Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.

Gott ráð er að horfa bara á dómarann og tala til hans, eða í þá átt sem héraðssaksóknarinn og réttargæslumaðurinn þinn sitja.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Meðferð málsins byrjar með þingfestingu

Þingfesting þýðir að ferli málsins hjá héraðsdómi er byrjað. Dómari ákveður stað og stund þar sem málið verður þingfest. Þú mátt búast við því að núna sé liðið eitt og hálft ár síðan brotið var á þér.

Ákærði þarf að mæta en ekki þú

Hinn ákærði, gerandinn, þarf að mæta og játa sök eða neita.

Þú þarft ekki að mæta í þingfestinguna. Réttargæslumaðurinn þinn er viðstaddur fyrir þína hönd. Hann lætur þig vita hvort sakborningurinn hafi játað eða neitað sök og hvenær aðalmeðferð mun fara fram.

Málið fær númer

Við þingfestinguna fær dómsmálið þitt númer. Númerið er hægt að nota til að fylgjast með málinu á vef héraðsdóms.

Gerandinn játar

Ef gerandi játar ákveður dómari refsingu fyrir hann. Þetta er oftast gert innan mánaðar frá þingfestingunni. Ef gerandinn játar þarft þú ekki að bera vitni fyrir dómi.

Gerandinn neitar

Ef gerandi neitar að hafa brotið á þér fer fram aðalmeðferð í málinu. Aðalmeðferð er það sem við köllum oft réttarhöld.

Aðalmeðferð

 • Málið er flutt í dómsal af héraðssaksóknara og verjanda gerandans.
 • Meðal annars eru kölluð til vitni sem tengjast málinu. Allir eldri en 15 ára verða að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum ef þeir fá boð. Eitt af mikilvægustu vitnunum ert þú, þolandinn í málinu.
 • Réttargæslumaðurinn þinn er viðstaddur alla aðalmeðferðina fyrir þína hönd.

Undirbúningur

Réttargæslumaðurinn lætur vita hvenær þú átt að mæta og hjálpar þér.

Að mæta í héraðsdóm

Sá sem ber vitni fyrir dómi má ekki hlusta á framburð þeirra sem gefa vitnisburð á undan. Þess vegna bíður þú fyrir utan dómsalinn þar til þér er vísað inn. Sennilega berð þú vitni næst á eftir gerandanum.

Lokuð réttarhöld

Flest kynferðisbrotamál eru ekki opin almenningi.

Í dómsalnum

 • Inni í dómsalnum eru dómari, saksóknari, verjandi gerandans, réttargæslumaðurinn þinn og svo gæti gerandinn verið viðstaddur líka.
 • Til að styðja þig inni í dómsalnum er líka fulltrúi frá barnavernd sem þú hefur talað við og þekkir.
 • Þegar komið er að þér að segja frá gengur þú inn í dómsalinn og sest í vitnastúku. Vitnastúka er bara sæti sem fólk sest í þegar það segir frá einhverju í dómsalnum.
 • Yfirleitt eru dómsalir lítil herbergi. Þess vegna situr fólk nálægt hverju öðru. Gerandinn gæti því setið nokkrum metrum frá þér.
 • Gerandi hefur rétt á því að vera inni í salnum en oft fara þeir út þegar þolendur bera vitni.

Beiðni um að sakborningur fari úr dómsal

Það má biðja um að sá sem er ákærður verði ekki í dómsalnum á meðan þú berð vitni. Það er réttargæslumaðurinn þinn sem setur fram þá beiðni. Stundum samþykkir gerandi að víkja en ef ekki þarf dómarinn að ákveða hvort hann eigi að víkja eða ekki.

Hverjir sitja hvar?

 • Vinstra megin í dómsalnum situr saksóknari og réttargæslumaðurinn þinn.
 • Hægra megin sitja gerandi og verjandi hans.
 • Dómarinn er svo í miðjunni.
 • Gott ráð er að horfa bara á dómarann og tala til hans, eða í þá átt sem héraðssaksóknari og réttargæslumaðurinn sitja til að fá styrk.

Dómari spyr og leiðbeinir

 • Fyrst biður dómarinn þig um að segja hvað þú heitir. Svo útskýrir hann eða hún í stuttu máli hvernig þetta muni ganga fyrir sig.
 • Dómarinn segir þér að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að það megi ekki segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómarinn búist við því að þú segir ósatt, heldur er þetta sagt við öll vitni.
 • Ef sá einstaklingur sem beitti þig ofbeldi er skyldur þér, segir dómarinn þér að þú þurfir ekki að bera vitni.

Hvað á ég að segja?

 • Þú segir frá því sem gerðist.
 • Síðan spyr saksóknari frá héraðssaksóknara þig út í einstök atriði.
 • Svo má verjandi gerandans spyrja þig.
 • Stundum spyr réttargæslumaður og dómari líka.

Í lagi að vera óviss

 • Markmiðið með því að hlusta á þig er að vita hvað gerðist.
 • Þú ert að rifja upp erfið atriði í erfiðum aðstæðum. Það er mikilvægt að láta vita ef þú manst ekki eða ert óviss um eitthvað. Stundum rifja dómari, sækjandi eða verjandi upp hvað þú sagðir í viðtalinu hjá lögreglu eða barnavernd og spyrja hvort sú lýsing hafi verið rétt.

Eftir vitnisburðinn

Eftir að þú hefur borið vitni mátt þú fara út úr dómsalnum eða vera áfram.

Æfing í sýndarveruleika

Skjáskot úr sýndardómssalnum sem sýnir hvar vitnið situr og horfir beint á dómarann sem situr einn þar sem gætu setið þrír dómarar. Til hægri er sakborningur og verjandi en hægra megin eru lögmenn saksóknara og réttarritarinn.
Vitnum í dómsmálum stendur til boða að heimsækja dómsal í sýndarveruleika til undirbúnings. Aðstaðan er hjá Ríkislögreglustjóra við Skúlagötu 21 við Hlemm.

Hvar er málið flutt?

Málið er venjulega flutt í héraðsdómi þar sem gerandinn er með lögheimili. Þú gætir því þurft að fara þangað til að bera vitni.

Dagskrá héraðsdómstólanna á vefnum

Á vef héraðsdóms (undir Dagskrá) er hægt að sjá mál sem bíða þess að vera tekin fyrir og hvort um er að ræða þingfestingu, aðalmeðferð eða dómsuppkvaðningu. Þar er líka hægt að skoða dóma sem hafa verið felldir á hverju landsvæði fyrir sig.

Hvað tekur þetta stig málsins langan tíma?

Það tekur um sex mánuði að fara yfir málið hjá héraðssaksóknara áður en ákvörðun er tekin um að gefa út ákæru eða fella málið niður.

Ef málið er fellt niður er ekkert meira gert í því.

Ef það er ákært þarf að taka málið fyrir í:

 1. Þingfestingu - þú þarft ekki að mæta. Réttargæslumaðurinn mætir fyrir þig.
 2. Aðalmeðferð - þú þarft að mæta og segja frá því sem gerðist.
 3. Dómsuppkvaðningu - þú þarft ekki að mæta. Réttargæslumaðurinn mætir fyrir þig.

Á milli þingfestingar og aðalmeðferðar líða allt frá einum mánuði og upp í sex.

Svo á að kveða upp dóm áður en mánuður er liðinn frá aðalmeðferðinni.

Hvað gerist næst? Málinu lokið

Nú er komið að því að dómur sé kveðinn upp við héraðsdóm.

Hendur halda á skjali