Hvað felst í að koma á neyðarmóttöku?
Þú getur mætt beint á neyðarmóttökurnar en það er gott að hringja á undan svo að starfsfólk sé sem best undirbúið. Þú getur líka hringt í 112 og óskað eftir að koma í fylgd lögreglu.
Metið er hverju sinni í hverju þjónustan felst. Samvinna milli þín og starfsfólks neyðarmóttöku er höfð að leiðarljósi.
Þú mátt hafa með þér einn aðstandanda eða vin. Þau mega þó ekki vera viðstödd í viðtalinu né í skoðuninni.
Á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis er boðið upp á:
- Viðtal við hjúkrunarfræðing.
- Læknisskoðun og meðferð eftir þörfum.
- Réttarlæknisfræðilega skoðun þar sem tekin eru sakargögn og áverkar metnir.
- Tilvísun til áfallateymis.
Þú þarft ekki að ákveða hvort þú viljir kæra brotið eða ekki þegar þú kemur á Neyðarmóttökuna. Það er alveg sama hvort þú mætir með lögreglu eða ekki, þú ræður ferðinni alveg.
Kvensjúkdómalæknir
- Í Reykjavík geturðu beðið um að fá kvenkyns kvensjúkdómalækni þegar þú hringir á undan.
- Á Akureyri sér kvensjúkdómalæknir á vakt um skoðunina.
- Á heilsugæslustöðvum er það ljósmóðir eða heilsugæslulæknir sem framkvæmir skoðunina.
Túlkur
Þegar þú hringir á móttökuna geturðu beðið um að fá túlk ef þig vantar.
Áfallateymi
Áfallateymið býður upp á aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við úrvinnslu áfallsins. Þörf er metin fyrir frekari meðferð vegna andlegra eða líkamlegra viðbragða og unnið að styrkingu bjargráða og stuðningskerfa. Áfallateymi er opið fyrir alla þolendur, sama á hvað neyðarmóttöku er leitað.
Skoðunin sjálf
Fyrst hittir þú hjúkrunarfræðing sem skráir frásögn þína. Metið er hvaða aðstoð þú þarft á að halda. Þér er kynnt hvað felst í að fara í skoðun á móttökunni og læknir er boðaður.
Hvað er gert?
Sýni tekin fyrir:
- Klamydíu
- Lekanda
- Lifrarbólgu B og C
- HIV
- Sárasótt
- Herpessýkingu og sveppasýkingu eftir þörfum
Gerð er:
- Lyfjaleit í þvagi
- Þungunarpróf
- Blóðprufa fyrir lögreglurannsókn
Önnur möguleg sýni, eftir eðli brotsins:
- Munnvatnssýni
- Strok sem mögulega hafa sæðisbletti
- Skeiðarstrok úr leggöngum
- Naglaskaf
Neyðargetnaðarvörn er gefin þegar við á.
Má taka með sér vin eða aðstandanda?
Já það má og getur verið gott fyrir þig til að hafa stuðning. Það er samt ekki gert ráð fyrir að neinn annar sé viðstaddur í skoðuninni né þegar þú segir hjúkrunarfræðingnum og lækni frá. Það er gert til að passa upp á þína hagsmuni.
Skoðunin getur verið erfið
Þolendum getur liðið berskjölduðum á meðan skoðuninni stendur enda búnir að verða fyrir alvarlegu ofbeldi. Læknir og hjúkrunarfræðingur eru með þér í skoðuninni. Þú þarft að afklæða þig, láta taka sýni og jafnvel eru teknar ljósmyndir.
Það er mikilvægt að vita að starfsfólk neyðarmóttökunnar fer alltaf eftir þínum óskum. Þau eru vön þessum aðstæðum og hafa séð allt milli himins og jarðar. Þú getur alltaf ráðið hvað er gert og á hvaða hraða.
Eftir skoðunina
Þegar skoðun er lokið gerist eftirfarandi:
- Þér býðst ókeypis sálfræðiaðstoð áfallateymis og viðtal við félagsráðgjafa.
- Þú færð upplýsingablað yfir það sem var gert í skoðuninni ásamt fleiri gögnum.
- Í sumum tilvikum þarf að meta áverka aftur, til dæmis marbletti sem koma ekki strax fram. Þá þarftu að mæta aftur á móttökuna.
- Þú getur beðið um að lögregla verði kölluð til eða henni tilkynnt um brotið. Þú stýrir því alveg.
Einstaklingar yngri en 18 ára
Ef þú ert yngri en 18 ára er neyðarmóttökunni skylt að tilkynna barnavernd um brotið.
Komi upp grunur um kynferðisbrot hjá barni 12 ára eða yngra ætti umsjónaraðili að snúa sér beint til Barnaverndar. Barnavernd getur leitað til Neyðarmóttöku um skoðun ef við á.