Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru 14 ára og yngri .

Ekki „blokka“ gerandann á samfélagsmiðlum þó þig langi til þess. Þetta er erfitt en vel þess virði að reyna. Samskiptasaga ykkar er gögn í málinu. Þau hverfa ef þú blokkar manneskju.

Hvernig er rannsakað?

Lögreglan safnar saman öllum gögnum sem hægt er að ná í. Markmiðið er að hafa nógu mikið af gögnum til að geta farið með málið fyrir héraðsdóm.

Til þess er meðal annars:

 • Gerandinn kallaður í viðtal hjá lögreglunni sem heitir skýrslutaka.
 • Vitni kölluð til skýrslutöku.
 • Það sem þú sagðir um málið borið saman við það sem gerandinn segir og vitni.

Gögnum er safnað, til dæmis:

 • Upptökum úr eftirlitsmyndavélum.
 • Símagögn eða símar eru afritaðir, með leyfi frá foreldrum þínum eða forsjáraðilum.
 • Samskiptum á samfélagsmiðlum, með leyfi frá foreldrum þínum eða forsjáraðilum.
 • Vottorðum frá læknum, sálfræðingum og slíkum fagaðilum, með leyfi frá foreldrum þínum eða forsjáraðilum.

Hvar er málið rannsakað?

Lögreglan á því umdæmi (svæði) þar sem brotið átti sér stað rannsakar málið. Ef engin sérstök rannsóknardeild kynferðisbrota er í umdæminu fær lögreglan stuðning frá öðrum umdæmum.

Brotið er flokkað

Fyrst er brotið flokkað. Það þýðir að það er fært undir ákveðin ákvæði í lögum.

Mikilvæg gögn um gerandann

Ef þú getur sagt um leið hver braut á þér reynir lögreglan að ná þeim einstaklingi strax. Þannig er möguleiki á að ná í mikilvæg gögn. Ef brotið er gamalt er metið í hvert sinn hvaða gögn er hægt að ná í, til dæmis af staðnum þar sem brotið var framið.

Ef gerandi er búsettur erlendis

Það er ýmislegt hægt að gera í rannsókn kynferðisbrotamáls þó að gerandi sé einungis tímabundið á landinu, til dæmis ef hann er ferðamaður.

Þú ættir ekki að láta stutta dvöl geranda stöðva þig í að kæra. Eins og með öll önnur kynferðisbrotamál er best að fá lögregluna sem fyrst inn í málið svo að hægt sé að hafa uppi á gerandanum. Ef hann er farinn úr landi er oft samstarf á milli íslensku lögreglunnar og lögreglu í heimalandi hans til að finna hann.

Þegar rannsóknin er búin

Fullrannsakað mál

Deild innan lögreglunnar sem heitir ákærusvið tekur ákvörðun um hvað skal gera við málið. Ef ákærusvið lögreglunnar metur málið þannig að það sé ekki hægt að rannsaka það meira, fer það til héraðssaksóknara. Þá er talað um að málið sé fullrannsakað. Það er þó ekki víst að þitt mál fari frá lögreglunni til héraðssaksóknara.

Rannsókn hætt

Það getur verið erfitt að sanna mál fyrir dómi. Til þess þarf mikið af upplýsingum og gögnum. Ákærusvið lögreglunnar getur metið rannsóknina þannig að það verði ekki hægt að sanna málið nógu vel fyrir dómi. Þá er málið ekki sent til héraðssaksóknara. Þá er venjulega ekki gert meira í málinu þínu í réttarvörslukerfinu.

 • Þetta þýðir bara að ekki voru næg gögn til að fara lengra með málið. Þetta þýðir ekki að reynsla þín sé ekki sönn og að ofbeldið hafi ekki átt sér stað.
 • Það er hægt að kæra ákvörðun um að hætta rannsókninni til ríkissaksóknara. Réttargæslumaðurinn þinn aðstoðar við það ferli.

Beiðni um að rannsókn verði hafin á ný

Það er erfitt að byrjar aftur þegar mál er fullrannsakað. Til þess að byrja aftur rannsóknina þurfa nýjar upplýsingar að koma fram sem voru ekki til þegar rannsókn var hætt. Síðan þarf að biðja um rannsóknin verði tekin upp aftur. Lögreglan metur út frá gögnunum hvort hún byrjar aftur rannsókn eða ekki.

Rannsókn hætt að ósk þolanda

Foreldrar þínir eða forsjáraðilar geta beðið um að rannsókninni sé hætt. Þá þarf að fara til lögreglunnar ásamt réttargæslumanni og útskýra hvers vegna kæran skal dregin til baka. Ef rannsókn er hætt er mögulegt að halda henni áfram síðar ef fleiri gögn koma fram.

Aðgangur að gögnum

Á meðan málið er í rannsókn eiga foreldrar þínir (eða forsjáraðilar) rétt á að fá upplýsingar um stöðu málsins og aðgang að gögnunum. Það er réttargæslumaðurinn þinn sem óskar eftir upplýsingum um gögn fyrir þig. Gerandi á líka sama rétt en verjandi hans óskar eftir gögnum fyrir hans hönd. Aðgangur að gögnunum má samt ekki skemma rannsókn málsins.

 • Það er ekki leyfilegt að skoða gögn sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan einstakling en þann sem óskar þess að kynna sér gögnin – nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
 • Lögreglan og starfsfólk dómskerfisins mega líka fá aðgang að skjölunum til notkunar í störfum sínum, á meðan málið er í rannsókn.
 • Ef rannsókn málsins er hætt átt þú rétt á öllum gögnum þess.

Upplýsingagjöf

Tilkynningar frá ákærusviði lögreglunnar berast foreldrum eða forsjáraðilum þínum og réttargæslumanninum með bréfi á island.is. Þetta eru tilkynningar um hvort málið hafi verið sent áfram, aftur til rannsóknar eða rannsóknin felld niður.

Tímalengd

Rannsóknin getur tekið 4 til 6 mánuði. Það þarf líka að skoða málið á ákærusviði lögreglunnar, saman tekur þetta ferli innan lögreglunnar um 1 ár.

Lengd rannsóknar getur verið mjög mismunandi en tíminn segir ekkert til um hversu mikið lögreglan leggur sig fram við að rannsaka, frekar um hversu flókið málið er.