Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota.

Leitaðu þér hjálpar strax

Ef brotið hefur verið á þér er best að fara beint á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru á Akureyri og í Reykjavík. Það er líka hægt að fara á heilsugæslu í þinni heimabyggð. Komdu eins fljótt og þú getur. Þegar þeirri heimsókn er lokið gefst svigrúm til að takast á við áfallið og hefja bataferli.

Passaðu upp á möguleg gögn

Eftir því sem hægt er, reyndu að passa sem best upp á gögn sem gætu orðið sakargögn. Það gerirðu með því að:

 • þvo þér ekki eða fara í bað áður en skoðun og sýnataka fer fram
 • þvo hvorki né fleygja fötum, tíðabindum eða tíðatöppum tengdum atburði
 • ekki fleygja verjum
 • vera í fötum sem tengjast brotinu eða hafa þau með
 • ekki hreinsa eða farga sakargögnum á sakarvettvangi (t.d. rúmfatnaði, húsgögnum, húsbúnaði, tækjum og tólum)

Kærðu sem fyrst

Það er mikilvægt að kæra brot til lögreglu við fyrsta tækifæri því oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími er liðinn. Fyrstu 24 klukkustundirnar í rannsókn máls skipta mestu máli því þá er hægt að nálgast mikilvæg gögn.

Samskipti við geranda

Ekki „blokka“ gerandann á samfélagsmiðlum þó þig langi til þess. Þetta er erfitt en vel þess virði að reyna. Samskiptasaga ykkar eru gögn í málinu ef þú ákveður að kæra en þau hverfa ef þú blokkar manneskju. Þú getur „unfollowað“ viðkomandi, slökkt á tilkynningum eða jafnvel forðast að fara inn á samfélagsmiðla. Þetta er ekki til frambúðar, bara fyrst um sinn.

Bati

Ef þú getur er best að aðskilja meðferð málsins í réttarvörslukerfinu og batann þinn, þó það geti verið erfitt. Það líða rúmlega tvö ár frá því brotið er kært og þangað til málið fer fyrir dóm. Á þeim tíma er mikilvægt fyrir þig að hugsa um þinn bata. Málið þitt gæti líka verið fellt niður.

Úrræði

Þú munt að öllum líkindum þurfa sálfræðimeðferð til að takast á við áfallið. Þú getur fundið meðferð á eigin vegum, hjá þolendamiðstöðvum eða Stígamótum. Það er í góðu lagi að skipta um sálfræðing ef þér finnst sá sem þú leitar til ekki henta þér. Það skiptir öllu máli að leita til fólks sem þú treystir. Ef þú ert yngri en 18 ára útvegar barnavernd meðferðaraðila.

Réttarvörslukerfið er ekki úrræði

Réttarvörslukerfið er samheiti yfir lögreglu og dómstóla og stofnanir hins opinbera. Kerfið er ekki úrræði til bata heldur hefur það annað hlutverk; að líta hlutlaust á þau gögn sem hægt er að safna í málinu og dæma út frá þeim.

Stuðningsaðili

Reyndu að finna einstakling sem þú treystir sem getur aðstoðað þig í gegnum næstu vikur og mánuði, hvort sem það er aðstandandi eða vinur. Þú hefur orðið fyrir áfalli og í slíku ástandi getur verið afar erfitt að sinna verkefnum daglegs lífs sem þér gætu annars þótt auðveld.

Til dæmis getur verið erfitt að halda utan um tímapantanir hjá sálfræðingi, þolendamiðstöð, kærumóttöku lögreglunnar, hafa samband við vinnuveitanda, athuga með mögulegt veikindaleyfi og fleira.

Skrifaðu dagbók

Skrifaðu niður allt sem þú manst sem tengist brotinu í símann eða í dagbók. Einstaklingar sem verða fyrir alvarlegu áfalli muna ekki endilega allt strax eftir að áfallið skellur á en svo geta ýmis atriði komið aftur smám saman. Ef þú kærir vill lögreglan fá allar upplýsingar sem þú getur gefið þeim.

Réttargæslumaður

Ef þú kærir leiðbeinir réttargæslumaður þér í gegnum réttarvörslukerfið, sækir um bætur fyrir þig og sér um samskipti við héraðssaksóknara og héraðsdóm. Þetta eru lögfræðingar sem hið opinbera greiðir fyrir að vera þér innan handar.

Skiptu um réttargæslumann ef þú vilt, ekki hika við það. Rétt eins og þú getur skipt um sálfræðing ef þér finnst meðferðin ekki ganga sem skyldi er mikilvægt að hafa réttargæslumann sem þú treystir og vinnur vel með.

Ef þú ert yngri en 18 ára er réttargæslumaðurinn í sambandi við foreldra þína eða forráðamenn.

Berskjöldun í skýrslutöku og fyrir dómi

Ef þú kærir þarftu að segja frá þinni upplifun af brotinu í skýrslutöku hjá lögreglu, og ef málið fer fyrir héraðsdóm, í dómsal. Það er þó hægt að undirbúa sig fyrir þessar aðstæður.

Skýrslutakan

 • Búðu þig undir óþægilegar spurningar.
 • Ekki draga undan eða hika við að nota réttu orðin. Það eru engin orð tengd líkama eða kynlífi sem rannsakendur í kynferðisbrotamálum hafa ekki heyrt oft áður. Segðu frá eins nákvæmlega og hægt er. Ef þér finnst óþægilegt að segja eitthvað upphátt er hægt að æfa sig með því að segja það nokkrum sinnum upphátt í öruggu umhverfi.
 • Ekki hræðast að segja að þú munir ekki eitthvað. Það er eðlilegur hluti þess að verða fyrir alvarlegu áfalli. Þetta vita rannsakendur vel. Segðu frekar að þú munir ekki heldur en að búa til í eyðurnar því það gæti stangast á við eitthvað sem þú síðar manst, því stundum rifjast hlutirnir upp.
 • Réttargæslumaðurinn þinn undirbýr þig fyrir skýrslutökuna.

Dómsalur

 • Búðu þig undir að þurfa að segja frá þessari erfiðu reynslu í dómsal í héraðsdómi.
 • Í salnum eru dómari, réttargæslumaðurinn þinn, verjandi hins ákærða, hinn ákærði (gerandinn) og saksóknari frá héraðssaksóknara.
 • Réttargæslumaðurinn þinn undirbýr þig fyrir vitnisburðinn.
 • Það er hægt að prófa dómsal í sýndarveruleika til að þjálfa sig í að bera vitni.

Þetta er maraþon

Bataferli eftir kynferðisbrot tekur langan tíma og leið sakamáls í gegnum réttarvörslukerfið getur tekið um tvö ár, ef það er ekki fellt niður fyrr. Þolendamiðstöðvar geta bent á ýmsar leiðir til að auðvelda bataferlið. Þær eru opnar einstaklingum sem eru 18 ára og eldri.

Það getur hjálpað að hugsa líka um líkamlega og andlega heilsu. Ef til vill áttu aðstandendur eða vini sem geta farið mér þér í sund eða göngutúra. Hreyfing hefur líka jákvæð áhrif á andlegu heilsuna.

Úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi við konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Neyðarmóttaka á Akureyri vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan á sjúkrahúsinu á Akureyri tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Sýndardómsalur

Vitnum í dómsmálum stendur til boða að heimsækja dómsal í sýndarveruleika til undirbúnings.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.