Hvað geta foreldrar gert?

Stafrænir miðlar eru orðnir fastapunktur í tilveru barna og unglinga í dag. Þetta opnar fyrir heilan heim af möguleikum og samböndum sem er spennandi að vera partur af. Því miður vitum við að sum börn upplifa óþægilega hluti á netinu og við vitum líka að það er oft ekki talað nóg um þetta heima við.

Við getum haft jákvæð áhrif á upplifun barna og unglinga á netinu með því að vera góð fyrirmynd. Einnig er hægt að skoða jákvæðar hliðar netsins, eins og að lesa, skapa myndefni, tónlist og sögur. Þannig hvetjum við börn og unglinga til að vera gagnrýnin á efnið sem þau skoða. Góð regla er að koma fram við aðra á sama hátt og maður gerir í eigin persónu.

Það besta sem þú getur gert til að vernda barnið þitt frá stafrænu ofbeldi, neteinelti og óviðeigandi netsamskiptum er að tala opinskátt við þau um þessi mál.

Dæmi um hluti sem eru ekki í lagi

 • Að stríða eða leggja einhvern í einelti á netinu af því að hann sé öðruvísi.
 • Að skrifa særandi athugasemdir um útlit annarra.
 • Að deila eða hóta að deila nektarmyndum af öðrum án leyfis.
 • Fá sendar óumbeðnar kynferðislegar myndir eða skilaboð.

Margar ástæður geta verið fyrir því að börnum finnist óþægilegt að tala um þessi mál. Þau gætu skammast sín fyrir hvað gerðist, hrædd við að lenda í vandræðum, óttast afleiðingar eins og hefnd eða jafnvel ekki fundist neitt að óviðeigandi hegðun. Þótt það geti verið erfitt að tala um þessi mál vilja börn að það sé hægt að tala um þetta og fá stuðning frá fullorðnum.

Opnaðu fyrir samræðuna

 • Kenndu barninu að nota netið og samfélagsmiðla á öruggan hátt. Til dæmis að deila ekki persónulegum upplýsingum.
 • Sýndu áhuga á því sem barnið er að gera á netinu í sínu daglegu lífi. Spurðu hvað það er að gera með vinum sínum, alveg eins og þú myndir spyrja út í skólann eða frístundir.
 • Taktu eftir því hvenær barnið hefur tíma og áhuga á að tala við þig. Sýndu að þú ert til í að ræða málin.
 • Láttu barnið þitt reglulega vita að það geti alltaf komið til þín og þú munir alltaf vera til staðar fyrir það.
 • Hvettu barnið þitt til að segja fullorðnum frá óþægilegum samskiptum svo það geti fengið hjálp til að leysa vandamálið á góðan máta.

Spurningar til að byrja samræðuna

 • Hversu margir af vinum þínum þora að vera þeir sjálfir á netinu?
 • Hvað myndir þú gera ef einhver færi að stríða þér á netinu?
 • Ef þú myndir gera YouTube-rás, um hvað myndi hún vera?
 • Hvort myndir þú heldur vilja vera í fríi í 1 viku með símann þinn eða í 2 vikur án síma?
 • Þú ert í bæ í útlöndum þar sem þú skilur ekki tungumálið. Hvaða þrjú öpp myndirðu fyrst nota?

Netöryggi barna

Hvað segja sérfræðingar um netöryggi barna? Hér má finna erindi sérfræðinga um hvernig foreldrar geti aukið netöryggi barna sinna.

Opin samskipti á netinu

Íhugið að takmarka opin samskipti á netinu (þar sem börn geta verið að tala við hvern sem er) þangð til barnið er komið með nægan þroska. Ágætt er að miða við aldurstakmörk viðkomandi miðla/leikja.

Það er til dæmis þekkt aðferð hjá þeim sem hafa áhuga á því að komast í samskipti við börn í annarlegum tilgangi að þeir hanga inni á opnum tölvuleikjum fyrir börn, vinna sér inn traust þar og flytja svo samskiptin í einkaskilaboð (svo sem á samfélagsmiðlum eins og Snapchat).

Þegar opin samskipti eru leyfð er mælt með að:

 • Fara yfir það með börnunum hvað þau skulu varast og hvetja þau til að leita sér ráða ef þau eru ekki viss. Kenna börnunum að tilkynna alla óæskilega hegðun til þess sem stýrir leiknum.
 • Skoða snjallsíma, leikjatölvur og annað sem börnin eru að nota, öll samskipti og leitar- og vafrasögu.

Þegar þetta er gert fær foreldrið oft tækifæri til að eiga uppbyggilegar samræður við barnið. Barnið finnur líka fyrir stuðningi foreldra og lærir að þekkja hvað er í lagi og hvað ekki.

5 ráð við deilingu mynda ungmenna í leyfisleysi

 1. Talaðu rólega. Dragðu úr tilfinningauppnámi og spurðu einfaldra og skýrra spurninga út í staðreyndir málsins.
 2. Veittu stuðning. Ekki segja hluti eins og: „Þú hefðir átt að vita betur“. Ungmennið þarf á hjálp að halda, ekki siðferðispredikun.
 3. Hjálpaðu til. Aðstoðaðu ungmennið við að eyða myndunum af samfélagsmiðlum og hjá vinum, gagnlegt er að nýta TakeItDown. Best er að gera þetta sem fyrst.
 4. Fáðu aðstoð. Ef þú ert í vafa með hvað þú átt að gera geturðu fengið ráð hjá skólanum, Barnaheill eða lögreglunni.
 5. Talaðu um réttlæti og skömm. Hjálpaðu ungmenninu að finna orð til að tjá sig um upplifunina. Fylgdu því eftir síðar.

Viltu tilkynna um ólöglegt og óviðeigandi efni á netinu?

Ábendingarlína Barnaheilla í samstarfi við lögreglu aðstoðar þig við að fjarlægja efni af netinu.

SAFT býður upp á símaráðgjöf í síma 516 0100 fyrir foreldra sem þurfa ráð um stafrænt uppeldi

Ráð fyrir börn og unglinga

Börn og unglingar lenda stundum í óviðeigandi hegðun á netinu. Eins og að persónulegum eða kynferðislegum myndum sé deilt án leyfis eða að lenda í neteinelti.

Hönd heldur um síma með mynd af strák og hjörtu fljúga upp

Öryggi á netinu

Passaðu upp á öryggi þitt með því að tryggja að tækin þín séu ekki viljandi eða óviljandi að deila persónulegum upplýsingum sem þú vilt ekki að fari lengra.

Manneskja horfir á símann sinn sem sýnir ólæsileg skilaboð. Hún snýr baki í okkur svo við sjáum á símann í höndunum á henni. Mikið liðað hár sveiflast í vindinum.