Forvarnir gegn ofbeldi
Við berum saman ábyrgð á að koma í veg fyrir ofbeldi. Íþrótta- og æskulýðsfélög eiga að bregðast við öllum atvikum sem koma upp á þeirra vegum, hvort sem þau eru stór eða smá.
Til þess að gera það sem best þarf að huga að mörgu áður en atvik kemur upp. Þannig eru mestar líkur á því að við munum eiga ánægjulegar samkomur, örugga viðburði og traust mannamót.
Viðbragðsáætlun í félagsstarfi
Starfsemi íþrótta- og æskulýðsfélaga getur verið misjöfn en mikilvægt er að öllum þar líði vel við leik og störf. Fólk á að vera öruggt og fá að vera óáreitt.
Atvik eins og einelti, ofbeldi og áreitni geta komið upp. Þá er mikilvægt að félög bregðist við á samræmdan og góðan hátt.
Mikilvægt að hafa í huga þegar atvik koma upp
- Taka allar tilkynningar alvarlega.
- Koma málum í ferli eins hratt og mögulegt er.
- Sýna viðeigandi framkomu, halda ró og hlusta vel á frásögn barnsins án þess að trufla.
- Ekki beita barn þrýstingi ef það vill ekki tjá sig meira.
- Taka við upplýsingunum sem barnið gefur þér án þess að spyrja leiðandi spurninga.
- Taka ákvarðanir í málum sem varða fullorðna í samráði við viðkomandi.
- Hvetja til þess að viðkomandi leiti til lögreglu ef málið varðar brot á lögum.
- Félagið á að standa vörð um þolanda og auðvelda viðkomandi að halda áfram virkni í félagsstarfi sínu.