Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Barnaverndarlög 16. grein c.

Áhættuhegðun barns

Ef barn hegðar sér á einhvern hátt sem skaðar, eða er líklegt til að skaða, heilsu þess og þroska kallast það áhættuhegðun. Þetta gerist ekki bara á „vandræðaheimilum“ heldur geta allar fjölskyldur lent í þessu.

Dæmi um áhættuhegðun barns er:

  • Neysla áfengis eða vímuefna.
  • Sjálfskaði með því að veita sér áverka.
  • Að barn beiti aðra ofbeldi.
  • Að barn áreiti annað barn kynferðislega.
  • Erfiðleikar barns í skóla þrátt fyrir aðhald foreldra.
  • Að barn brýtur af sér, til dæmis skemmdarverk eða fari ekki eftir lögbundnum útivistartíma.
  • Að stunda óöruggt kynlíf.

Börn sem beita ofbeldi

Börn geta meðal annars beitt ofbeldi vegna vanlíðunar, geðrænna erfiðleika, skorts á viðeigandi aðstoð og vanhæfni í samskiptum. Kennarar, starfsfólk skóla og stjórnendur bera ábyrgð á að koma til móts við þarfir nemenda og hjálpa þeim að þroskast við öruggar aðstæður.

Það er mikilvægt að ofbeldi innan veggja skóla sé tekið föstum tökum, að faglegur stuðningur sé til staðar og að skólayfirvöld og aðrar opinberar stofnanir koma markvisst að málefnum nemenda með sérhæfða erfiðleika.

Slagsmál ungmenna

Á samfélagsmiðlum hafa sprottið upp hópar með myndböndum af unglingum í grófum slagsmálum meðan aðrir standa aðgerðarlausir hjá eða hvetja hina áfram. Bæði stelpur og strákar taka þátt, oftast á grunnskólaaldri. Í slagsmálunum sjást endurtekin högg og spörk í höfuð og búk sem er augljóslega mjög hættulegt.

Það þarf að breyta því viðhorfi meðal ungmenna að líkamsárásir sé eðlileg og eftirsóknarverð hegðun. Foreldrar og þau sem vinna með unglingum þurfa að ræða við ungmennin um þetta; þá ábyrgð sem fylgir því að taka þátt og hættuna sem því fylgir. Því fylgir líka ábyrgð að hafa verið á staðnum sem áhorfandi.

Mikilvægt er að segja unglingum að taka ekki þátt í slagsmálum, fylgja ekki ofbeldissíðum né horfa á slagsmálamyndbönd. Heldur ekki taka upp myndbönd af slagsmálum eða dreifa þeim. Hvetjum þau til að ganga í burtu ef þau verða vör við slagsmál og láta lögreglu vita í 112. Það gæti bjargað mannslífi.

Vímuefnaneysla

Þrátt fyrir að börn frá alls konar fjölskyldum geti byrjað í vímuefnaneyslu, er margt sem bendir til þess að börn í alvarlegri neyslu eigi við einhvers konar andleg eða geðræn vandamál að stríða. Til dæmis börn sem hafa lent í áföllum, upplifað höfnun eða eru með raskanir eða greiningar sem gerir þau útsettari fyrir fíkniefnaneyslu (eins og ADHD, kvíðaraskanir, þunglyndi og einhverfu). Þetta geta verið börn sem lentu í einelti, urðu fyrir einhvers konar ofbeldi, eða bara barn sem er lítið í sér að upplagi og hefur lélegt sjálfstraust og lágt sjálfsmat.

Þegar barn upplifir sig utangarðs, finnst það ekki passa inn í hópinn eða líður illa, getur vímuefnaneysla verið leið þess til að deyfa vanlíðan, flýja raunveruleikann, vera töff, falla í kramið og vera tekið inn í einhvern vinahóp.

Eftirfarandi geta verið merki um að barnið sé byrjað að nota fíkniefni:

  • Árangur eða mæting í skóla versnar, áhugaleysi á skóla.
  • Árekstrar við skólayfirvöld eða önnur yfirvöld.
  • Smáglæpir, eins og búðarhnupl eða skemmdarverk.
  • Missir áhuga á vinum, tómstundum eða öðrum áhugamálum.
  • Skyndileg breyting á hegðun og skoðunum.
  • Breyting á vinahóp.
  • Kæruleysi varðandi útlit eða hreinlæti.
  • Breyting á matar- eða svefnvenjum.
  • Samband við foreldra og fjölskyldu versnar, áhugaleysi á fjölskyldu.
  • Fer að fara á bak við foreldra og fjölskyldu, lygar, laumulegt hátterni.
  • Viðbrögð við hlutum óeðlilega sterk og tekur afskiptum af sínum málum mjög illa.

Þótt eitthvað af þessum merkjum komi fram þýðir það ekki að barnið sé endilega farið að nota vímuefni. Þetta geta þó verið merki um að barninu líði ekki nógu vel og eigi við einhver vandamál að stríða. Það setur síðan aftur barnið í hættu á að lenda í vímuefnaneyslu.

Fáðu hjálp!

Í skólum starfa skólasálfræðingar sem geta hjálpað. Þú getur talað við kennara, námsráðgjafa eða annan aðila innan skólans sem þú treystir, og fengið stuðning og leiðbeiningar.

Á heilsugæslum er hægt að fá ráðgjöf og sálfræðiþjónustu fyrir börn. Einnig getur starfsfólk þar vísað barni áfram til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans eða annarra fagaðila.

Foreldrahús sérhæfa sig í áhættuhegðun barna. Þar er til dæmis boðið upp á viðtöl, námskeið og stuðningshópa fyrir börn með áhættuhegðun og foreldra þeirra.

Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkur og barnaverndarnefndir aðstoða og styðja við fjölskyldur í vanda. Barnaverndarnefnd getur sótt um sérhæfð úrræði fyrir barnið og fjölskyldu þess. Ekki hræðast barnavernd, langflestir foreldrar upplifa mikinn stuðning þegar barnavernd er komin í málið.

Hafðu samband við 112 ef þú veist um barn í vanda.

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að styðja foreldra til að hugsa vel um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Foreldrahús

Foreldrahús veitir börnum, unglingum og foreldrum ráðgjöf, meðal annars vegna áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga, áhættuhegðunar og hegðunarvanda. Foreldrasíminn 581 1799 er opinn allan sólarhringinn.

Myndin sýnir aðstöðu Vopnabúrsins. Þar má sjá bjart herbergi með myndum á veggjum þar sem er mikið af allskonar íþróttadóti, þar á meðal golfkylfur, lyftingalóð og ýmiskonar boltar.

Vopnabúrið

Vopnabúrið er líkamsræktar- og tómstundastöð sem býður upp á ráðgjöf og stuðning við börn og unglinga sem glíma við einhvers konar vandamál.

Lands­teymið

Landsteymið hjálpar öllum sem tengjast skólasamfélaginu, frá leikskóla til framhaldsskóla.

Foreldrafræðsla

Að ala upp barn er eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem foreldrar takast á við í lífinu. Uppeldisfærni er hins vegar hvorki meðfædd né kemur sjálfkrafa, heldur tekur tíma að tileinka sér nauðsynlega þekkingu, kunnáttu og hæfni.

Íþrótta- og æskulýðsstarf

Mikilvægt er að tryggja öruggt umhverfi í íþrótta- og æskulýðsstarfi og taka skýra afstöðu gegn einelti, ofbeldi og kynferðisbrotum. Hér má finna fræðslu, leiðbeiningar og gátlista fyrir fólk sem starfar á þeim vettvangi.