Vitundarvakning gegn kynferðisofbeldi á djamminu

Neyðarlínan, Ríkislögreglustjóri og Dómsmálaráðuneytið stóðu sumarið 2022 fyrir vitundarvakningu gegn kynferðisofbeldi á djamminu. Farið var í þessa vitundarvakningu vegna þess að fjöldi tilkynntra nauðgana dróst umtalsvert saman þegar samkomutakmarkanir voru sem strangastar.

Samkvæmt tölum Ríkislögreglustjóra á meginþorri tilkynntra nauðgana til lögreglu sér stað um helgar, frá föstudegi til sunnudags og þá sér í lagi frá miðnætti til sex um morguninn. Árið 2020 voru samkomutakmarkanir vegna Covid-19 strangastar og skemmtanalíf því í lágmarki. Þá fækkaði tilkynntum nauðgunum um 43% miðað við meðaltal áranna 2017-2019. Tilkynntum nauðgunum fjölgaði síðan á ný 2021 en slakað var á samkomutakmörkunum hluta af því ári. Breytingar á takmörkunum höfðu þannig greinileg áhrif á tíðni nauðgana.

Vitundarvakningin skoraði á öll að vera vakandi fyrir þeim sem beita kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Þátttaka almennings skiptir miklu máli vegna þess að með samstilltu átaki samfélagsins er hægt að minnka svigrúm þeirra sem beita ofbeldi til muna. Hver einn einstaklingur getur haft mikil áhrif innan lítilla samfélaga svo sem vinnustaða, vinahópa, og fleira.

Í sambandi við þessa vitundarvakningu var mótuð þjálfun í því hvernig þekkja á og bregðast við kynferðislegu ofbeldi fyrir starfsfólk skemmtistaða og viðburða. Þjálfunin er skipulögð og framkvæmd af Ofbeldisforvörnum. Ofbeldisforvarnir sjá um fyrri hlutann í samstarfi við viðburðahaldara og við hvetjum alla til að hafa samband og bóka þjálfun.

Hvernig getum við haft áhrif á kynferðisofbeldi?

Þeir sem beita kynferðislegri áreitni og ofbeldi eru alltaf rót vandans, en það er erfitt að ná til þeirra. Margir eru ekki að hlusta og enn aðrir skilja ekki að þeir eru partur af vandamálinu. Það sem hefur virkað vel er að virkja samfélagið til að setja mörkin og passa upp á þau.

Áhorfendanálgun (bystander approach) sem hér er kennd er þaulreynd aðferðafræði sem virkjar þá sem verða vitni að óásættanlegri hegðun. Þjálfun í því er í raun leiðtogaþjálfun þar sem þátttakendur fá verkfæri til að takast á við ofbeldi á öruggan hátt þegar það kemur upp.

Í fyrirlestri Benediktu Sörensen er farið í gegnum aðferðirnar. Efnið á þessari síðu er seinni hluti þjálfunarinnar og er ætlað að dýpka skilninginn á efninu og hjálpa ykkur að hugsa í gegnum nokkur dæmi og þannig að þið séuð tilbúin ef þið þurfið á að halda.

Forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi

Ofbeldi getur þrifist í menningunni ef því er ekki andmælt.

Meira um kynferðislega áreitni og ofbeldi

Kynferðisleg áreitni

Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni.

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.

Nauðgun

Enginn hefur rétt á að þvinga aðra manneskju til að gera eitthvað kynferðislegt sem hún vill ekki gera. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun.

Fordómar gagnvart minnihlutahópum

Jaðarhópar geta verið útsettari fyrir ofbeldi vegna þess að þau mæta fordómum í samfélaginu.