Mörk og samþykki

Kynlíf byggir á jafnræði og góðum samskiptum þar sem langanir og þarfir beggja aðila eru virtar. Það er aldrei í lagi að suða um eða þvinga fram kynlíf, hvort sem við erum í sambandi eða ekki. Báðum aðilum á að líða vel með að tala um sín mörk. Ef við gerum lítið úr þörfum annarra, segjum þær kjánalegar eða bregðumst á einhvern hátt illa við, erum við ekki að sýna þeim virðingu.

Samþykki fyrir kynlífi og kynferðislegum athöfnum er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt til að öllum líði vel. En hvað nákvæmlega felst í samþykki?

 • Að tala saman um það sem við viljum og hlusta á hinn aðilann: fyrir, á meðan og eftir á.
 • Að spyrja leyfis í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að mega gera eitthvað.
 • Að halda áfram að spyrja manneskjuna hvað henni finnist gott og hvað hún vilji gera, þrátt fyrir að þið hafið sofið saman áður. Fólki langar ekki alltaf að gera það sama.
 • Samþykki getur verið með orðum eða líkamlegri tjáningu. Ef hinn aðilinn er hljóður, óviss eða segir „kannski“, er það ekki samþykki.
 • Samþykki felur í sér að hinn aðilinn sé meðvitaður. Sofandi, mjög drukkið eða meðvitundarlaust fólk getur ekki veitt samþykki.

Þú ert ekki að virða mörk ef þú:

 • Setur pressu á hina manneskjuna um að gera hluti sem hana langar ekki til að gera. Til dæmis með hótunum eða með því að koma inn samviskubiti.
 • Lætur hinni manneskjunni líða eins og hún skuldi þér kynlíf eða einhverja kynferðislega hegðun, til dæmis af því þú gafst henni gjöf, gerðir henni greiða eða bauðst henni út á stefnumót.
 • Hunsar mörk sem hafa verið tjáð með orðum eða líkamlega, til dæmis ef manneskjan færir sig undan eða ýtir þér frá sér.

Það skiptir engu þótt manneskjan hafi sagt eitthvað annað áður, það má alltaf breyta um skoðun. Í lögum er nauðgun skilgreind út frá samþykki, sem þýðir að ef samræði eða önnur kynferðismök eru höfð við manneskju án samþykkis er um nauðgun að ræða. Samþykki er því lykilatriði.

Hver er munurinn á kynlífi og klámi?

Klám gefur ekki endilega skýra mynd af því hvernig fólk stundar kynlíf og sýnir jafnvel frekar hvernig brotið er kynferðislega á manneskju. Hver eru raunverulegu mörkin á milli kláms og kynlífs?

Kynferðisleg áreitni

Ef við förum yfir mörk einhvers á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni. Stundum getur verið erfitt að vita hvort kynferðisleg áreitni á sér stað en það er tilfinning þess sem verður fyrir áreitninni sem skilgreinir hana. Hegðunin er óvelkomin og ekki með samþykki þess sem verður fyrir áreitinu.

Þótt okkur finnist eitthvað allt í lagi eða fyndið þýðir ekki að öðrum finnist það. Við ættum aldrei að sýna einhverjum kynferðislega hegðun nema samþykki liggi fyrir.

Dæmi um kynferðislega áreitni er:

 • kynferðislegar athugasemdir eða brandarar
 • að senda kynferðislegar myndir
 • sexting
 • flauta á eftir einhverjum
 • káf
 • þrálát boð á stefnumót

Sexting og kynferðislegar myndir

Ef við sendum kynferðislegt efni til manneskju án samþykkis er það kynferðisofbeldi. Þetta geta verið myndir, myndbönd eða skrifaður texti. Það sama á við um að dreifa, taka upp, þvinga fram eða hóta að dreifa kynferðislegu efni án samþykkis. Allt þetta varðar við lög.

Það er mikilvægt að vera á sömu blaðsíðu þegar kemur að því að senda kynferðislegar myndir og skilaboð, og virða mörk annarra. Ekki beita þrýstingi eða senda efni sem hin manneskjan býst ekki við. Hin manneskjan þarf að ákveða að taka þátt í stafrænum kynferðislegum samskiptum. Þótt þú viljir eiga í slíkum samskiptum verðurðu að virða rétt annarra til að taka eigin ákvarðanir.

Það er alltaf ólöglegt að senda kynferðislegt efni til einhvers yngri en 18 ára.

Mýtur um fólk sem beitir ofbeldi

Þeir sem nauðga og beita ofbeldi eru oftast ekki „skrímsli“ heldur venjulegt fólk sem stendur okkur nærri. Sérfræðingar í málefnum þolenda og gerenda telja að nauðgunarmenningu og ofbeldi verði ekki útrýmt nema með því að varpa ljósi á gerendur og skapa menningu þar sem þeir geta og þurfa að axla ábyrgð.

Ofbeldisfólk er oftast „venjulegt“ fólk

Þolendur lýsa sínum ofbeldismönnum.

Lagalegar afleiðingar

Ef þú beitir kynferðisofbeldi getur það endað með því að lögreglan er kölluð til. Kynferðisbrot eru talin með alvarlegustu afbrotum á Íslandi. Afleiðingarnar þeirra geta varað um aldur og ævi. Nauðgun og brot gegn börnum eru næstalvarlegustu brot á eftir manndrápi.

Það sem fellur undir kynferðisbrot hjá lögreglu eru brot sem tengjast á einhvern hátt kynfrelsi einstaklinga, til dæmis nauðgun, kynferðisbrot gegn börnum, stafrænt kynferðisofbeldi og blygðunarbrot eins og káf, klúrt orðbragð, strípiatferli og gægjur.

Rannsókn

Rannsókn fer eftir aðstæðum og eðli málsins. Nálgun nauðgunarbrots og blygðunarbrots er til dæmis ólík. Börn sem hafa ekki náð 15 ára aldri eru lagalega ekki talin sakborningar.

Nauðgunarbrot

Fyrst er rætt við þolanda til að varpa ljósi á hvað gerðist. Fengnar eru upplýsingar um vettvang, verknað og hver gerandi er. Í framhaldi gæti verið að lögregla handtaki þig til að koma í veg fyrir að þú spillir sönnunargögnum. Þú ert færður til yfirheyrslu. Þú átt rétt á aðstoð verjanda sem má vera viðstaddur skýrslutöku hjá lögreglu.

Þegar ekki er langt liðið frá brotinu þarftu að fara í réttarlæknisfræðilega skoðun eða líkamsrannsókn. Þar eru tekin sýni, til dæmis blóðsýni, sýni af getnaðarlim og hári. Leitað er að áverkum og tekið skaf undan nöglum.

Vettvangur er rannsakaður og talað er við vitni. Oft er aflað rafrænna sönnunargagna, það geta verið upptökur úr eftirlitsmyndavélum og rafræn samskipti þín og þolanda, fyrir og eftir brot.

Mögulega þarf að framkvæma húsleit heima hjá þér þrátt fyrir að það sé ekki vettvangur brotsins. Þar er leitað að sönnunargögnum sem gagnast við rannsóknina. Lögreglan gæti tekið snjallsímann þinn og tölvu.

Lögreglan getur haldið áfram að rannsaka málið þrátt fyrir að þolandi dragi kæru til baka eða vilji ekki aðstoða.

Málalok

Þegar lögregla fær mál til rannsóknar þá getur máli lokið á tvo vegu:

1. Mál fellt niður

Lögregla gæti hætt rannsókn ef ekki er grundvöllur til að halda henni áfram. Ef lögregla klárar rannsóknina og sendir málið áfram getur ákærandi fellt málið niður telji hann gögn ekki nægjanleg eða málið ólíklegt til sakfellingar.

2. Ákæra

Ef málið þitt er talið líklegt til sakfellingar þá er gefin út formleg ákæra. Þá ber þér skylda að koma fyrir héraðsdóm og svara þar til saka sem sakborningur. Eftir málsmeðferð fyrir dómstólum fellur dómur málsins. Það getur þýtt sýkna eða sakfelling. Sakfelling fyrir kynferðisofbeldi getur verið skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn dómur og bótagreiðsla.

Aðstoð

Taktu skrefið

Taktu skrefið er hópur sálfræðinga sem aðstoðar fólk sem hefur áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hefur beitt kynferðisofbeldi.

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir öll sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Ólögleg hegðun á netinu

Ef þú hefur skoðað kynferðislegar myndir af börnum eða átt kynferðisleg samtöl við ungmenni yngri en 18 ára getum við veitt þér stuðning og bent á gagnlegar leiðir til að stöðva slíka hegðun.

Manneskja situr við fartölvu en heldur höndunum fyrir andlitið.