Þegar við upplifum okkur í hættu taka sjálfvirk og ómeðvituð varnarviðbrögð líkamans stjórnina. Viðbrögðin eru annað hvort að berjast eða flýja.

Hvað gerist í heilanum?

Reykskynjararnir fara í gang

Í heilanum eru tveir staðir sem sjá um að skynja hættu og undirbúa líkamann fyrir að berjast eða flýja burt frá hættunni. Þessir staðir kallast möndlur og þeim má líkja við tvo reykskynjara sem pípa þegar þeir skynja reyk og láta þannig vita að hætta sé á ferð.

Öll kerfin verða virk

Þegar reykskynjararnir fara í gang losna stresshormón út í líkamann til að undirbúa hann fyrir að takast á við þessa hættu. Líkamleg viðbrögð eru til dæmis grynnri og hraðari öndun, sveittir lófar og hraðari hjartsláttur. Blóðið streymir út í útlimi og við finnum meira fyrir þeim: röddin breytist, hálsinn þrengist, hnakkinn og kjálkinn verða stífir og sumir roðna í framan.

Hæfni til að taka góðar ákvarðanir minnkar

Í þessu ástandi lokast fyrir taugabrautir sem sjá um að taka flóknar ákvarðanir. Við hættum að geta séð hluti frá mörgum hliðum, beitt rökum og tekið yfirvegaðar ákvarðanir. Minnið bregst okkur líka og við hættum að geta kallað fram minningar sem hjálpa okkur að róa okkur niður.

Ekkert kemst að nema hávaðinn í reykskynjurunum. Sjálfvirku varnarviðbrögðin í taugakerfinu taka yfir og segja okkur að við séum í hættu.

Hvernig róa ég mig niður?

Þú getur komið í veg fyrir að innbyggðu, sjálfvirku viðbrögðin taki yfir þegar þú lendir í ágreiningi.

Í stað þess að ráðast á hinn aðilann eða flýja getur þú lært að róa taugakerfið þegar á þarf að halda og haldið þar með getunni til að taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Leyfðu þér að líða illa

Þegar þú lendir í ágreiningi eða ógnandi aðstæðum finnur þú að líkaminn stressast upp. Þú ert kannski með kaldan svita eða smá hnút í maganum. Líkaminn er kominn í viðbragðsstöðu til að bregðast við ógninni og losa þig út úr þessum óþægilegu aðstæðum á þann eina hátt sem hann kann: að berjast eða flýja.

Reyndu að vera sterkari og taka ákvörðun um að leyfa þessari óþægilegu tilfinningu að vera þarna í smá stund. Það er erfitt en þú getur gert erfiða hluti. Óþægilegar tilfinningar eru ekki eins hættulegar og þær þykjast vera.

Andaðu

Dragðu djúpt andann og notaðu andardráttinn til að halda tengingu við líkamann svo sjálfvirki heilinn taki ekki stjórnina. Öndunin stýrir líkamanum og þú getur stýrt önduninni.

Þegar slasað fólk kemur á bráðamóttökuna, verkjað og hrætt, þá andar það mjög grunnt og öll kerfin eru virk. Læknar og hjúkrunarfræðingar minna manneskjuna á að anda djúpt því slík öndun róar líkamann, sem róar á endanum einnig heilann.

Breyttu hugsuninni

Neikvæðar hugsanir eru eins og reykur fyrir reykskynjarana. Þær viðhalda ástandinu í líkamanum. Til að halda ró okkar þurfum við að beina hugsunum okkur að öðru en því hver hefur rétt fyrir sér og hver hefur rangt fyrir sér.

  • Skiptir öllu máli að hafa rétt fyrir sér?
  • Er það mikilvægara en að vera örugg/öruggur?

Til að róa heilann þurfum við að hætta að búa til reyk.

Æfðu þig

Með æfingunni muntu ná að koma líkamanum og heilanum fyrr í jafnvægi þó að ágreiningur rísi. Og þú ert mun betri í að leysa ágreining þegar þú nærð að slökkva á reykskynjurunum. Þá ertu fær um að hlusta, greina upplýsingar, kallar fram minningar og taka yfirvegaðar ákvarðanir.

Ekki gefast upp þó að þú misstígir þig, það er eðlilegt. Sýndu þér mildi og reyndu aftur næst.

Færni fyrir lífstíð

Þessi færni mun gagnast þér alla ævi og gera þig betri í að fást við krefjandi aðstæður í lífinu. Hún mun hjálpa þér að takast á við erfið samskipti, erfiðar tilfinningar og við lausn vandamála.

Áhættuhegðun

Þegar barn hegðar sér á einhvern hátt sem skaðar eða er líklegt til að skaða heilsu þess og þroska kallast það áhættuhegðun.

Manneskja í fjötrum. Hún er með lokuð augu og er leið á svipinn og heldur þétt utan um sig. Rauður þykkur borði er vafinn utan um hana.

Slagsmál ungmenna

Gróf slagsmál og einelti hafa alvarlegar og ævilangar afleiðingar.

Manneskja með áhyggjur