Kynferðisleg þvingun eða áreiti er ofbeldi
Ef einhver þvingar þig til að gera eitthvað kynferðislegt er það kynferðisofbeldi.
Það getur til dæmis verið kynmök, innsetning eða snerting á líkamshluta.
Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun.
Kynferðisofbeldi er líka ef einhver áreitir þig kynferðislega með orðum beint við þig eða í gegnum tölvu eða síma.
Það skiptir engu þótt sá sem beitir ofbeldinu sé maki þinn. Flestir sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi þekkja þann sem beitti því.
Kynferðisofbeldi getur leitt til áfallastreituröskunar, kvíða og þunglyndis.
Fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi er líklegra til að finna fyrir skömm, sektarkennd, reiði, ótta, einangrun og lélegri sjálfsmynd. Stundum koma afleiðingar fram strax en stundum eftir einhvern tíma.














