Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota. Honum er ætlað að skýra ferlið vegna brota á einstaklingum eldri en 18 ára.
Undirbúningur
Réttargæslumaðurinn þinn undirbýr þig fyrir skýrslutökuna og á hverju þú mátt eiga von. Það er líka mælt með því að hafa réttargæslumanninn með í skýrslutökunni sjálfri. Ef þú átt eftir að finna réttargæslumann geturðu fengið lista yfir lögmenn hjá lögreglu eða þolendamiðstöðvum.
Staðsetning
Skýrslutakan fer fram í viðtalsherbergi á lögreglustöð.
Meira um skýrslutökuna:
- Viðtalið er tekið upp, bæði hljóð og mynd.
- Í herberginu eru þú, rannsakandi hjá lögreglunni og réttargæslumaðurinn þinn. Ef þú þarft túlk er hann líka viðstaddur.
- Ef þú áttar þig seinna á að ekki hafi allt komið fram í skýrslutökunni geturðu haft samband við rannsakanda eða réttargæslumanninn þinn og beðið um að bæta við upplýsingum við skýrsluna. Rannsakandi gæti þá kallað þig aftur inn til skýrslutöku svo að viðbótarupplýsingarnar séu líka til á upptöku.
- Skýrslutaka þarf ekki sjálfkrafa að þýða að þú leggir fram kæru. Þú getur ákveðið að lokinni skýrslutöku hvort þú viljir að málið sé tekið áfram eða ekki. Skýrslutaka endar því oft á því að brotaþoli er spurður beint út hvort hann vilji kæra svo að þetta sé skýrt.