Þessi síða er hluti af Leiðarvísi um réttarvörslukerfið fyrir 15-17 ára þolendur kynferðisbrota.

Staðreynd: Þú færð hjálp við að vinna úr áfalli og vanlíðan.

Eins og hjá 18 og eldri

  • Kynlíf. Það má stunda kynlíf með þér ef þú samþykkir það.
  • Betra að segja frá. Það skiptir ekki máli hversu gamall einhver er, það er alltaf betra að segja frá kynferðisbroti. Þú skalt reyna að gefa upp nafn og fá aðstoð við að kæra. Þú getur hringt í 112 og fengið hjálp.
  • Skýrslutaka hjá lögreglu. Þú þarft að mæta til lögreglunnar í viðtal sem er kallað skýrslutaka og segja frá brotinu. Stundum eru viðtölin í barnahúsi.
  • Mæta í héraðsdóm. Ef málið fer fyrir dóm þarft þú að mæta í dómsalinn og segja frá brotinu aftur. Þú getur undirbúið þig með réttargæslumanninum þínum og fengið að æfa þig í dómsal í sýndarveruleika.
  • Það má kæra jafnaldra þína. Unglingar verða sakhæfir 15 ára. Það þýðir að það má handtaka þau sem eru jafngömul og þú og refsa þeim ef þau fremja afbrot.
  • Ferlið tekur tíma. Þú getur gert ráð fyrir að ferlið taki tvö ár eða meira.

Öðruvísi en hjá 18 og eldri

  • Einhvern grunar að það hafi verið brotið á þér. Tilkynning til lögreglunnar kemur ekki endilega frá þér. Fólk sem grunar að einhver sé að beita þig ofbeldi verður að tilkynna til lögreglu eða barnaverndar samkvæmt lögum.
  • Aðrir sem tilkynna. Það er fullt af fólki sem þú ert í samskiptum við sem á líka að tilkynna ef þau halda að einhver hafi brotið á þér. Þetta eru skólahjúkrunarfræðingar, námsráðgjafar, þjálfarar, kennarar, starfsfólk í félagsmiðstöðvum og fleiri. Þetta er í lögum og er ekki þeirra val.
  • Neyðarmóttaka tilkynnir. Ef þú ferð á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota í Reykjavík eða á Akureyri verður starfsfólkið þar að láta barnavernd vita um að þú hafir orðið fyrir kynferðisbroti.
  • Áfallameðferð. Þegar barnavernd veit af ofbeldinu skipuleggja þau áfallameðferð fyrir þig í Barnahúsi. Það er hægt að fá áfallameðferð þó svo að brotið gegn þér sé ekki kært. Þú getur leitað til þolendamiðstöðva og Stígamóta þegar þú verður 18 ára.
  • Þú kærir ekki brotið. Það eru foreldrar þínir eða forráðamenn sem gera það. Þú mátt samt tilkynna málið til lögreglunnar. Stundum byrjar lögreglan að rannsaka mál þó að það sé ekki komin formleg kæra í því.
  • Samskipti við lögreglu, dómstóla og barnavernd. Þegar brotið er kært færð þú lögfræðing sem er kallaður réttargæslumaður. Hann er í samskiptum við foreldra þína eða forráðamenn um hvernig málið gengur.

Hvað gerist næst? Brotið kært

Þegar brot er kært er búið að láta lögreglu vita af brotinu og rannsókn getur hafist.

Manneskja stendur og horfir á myndavélina. Hún heldur á stóru stækkunargleri sem er stærra en hún.