Þessi leiðarvísir er fyrir einstaklinga eldri en 18 ára.

Leiðarvísir fyrir 15-17 ára.

Aðstoð eftir brot

Ef brotið hefur nýlega átt sér stað er mikilvægt að leita sér strax aðhlynningar og hjálpar. Það er hægt að hringja í 112 þar sem þú færð leiðbeiningar um næstu skref eða leita á neyðarmóttökur fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Á neyðarmóttökunni er líka hægt að leggja fram kæru og þá þarf ekki að mæta á lögreglustöð fyrr en síðar þegar formleg skýrsla er tekin.

Hvað felst í því að kæra brot?

Með því að kæra brot fer rannsókn á því af stað hjá lögreglunni.

Er hægt að kæra brot sem gerðist fyrir löngu síðan?

Já, þú getur kært síðar. Því lengra sem liðið er frá brotinu því erfiðara getur reynst að nálgast mikilvæg gögn í málinu. Það er alltaf hægt að hafa samband við lögregluna og tilkynna um gömul mál. Málið fer til rannsakanda sem skoðar það vel. Stundum eru mál fyrnd, það er, of langt síðan brotið var á þér. Svo getur verið að gögn vanti og þá er erfitt að rannsaka það. Brot gegn börnum fyrnast ekki.

Að tilkynna brot eða kæra brot

Það er hægt að tilkynna brot en ekki kæra það. Þá er tilkynningin skráð og málið er bókað í málakerfi lögreglu. Þá fer engin rannsókn fram. Þetta er gert ef þolandi er ekki tilbúinn að leggja fram kæru. Stundum skiptir fólk um skoðun og þá er gott að upplýsingarnar séu til staðar. Málið er síðan tekið til rannsóknar eftir að kæra er lögð fram.

Kærandi eða ákærandi? Hver er munurinn?

Kærandi er sá sem leggur fram kæru hjá lögreglu eða saksóknara, þú í þessu tilviki. Kæra er alltaf lögð fram af einstaklingi.

Ákærendur eru þeir sem gefa út ákæru á hendur gerendum í sakamálum. Valdið til þess er í höndum ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra.

Skrifaðu niður allt sem þú manst sem tengist brotinu í símann eða í dagbók.

Einstaklingar sem verða fyrir alvarlegu áfalli muna ekki endilega allt strax en svo geta ýmis atriði rifjast upp smám saman.

Fleiri góð ráð?

Skoða

Hvernig á að kæra?

Það eru fleiri en ein leið til að kæra kynferðisbrot. Aðstæður þolenda eru mismunandi og mislangt er síðan brotið var framið.

Þegar brotið er nýafstaðið

Þú getur:

  • Hringt í 112.
  • Farið á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis í Reykjavík eða á Akureyri.
  • Mætt beint á lögreglustöð. Á lögreglustöðinni aðstoða lögregluþjónar þig við að kæra brotið. Yfirleitt er það lögregluþjónn á vakt á hverjum stað sem tekur á móti þér. Þér er vísað inn í herbergi á lögreglustöðinni þar sem tekið er upp viðtal við þig.

Að panta tíma í kærumóttöku

Ef aðeins lengra er liðið frá brotinu getur þú pantað tíma í kærumóttöku í gegnum vefsíðu lögreglunnar. Þú þarft að auðkenna þig með rafrænum skilríkjum, síðan fyllir þú út eyðublaðið rafrænt og sendir:

Ósk um tíma í kærumóttöku

Lesa meira um kærumóttöku á vef lögreglunnar.

Sérstök kærumóttaka á höfuðborgarsvæðinu

Á lögreglustöðinni við Hlemm í Reykjavík er sérstök kærumóttaka vegna kynferðisbrota. Þú getur kært brotið þar, sama hvar brotið átti sér stað. Þegar þú mætir ferð þú inn um vestur-inngang lögreglustöðvarinnar (inngangurinn til vinstri ef þú stendur fyrir framan stöðina).

Mælt er með að þú bókir tíma í kærumóttökuna þar svo að hægt sé að ganga úr skugga um að þú komist að.

Að kæra á neyðarmóttökunni

Á neyðarmóttökum vegna kynferðisofbeldis er boðin aðstoð við að leggja fram kæru. Þar er miðað við að brotið hafi átt sér stað innan þriggja vikna. Ef lengra er liðið frá brotinu þarftu leita til þolendamiðstöðvar eða kæra málið hjá lögreglu.

Að kæra á þolendamiðstöð

Ef þú leitar til þolendamiðstöðvar er hægt að kalla til lögregluþjón sem tekur á móti kærunni og kemur í farveg.

Þú getur kært á hvaða lögreglustöð sem er

Þú þarft ekki að kæra brotið þar sem það átti sér stað, heldur getur þú kært brotið til lögreglu hvar sem er á landinu. Meðferð kynferðisbrota er einnig sú sama hvar sem er á landinu. Lögregluumdæmin eru alls níu á landinu.

Hvað gerist næst?

Tími í skýrslutöku

Eftir að hafa kært brotið færðu tíma í skýrslutöku hjá lögreglunni. Lögreglan hringir í þig til að finna tíma og staðsetningu fyrir skýrslutökuna. Það er mismunandi hversu fljótt þú getur mætt í skýrslutökuna eftir kæru en það geta liðið um þrjár vikur.

Réttargæslumaður

Þú átt rétt á þjónustu réttargæslumanns. Þér er boðið að velja réttargæslumann í kærumóttökunni ef þú hefur ekki fengið réttargæslumann í gegnum neyðarmóttökuna. Það er líka hægt að úthluta þér réttargæslumanni ef þú vilt. Réttargæslumenn hitta oftast skjólstæðinga sína og fara yfir helstu atriði með þeim áður en mætt er í skýrslutökuna. Réttargæslumaðurinn er líka með þér í skýrslutökunni.

Númer máls

Þegar málið hefur verið stofnað í kerfum lögreglunnar og þú hefur fengið tíma í skýrslutöku fær málið númer. Þú færð þetta númer sent í tölvupósti. Þetta númer getur þú notað þegar þú athugar stöðu málsins hjá lögreglunni.

Upplýsingagátt lögreglu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er með upplýsingagáttina mitt.logreglan.is. Á Mínum síðum þar er líka hægt að finna málsnúmerið. Þessi upplýsingagátt er núna aðeins aðgengileg þolendum á höfuðborgarsvæðinu en unnið er að því að fólk alls staðar á landinu fái aðgengi.

Gerandi veit af kæru

Það þarf líka að boða geranda í skýrslutöku hjá lögreglu. Þegar gerandi fær boð frá lögreglu í skýrslutöku eru það fyrstu upplýsingarnar sem hann fær um að brotið hafi verið kært.

Upplýsingar um að gerandi hafi verið boðaður í skýrslutöku

Ef þú vilt fá að vita að gerandi hafi verið boðaður í skýrslutöku skaltu koma þeirri ósk á framfæri í kærumóttökunni. Reynt er að gæta þess að gerendur og þolendur mætist ekki þegar þeir koma í skýrslutöku.

Tímalengd

Það geta liðið þrjár vikur frá því þú kærir og þangað til þú færð tíma í skýrslutöku. Þetta er þó mismunandi eftir lögregluumdæmum.

Neyðarmóttaka vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Neyðarmóttaka á Akureyri vegna kynferðisofbeldis

Neyðarmóttakan á sjúkrahúsinu á Akureyri tekur á móti öllum þeim sem hafa orðið fyrir nauðgun, tilraun til nauðgunar eða öðru kynferðisofbeldi.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Sigurhæðir á Selfossi

Sigurhæðir eru þjónusta á Suðurlandi við konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi. Þar færðu samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á þínum forsendum.

Lögreglan

Lögreglan hjálpar fólki sem verður fyrir ofbeldi. Ofbeldi í nánum samböndum er litið mjög alvarlegum augum hjá lögreglunni.