir héraðsdómi. Þá mætir þú í dómsal og segir frá þinni upplifun.