Hvað er nauðung?

Nauðung er þegar sjálfsákvörðunarréttur einstaklings er skertur gegn vilja hans og oft án þess að einstaklingurinn geti mótmælt.

Nauðung er alvarleg íhlutun og getur haft miklar neikvæðar afleiðingar og er því óheimil samkvæmt lögum nema í undantekningartilvikum.

Hvaða hópar eru líklegastir til að verða beittir nauðung?

  • Fatlaðir einstaklingar. Sérstaklega þeir sem eiga erfitt með að tjá sig eða geta það ekki.
  • Eldra fólk. Aðallega eldra fólk með heilabilun.

Birtingarmyndir nauðungar

Líkamleg valdbeiting

Þegar einstaklingi er haldið niðri með líkamlegu afli. Líkamlegri valdbeitingu er oft beitt til að koma í veg fyrir að einstaklingurinn valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða skemmi eigur sínar eða annarra.

Stundum er líkamleg valdbeiting talin nauðsynleg til þess að vernda einstaklinginn eða aðra.

Mikilvægt er að reyna að finna orsök ofbeldisfullrar hegðunar einstaklings því oft er einfalt að koma í veg fyrir orsökina.

Þvingaðar athafnir

Þegar einstaklingur er þvingaður til þess að gera hluti sem hann vill ekki gera.

Athafnirnar geta oft verið taldar nauðsynlegar eins og að taka inn lyf, borða, þvo sér, nota hjálpartæki og svo framvegis.

Ferðafrelsi takmarkað

Þegar heimili einstaklings eða íbúð hans er læst svo hann komist ekki út nema hann biðji um leyfi.

Á einnig við þegar einstaklingur er bundinn niður í stól eða rúmi.

Flutningur gegn vilja

Þegar einstaklingur er fluttur á milli staða gegn vilja hans eins og frá heimili yfir í dagdvöl.

Aðgangur að eignum takmarkaður

Þegar einstaklingur fær takmarkaðan eða engan aðgang að eigum sínum. Dæmi um það er þegar aðgangur að bankareikning er fjarlægður eða ísskápur læstur ef talið er að einstaklingurinn sé að borða of mikið.

Hvert er hægt að leita aðstoðar?

Umönnun aðstandenda

Ef aðstandendur telja að verið sé að beita nauðung þá getur það verið merki um að umönnunaraðili hafi ekki úrræði eða þekkingu til að styðja á réttan hátt við hinn fatlaða eða aldraða einstakling.

Ráðgjöf fyrir aðstandendur er hægt að fá hjá Heilsugæslunni og Alzheimersamtökunum.

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk

Réttindagæslan sér um að hjálpa fötluðu fólki að gæta réttinda sinna. Það er ekkert aldurstakmark þar þannig að eldra fólk fellur undir lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Á vefsíðunni Ísland.is er hægt að senda almenn skilaboð til Réttindagæslu fatlaðs fólks, en einnig má senda tilkynningu um brot á réttindum þess.

Þar er einnig hægt að finna umsókn til að gerast persónulegur talsmaður einstaklings sem á erfitt með að gæta hagsmuna sinna.

Ráðgjöf vegna nauðungar í þjónustu

Ef þjónustuveitendur telja nauðsyn að beita skjólstæðing nauðung þá þarf að fá undanþágu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti þar sem forsendur fyrir beiðni eru skilgreindar. Hægt er að biðja um ráðgjöf vegna nauðungar á vef Stjórnarráðs.

Forsendur fyrir undanþágu frá lögum

Samkvæmt félags- og vinnumarkaðsráðuneyti er hægt að veita þjónustuveitendum undanþágu frá lögum og leyfa beitingu nauðungar. Hún er aðeins veitt ef hægt er að tryggja öryggi einstaklingsins og að lögmætar ástæður séu fyrir beiðni um undanþágu.

Athuga skal að þetta á aðeins við um þau sem veita þjónustu til fólks með sjálfstæða búsetu, ekki opinberar stofnanir á vegum heilbrigðiskerfisins (þar með talin hjúkrunarheimili).

Lögmætar undantekningar geta verið:

  • Til að koma í veg fyrir að einstaklingurinn skaði sig eða aðra eða valdi stórfelldu eignatjóni.
  • Til að sinna grunnþörfum einstaklingsins varðandi næringu, heilbrigði og hreinlæti.
  • Til að draga úr hömluleysi einstaklings.
Merki fyrir fatlaða á vegg fyrir ofan skábraut.

Réttindagæslu­maður

Réttindagæslumaður hjálpar fötluðu fólki að ná fram rétti sínum.

Alzheimersamtökin

Alzheimersamtökin eru félagssamtök sem bjóða upp á fræðslu, upplýsingar og aðstoð fyrir fólk með heilabilun og aðstandenda þeirra um land allt.

Heilsugæslan

Á heilsugæslunni starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sálfræðingar sem geta hjálpað þér.