
Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis
Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Stuðningur og ráðgjöf vegna kynferðisofbeldis
Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis er á bráðamóttökunni á Landspítalanum í Fossvogi. Þar er alltaf opið og það kostar ekkert að fara þangað. Þú færð aðstoð, alveg sama hvaðan þú kemur og hvar þú býrð. Það getur verið gott að koma með einhverjum sem þú treystir.
Á neyðarmóttökunni vinna hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og læknar sem geta hjálpað andlega og líkamlega. Þar er líka hægt að fá aðstoð lögfræðings eða réttargæslumanns. Í skoðuninni er safnað sakargögnum sem hægt er að nýta ef þú ákveður að kæra. Til að auka líkurnar á að finna sakargögn er mikilvægt að koma eins fljótt og hægt er og ekki þvo þér eða fötin þín áður.
Sími bráðamóttökunnar er 543 2000 og það er opið allan sólarhringinn. Hægt er að ná sambandi beint við Neyðarmóttökuna á dagvinnutíma í síma 543 2094. Það er líka hægt að senda þeim tölvupóst á neydarmottaka@landspitali.is eða hafa samband gegnum netspjall á vefsíðu spítalans.
Heimilisfang
Fossvogur, 108 Reykjavík. Skoða á kortiTölvupóstur
Aðgengi
Gott aðgengi fyrir hjólastóla.Tungumál
Tungumála- og táknmálstúlkun.
Neyðarmóttakan er opin öllum, allan sólarhringinn.
Hvað gerist?
Í þessu myndbandi lýsir Eyrún þjónustu neyðarmóttökunnar og hvað gerist þegar fólk kemur. Myndbandið var gert með ungt fólk í huga en er upplýsandi fyrir fólk á öllum aldri.
Skoðun á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis
Áður en þú mætir á neyðarmóttökuna getur verið gott að vita við hverju þú mátt búast.

Kynferðislegt ofbeldi
Kynferðislegt ofbeldi er það þegar einhver káfar á þér eða fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera. Kynferðisleg áreitni með orðum og látbragði er líka ofbeldi.
