Af hverju slást ungmenni?

Ungmenni slást þegar þau kunna ekki aðrar leiðir til að leysa ágreining. Þau telja að það sé veikleiki að svara ekki fyrir sig og að þá muni annað fólk vaða yfir þau.

Ástæður eru til dæmis:

  • Sjálfsvörn.
  • Reiði.
  • Til að öðlast virðingu.
  • Af hræðslu við höfnun jafnaldra og að lækka í áliti ef þau „þora ekki“ í slag.
  • Til að hefna fyrir eitthvað sem einhver gerði þeim eða vinum þeirra.

Þættir sem hafa áhrif:

  • Þunglyndi og hvatvísi.
  • Að eiga erfitt með að stjórna reiði.
  • Að kunna ekki að fást við streitu og álag.
  • Að alast upp við ofbeldishegðun á heimili.
  • Lítil framtíðarsýn – að sjá ekki tilgang með neinu.
  • Ofbeldi í fréttum, sjónvarpsefni, tölvuleikjum og tónlist. Áhorf á efni sem upphefur ofbeldishegðun dregur úr mótstöðu barna og ungmenna gegn ofbeldi.

Ungmenni sem taka þátt í slagsmálum og líkamsárásum eru líklegri til að verða ofbeldisfull þegar þau verða fullorðin.

Ráð fyrir foreldra

Grípa börnin snemma

Mikilvægt er að grípa strax þau börn sem sýna hegðunarvanda og leiðbeina og fræða um rétta hegðun. Fræðsla skilar meiru en refsingar. Hegðunarvandi, vanlíðan og námserfiðleikar eru dæmi um áhættuþætti.

Breytingar sem mikilvægt er að vera vakandi fyrir:

  • Nýir vinir
  • Breytt svefnmunstur
  • Meiri pirringur
  • Kvíði
  • Þunglyndi

Taka skýra afstöðu gegn ofbeldi

Það þarf að ræða við börn og útskýra af hverju ofbeldi er aldrei lausn. Það þarf að kenna börnum aðrar leiðir til að leysa ágreining og fást við erfiðar aðstæður aðstæður.

Kenna börnum og unglingum að hunsa áreitið

Það er betra að hunsa móðganir og slúður og labba í burtu heldur en að svara fyrir sig.

Það sem aðrir segja við þig skiptir ekki máli, það gleymist. Það sem þú gerir skiptir máli, það mun fylgja þér.

Það þarf sjálfstjórn og yfirvegun til að labba í burtu eða leysa málin friðsamlega þegar einhver kemur illa fram. Sjálfsstjórn þarfnast þjálfunar. Ekki síst hjá börnum sem hafa ekki framheilaþroska til að vera fær um sjálfstjórn í erfiðum aðstæðum, beita rökhugsun og átta sig á afleiðingum.

Því er mikilvægt að grípa ekki til refsinga ef börnin misstíga sig. Hlustum á þeirra hlið, sýnum þeim umhyggju og kennum þeim leiðir til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Að kenna tilfinningastjórnun, lausn vandamála og auka sjálfstraust við að beita friðsamlegum aðferðum í svona aðstæðum eykur líkur á árangri. Börn og ungmenni eru líklegri til að reyna friðsamlegar lausnir ef þau hafa trú á að þær skili árangri.

Einelti hættir ekki af sjálfu sér. Við þurfum að stíga inn í og taka afstöðu gegn því.

Styrkja tengslin við börnin

Styrkjum tengslin við börnin okkar og reynum að vera þátttakendur í þeirra lífi. Börn og ungmenni sem eru í góðum tilfinningalegum tengslum við foreldra og búa við aga og hvatningu eru ólíklegri til að taka þátt í ofbeldi. Dæmi um fjölskyldusamveru er að skipuleggja kósýkvöld með bíómynd, spilakvöld eða sundferð. Ísrúntur með einu barni í einu er oft góð leið til að ná spjalli um líf og líðan.

Tala á jákvæðan hátt um annað fólk og samfélagið

Útskýrum af hverju það er best að vera í góðum samskiptum við annað fólk. Jákvæð félagsleg viðhorf foreldra auka líkur á jákvæðum félagslegu viðhorfum barna og ungmenna. Ræðum um samkennd og virðingu fyrir öðru fólki.

Minnka áhorf á ofbeldi

Það er mikil fylgni milli þess að horfa á ofbeldi í fjölmiðlum og beita ofbeldi. Börn og ungmenni sem horfa mikið á ofbeldi verða ónæm fyrir ofbeldinu. Þetta eykur líkur á að þau:

  • bregðast ekki við þegar þau verða vitni að ofbeldi
  • láta síður vita
  • eru líklegri til að beita ofbeldi

Samkvæmt barnalögum ber foreldrum skylda til að vernda börn sín fyrir ofbeldi. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir því sem börn og ungmenni sjá í fréttum, sjónvarpsþáttum, samfélagsmiðlum og í tölvuleikjum. Börn þurfa að heyra frá foreldrum sínum og öðrum sem þau treysta að ofbeldið sem þau sjá sé ekki eðlilegt, að það sé neikvætt og slæmt fyrir alla sem eiga hlut að máli.

Gott er að ræða og útskýra ofbeldið þegar tækifæri gefst. Útskýra til dæmis að:

  • slasaða fólkið í fréttunum er mögulega skaddað til lífstíðar, það geti kannski aldrei hlaupið, unnið, keyrt bíl eða gert aðra hluti í daglegu lífi..
  • ef maðurinn í bíómyndinni væri laminn svona oft í alvörunni þá myndi hann ekki standa upp og labba í burtu. Hann væri líklega fluttur í sjúkrabíl upp á sjúkrahús og myndi þurfa endurhæfingu á Grensás í margar vikur.

Hvetja börn til að stunda íþróttir

Rannsóknir sýna að börn sem stunda íþróttir eru líklegri til að halda sig frá ofbeldi. Að hafa markmið fyrir framtíðina, að trúa á eigin getu, að tilheyra hópi og hafa jákvæðar fyrirmyndir í nærumhverfi minnkar líkur á að börn taki þátt í ofbeldishegðun.

Styrkja tengsl við skólann

Það skiptir máli að tala á jákvæðan hátt um skólann og kennarana. Gott er að útskýra að allir eru að gera sitt besta, það á bæði við um hina krakkana og kennarana. Ef vandamál koma upp þarf að leysa þau á jákvæðan hátt. Reynum að stuðla að því að börnin myndi sterk tengsl við skólann.

Þekkja áhættuþættina og bregðast við þeim

Því fleiri áhættuþættir í umhverfi og hegðun barna og ungmenna, því meiri líkur eru á að þau beiti eða verði fyrir ofbeldi.

Áhættuþættir eru meðal annars:

  • Neikvæð afstaða foreldra og jafnaldra gagnvart öðru fólki eykur líkur á neikvæðri afstöðu ungmenna.
  • Eftirlitsleysi og afskiptaleysi foreldra.
  • Skortur á félagslegum tengslum við jafnaldra.
  • Að eiga vini sem eru árásargjarnir, ofbeldishneigðir eða stunda afbrot.
  • Saga um hegðunarvanda og árásargirni í æsku.
  • Lélegur námsárangur, lítil tengsl við skóla, ör skipti milli skóla og léleg mæting.
  • Sálrænir þættir sem tengjast hvatvísi, meðal annars ofvirkni, einbeitingarskortur, eirðarleysi, áhættusækin hegðun og lítil sjálfsstjórn.
  • Áfengis- og fíkniefnanotkun dregur úr sjálfstjórn og getunni til að meta aðstæður og hættu. Ungmenni sem byrja snemma að drekka áfengi eru oft líklegri til að beita ofbeldi eða verða fyrir því.

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð

Foreldrahús

Foreldrahús veitir börnum, unglingum og foreldrum ráðgjöf, meðal annars vegna áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga, áhættuhegðunar og hegðunarvanda. Foreldrasíminn 581 1799 er opinn allan sólarhringinn.

Vopnabúrið

Vopnabúrið er líkamsræktar- og tómstundastöð sem býður upp á ráðgjöf og stuðning við börn og unglinga sem glíma við einhvers konar vandamál.

Bergið headspace

Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Ekki beita ofbeldi

Það er hægt að fá hjálp til að breyta hegðun sinni og koma í veg fyrir beitingu ofbeldis.