Ég hef orðið fyrir kynferðisofbeldi. Hvað á ég að gera?
Ef þér finnst hafa verið brotið á þér skaltu hafa samband við fagfólk eins fljótt og þú getur. Það er mjög mikilvægt að vinna úr áfallinu sem þú hefur orðið fyrir. Andleg og líkamlega heilsa þín á alltaf að vera í fyrsta sæti.
Fagleg hjálp
Ef þú treystir þér til er best að leita sem fyrst til neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisofbeldis. Þar færðu tilvísun til áfallateymis. Svo er hægt að leita til ráðgjafa hjá þolendamiðstöðvum og til sálfræðinga.
Að kæra eða ekki
Kannski viltu kæra gerandann strax eða bíða með það. Kannski viltu ekki kæra, það er algjörlega í þínu valdi. Það mikilvægasta er að þú getir haldið áfram með líf þitt.
Hvað er átt við með réttarvörslukerfi?
Réttarvörslukerfi er samheiti yfir lögreglu og dómstóla. Ef brotið hefur verið á þér þarft þú að ákveða hvort þú viljir láta þann sem braut á þér, gerandann, bera ábyrgð á brotinu. Það gerir þú með því að kæra brotið til lögreglunnar. Ef þú ákveður að kæra taka lögreglan og svo dómstólar við málinu.
Hvað gerist þegar ég kæri?
Ef þú ákveður að kæra til lögreglu fer málið eftir ákveðnu ferli í gegnum réttarvörslukerfið. Þetta ferli getur verið erfitt og tekur langan tíma. Þetta er samt eina leiðin til að láta gerandann svara til saka.
Í þessum leiðarvísi er reynt að útskýra sem best ferlið sem fer í gang við kæru og við hverju þú mátt búast. Honum er ætlað að skýra ferlið vegna brota á einstaklingum eldri en 18 ára.