Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir þolendur kynferðisbrota sem eru 14 ára og yngri .

Öðruvísi hjá þér en hjá eldri

  • Kynlíf. Það má ekki stunda kynlíf með þér eða gera kynferðislega hluti með þér.
  • Aðrir tilkynna. Fólk sem þú þekkir verður að láta barnavernd eða lögregluna vita ef þau halda að einhver hafi brotið á þér. Þetta eru til dæmis skólahjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi, þjálfari, kennari, fólk í félagsmiðstöðinni og fleiri. Þau ákveða ekki sjálf hvort þau láta vita af brotinu heldur verða þau að gera það samkvæmt lögum. Þetta á líka við um allt annað fullorðið fólk, hvort sem þú þekkir það eða ekki.
  • Þú þarft ekki að kæra brotið. Það eru foreldrar þínir eða forsjáraðilar sem gera það. Þegar brotið er kært fáið þið lögfræðing sem er kallaður réttargæslumaður. Hann er í samskiptum við foreldra þína eða forsjáraðila um hvernig málið gengur.
  • Þú þarft ekki að mæta í dómsal. Í staðinn ferð þú í viðtal í Barnahús. Það er venjulegt hús og er ekki eins og lögreglustöð. Foreldrar þínir eða forsjáraðilar fara með þér.

Eins hjá þér og hjá eldri

  • Betra að segja frá. Það skiptir ekki máli hversu gamall einhver er, það er alltaf betra að segja frá kynferðisbroti. Þú skalt reyna að segja sem fyrst frá því sem gerðist.
  • Hjálp til að líða betur. Þér líður illa núna en þú færð hjálp til að líða betur. Þegar barnavernd veit af ofbeldinu skipuleggja þau áfallameðferð fyrir þig. Stærsti hluti meðferðarinnar er viðtöl við sálfræðinga.
  • Ferlið tekur tíma. Þú getur gert ráð fyrir að ferlið eftir kæru taki 2 ár eða meira.