Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru 14 ára og yngri .

Um dóma

Þegar talað er um dóma er yfirleitt sagt að þeir séu kveðnir upp af dómara. Reynt er að kveða upp dóma áður en mánuður er liðinn frá aðalmeðferðinni í dómsalnum. Dómari tilkynnir hvar og hvenær dómurinn verður kveðinn upp.

Dómur er niðurstaða dómstólsins í málinu. Hann er svo birtur á vefsíðu Héraðsdóms. Nafnið þitt og nöfn vitna eru ekki birt.

Í dómum kemur fram:

  • Hver var ákærður: nafn, kennitala eða fæðingardagur og heimili.
  • Efni ákærunnar.
  • Hvers var krafist.
  • Aðalatriði málsins.
  • Rök dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu.
  • Rök dómara fyrir niðurstöðu um refsingu, bótakröfu og sakarkostnað.

Tegundir dóma

Annað hvort verður gerandanum refsað eða dómari segir að hann sé saklaus.

Saklaus

Dómaranum fannst ekki hægt að sanna algjörlega að brotið hafi átt sér stað. Það þýðir ekki að dómarinn trúi þér ekki. Það getur verið erfitt að sætta sig við að gerandinn fái enga refsingu. Þú skalt reyna að hugsa um þig og þína heilsu. Það er gott að fá stuðning hjá fjölskyldu og vinum, sálfræðingi og ráðgjöfum.

Sekur

Gerandi þinn hefur verið sakfelldur fyrir að hafa brotið á þér. Þetta getur hjálpað þér við að halda áfram með líf þitt. Það er líka eðlilegt að alls konar tilfinningar komi upp. Það er alltaf mikilvægt að þú hugsir áfram um þína andlegu heilsu.

Óskilorðsbundinn dómur

Hinn ákærði er dæmdur í fangelsi.

Skilorðsbundinn dómur

Ákvörðuninni um refsingu er frestað. Sakborningurinn má ekki brjóta af sér á þeim tíma. Það má setja honum frekari skilyrði, svo sem að hann megi ekki neyta áfengis eða annarra vímuefna.

Staðreynd: Sá sem braut á þér má ekki koma illa fram við þig eða hóta þér.

Hvenær er máli lokið?

Málinu þínu telst lokið í réttarvörslukerfinu þegar:

Ef málinu er áfrýjað þýðir það að þér og fjölskyldu þinni, gerandanum eða ríkissaksóknara finnst niðurstaða dómarans ekki nógu góð. Þá lýkur málinu ekki núna heldur er því áfrýjað til Landsréttar.

Afplánun gerenda

Afplánun er heiti yfir tímann sem einhver er í fangelsi eða á öðrum stað sem er lokaður. Dómari ákveður hversu lengi dæmdi einstaklingurinn á að afplána. Það fer eftir ýmsu hversu lengi hann á að vera í fangelsi, meðal annars aldri, fyrri brotum og hversu líklegt sé að hann brjóti af sér aftur. Þegar einhver er dæmdur í fangelsi þýðir það ekki alltaf að hann sé í innilokaður í fangelsi allan tímann.

  • Lengsti afplánunartími fyrir kynferðisbrot er 16 ár. En dómurinn er alltaf styttri en það.
  • Fæstir afplána allan dóminn, það er, allan tímann sem þeir voru dæmdir til að afplána.
  • Dæmdur gerandi getur verið frjáls þar til afplánun hefst ef hann hefur ekki verið settur í gæsluvarðhald. Það getur tekið tíma þar til hann fær pláss í fangelsi.

Ekki alltaf í lokuðu fangelsi

Ef fangi hegðar sér vel og tekur þátt í meðferðum getur fanginn verið í afplánun með færri reglum.

Þegar líður á afplánunina gæti fanginn fengið dagsleyfi frá fangelsi, fengið að vera í opnu fangelsi sem er ekki með girðingu í kring, farið á áfangaheimili eða fengið ökklaband sem sendir merki til lögreglunnar.

Ef hinn dæmdi brýtur reglur á þeim stað sem hann er á, er hægt að senda hann aftur til baka í lokað fangelsi.

Hvar er gerandinn?

Þú getur haft samband við Fangelsismálastofnun og fengið upplýsingar um afplánun þess sem braut á þér ef þú vilt. Fyrir suma er gott að vita hvar gerandinn er staddur í afplánuninni og ef það sé möguleiki á að rekast á hann úti í samfélaginu. Aðrir þolendur vilja ekkert hugsa út í það og það er líka allt í lagi.

Áreiti frá geranda

Gerandinn má ekki hafa samband við þig

Fangelsismálastofnun getur bannað gerandanum að hafa samband við þig, til dæmis þegar hann fer í dagsleyfi, fer á áfangaheimili, fær ökklaband eða reynslulausn.

Ef gerandi áreitir þig eða sýnir af sér aðra hættulega hegðun

Ef gerandinn brýtur gegn þessu getur hann verið sendur af áfangaheimili og aftur í fangelsi, misst leyfið til að afplána með ökklaband og fleira.

Stundum er hægt að halda ástæðunni fyrir þessu leyndri fyrir gerandanum. Meginreglan er samt að gerandi á rétt að vita af hverju er verið að senda hann aftur í fangelsi.

Hvað tekur við núna?

Þó að máli þínu sé lokið í réttarvörslukerfinu munt þú að öllum líkindum þurfa að eiga við afleiðingar þess í einhvern tíma. Barnavernd sér um að þú fáir viðeigandi áfallameðferð til að hjálpa þér að líða betur. Það skiptir ekki máli hvar þú býrð á landinu, allir fá sömu þjónustu.