Þessi leiðarvísir er fyrir einstaklinga eldri en 18 ára.

Reyndu að koma sem fyrst

Heimsókn á neyðarmóttökur fyrir þolendur kynferðisbrota er oft fyrsta skrefið í áttina að bata. Neyðarmóttökur fyrir þolendur kynferðisofbeldis eru í Reykjavík (Landspítalinn í Fossvogi) og á Akureyri (Sjúkrahúsið). Það er líka hægt að leita til heilsugæslunnar í þinni heimabyggð utan Reykjavíkur og Akureyrar.

Reyndu að koma sem fyrst. Það er best fyrir heilsu þína.

Best ef þú ferð ekki í bað áður en þú kemur á neyðarmóttöku eða heilsugæslu. Komdu með eða vertu í fötunum sem þú varst í.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Stuðningur, skoðun og meðferð

Starfsfólkið metur með þér hvaða þjónustu þú þarft og hvaða þjónustu þú vilt. Hægt er að fá:

  • Viðtal við hjúkrunarfræðing á neyðarmóttöku.
  • Læknisskoðun og meðferð eftir þörfum.
  • Tilvísun til áfallateymis.
  • Réttarlæknisfræðileg skoðun. Þá er safnað saman gögnum sem gætu orðið að sakargögnum. Sakargögn má nota í rannsókn og fyrir dómi ef brotið er kært.

Skoðunin

Tvær manneskju í blómakrónu. Önnur er leið. Hin er ánægð. Þær teygja sig í áttina að hvor annarri. Á myndinni lítur út eins og þær muni haldast í hendur mjög fljótlega.

Skoðun á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Áður en þú mætir á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis getur verið gott að vita við hverju þú mátt búast.

Að takast á við áfall

Þín heilsa skiptir mestu máli og afleiðingar af áföllum geta verið margs konar. Gott er að leita sér hjálpar sem fyrst til að skilja hvernig áhrifin gætu verið að birtast hjá þér en það er aldrei of seint.

Á neyðarmóttökunni getur þú fengið tilvísun til áfallateymis. Þú getur líka fengið tilvísun í gegnum heilsugæsluna.

Einnig eru þolendamiðstöðvar til staðar fyrir þig til að vinna úr áfallinu. Þær eru opnar einstaklingum eldri en 18 ára og aðstoða þolendur kynferðisbrota á margan hátt.

Það er mikilvægt að kæra brot til lögreglu við fyrsta tækifæri því oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími er liðinn.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Ef þú vilt kæra

Brotið kært

Starfsfólk neyðarmóttökunnar getur aðstoðað þig og kallað til lögreglu ef þú vilt að brotið sé kært.

Mikilvægt fyrir rannsókn

Fyrstu 72 klukkustundirnar eftir að brotið er framið eru mjög mikilvægar. Þetta er sá tími sem nýtist best fyrir lögregluna að ná í gögn sem styðja rannsóknina á brotinu. Gögnin eru svo notuð ef þú ákveður að kæra brotið. Til dæmis má nota þau fyrir dómi til að styðja málið þitt.

Gögnin eru til dæmis:

  • Lífsýni. Með því er átt við efni úr fólki sem getur veitt líffræðilegar upplýsingar um það.
  • Gögn af staðnum þar sem brotið var framið.
  • Föt, verjur, dömubindi og annað sem tengist atburðinum. Þetta eru allt gögn sem geta nýst lögreglunni við rannsókn.
  • Upplýsingar um vitni.

Hverjir sjá að ég hafi komið?

Heimsókn þín á neyðarmóttöku eða heilsugæslu er trúnaðarmál. Það á við um alla meðferðina.

Hvað tekur skoðunin langan tíma?

Læknisskoðunin sjálf tekur oftast stuttan tíma. Heimsóknin í heild sinni getur tekið 2-4 tíma en það fer eftir umfanginu.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Neyðarmóttaka á Akureyri vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan á sjúkrahúsinu á Akureyri tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Heilsugæslan

Á heilsugæslunni starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sálfræðingar sem geta hjálpað þér.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi við konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Stígamót

Stígamót hjálpa öllum (konum, körlum og kynsegin fólki) sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.