Að læra að takast á við ágreining

Oft er ágreiningur eða rifrildi undanfari ofbeldis. Lífið er fullt af óvæntum uppákomum og yfirþyrmandi verkefnum sem geta valdið deilum sem við stjórnum ekki. Við getum hins vegar stjórnað því hvernig við bregðumst við þegar ágreiningur kemur upp.

Ef við finnum að ágreiningur er að valda okkur vanlíðan þá er gott fyrsta skref að anda djúpt og telja upp að 10 áður en við bregðumst við.

Árásargirni

Í mikilli vanlíðan getur komið upp árásargirni, sem felst í því að vilja ráðast á aðilann sem er tengdur vanlíðaninni. Árásargirni er varnarviðbragð. Algengt er að hún gjósi upp þegar fólk verður ráðþrota og vill ná valdi á stöðunni. Að baki geta legið margs konar sterkar tilfinningar. Með því að ná stjórn á árásargirninni náum við valdi á ofbeldinu.

Hér eru mikilvæg skref til að ná stjórn á árásargirni:

1. Þekkja einkennin og hvað kemur henni af stað

Þegar árásargirni rýkur upp gerist margt í líkamanum: vöðvar spennast og blóðþrýstingur og púls hækkar. Öll viðbrögð verða kraftmeiri. En það sem mestu máli skiptir er að hæfileikinn til að hugsa og skilja minnkar og öll athyglin beinist að því eða þeim sem okkur finnst að hafi látið okkur líða illa.

2. Bregðast rétt við

Þegar við finnum að árásargirnin er að taka yfir höfum við tækifæri til að átta okkur á hvað er að gerast og stíga til baka. Við getum sest niður, lækkað málróminn og dregið andann djúpt. Við getum líka ákveðið að fara úr aðstæðunum. Árásargirni er eins og olía á eldinn, hún kallar fram sömu viðbrögð í öðrum og gerir illt verra. Þess vegna er mikilvægt að stoppa hana. Þetta hljómar einfalt en krefst mikillar æfingar.

3. Þegar við náum þessu ekki, taka ábyrgð og gera betur næst

Að læra að þekkja einkennin og breyta því hvernig við bregðumst við gerist ekki sjálfkrafa eða á einum degi. Það mun koma fyrir að við náum þessu ekki. Þegar storminn lægir getur verið auðveldast að láta eins og ekkert hafi gerst en þá viðhöldum við vítahringnum. Það krefst hugrekkis að viðurkenna hvað maður gerði og að horfast í augu við afleiðingarnar. Til að brjóta vítahringinn verðum við að taka ábyrgð.

Af hverju beitir fólk ofbeldi?

Ofbeldi er lærð hegðun. Sumir læra það í uppeldi sínu, aðrir frá umhverfinu, menningu eða valdaójafnvægi í kerfum samfélagsins. Utanaðkomandi áhrif eins og áfengi, vímuefni og stress geta ýtt undir ofbeldi en þau eru aldrei ástæðan. Það er alltaf val hvers og eins hvort hann beiti ofbeldi.

Mögulegar ástæður ofbeldis

 • Til þess að stjórna hinum aðilanum, hvað hann gerir og hvernig honum líður.
 • Til að fá sínu framgengt.
 • Að finnast sínar tilfinningar og þarfir mikilvægari en annarra.
 • Ótti við að missa virðingu ef maður heldur ekki völdunum.
 • Trú á að um sé að ræða eðlilega hegðun.
 • Vankunnátta um aðrar leiðir til að takast á við reiði og vonbrigði.

Þó að finna megi mögulega ástæðu ofbeldis er það aldrei réttlætanlegt og er alltaf sök þess sem beitir því.

Það getur verið erfitt að aflæra þessa hegðun og breyta viðhorfi sínu. Til þess þarf fyrst og fremst vilja til að breytast og síðan að taka ábyrgð á eigin hegðun. Það getur verið gott að fá aðstoð frá sálfræðingi eða Heimilisfrið sem sérhæfa sig í meðferð fyrir þá sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

Meðferð fyrir þá sem beita ofbeldi

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir gerendur í heimilisofbeldi af öllum kynjum. Það eina sem þarf er vilji til að breyta ofbeldishegðun sinni og að taka á sínum málum. Boðið er upp á meðferð við hvers konar ofbeldshegðun, eins og andlegri, líkamlegri og kynferðislegri. Meðferðin byggir á einstaklingsviðtölum, einnig er boðið upp á makaviðtöl og parameðferð ef það á við.

Fáðu hjálp og breyttu lífi þínu og þinna. 

Reynslusaga Tómasar

Tómas er ekki til í alvörunni en frásögn hans er byggð á viðtölum við þá sem hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum. Þeir sem beita ofbeldi geta breytt því með því að leita sér hjálpar.

Lagalegar afleiðingar

Ef þú beitir ofbeldi í sambandi getur það endað með því að lögreglan er kölluð til. Það sem fellur undir heimilisofbeldi hjá lögreglu eru meðal annars líkamsárásir, kynferðisbrot, hótanir, skemmdir á eignum, brot á barnaverndarlögum og fjársvik. Það skiptir engu máli hvar ofbeldið á sér stað heldur er það hvernig gerandi og þolandi tengist. Þess vegna er heimilisofbeldi einnig kallað ofbeldi í nánu sambandi.

Fyrstu afskipti yfirvalda

Lögreglan bankar upp á og kallar út rannsóknarlögreglumann sem heldur áfram rannsókninni. Ef þú eða maki þinn skilja ekki íslensku er túlkur kallaður til.

Barnavernd og félagsþjónusta

 • Ef börn eru á heimilinu koma starfsmenn barnaverndar og félagsþjónustu á staðinn.
 • Ef börn tengjast heimilisfólki kemur starfsmaður félagsþjónustunnar og tilkynning er send til barnaverndar.
 • Ef engin börn eru skráð á heimilinu er boðið upp á að fá aðstoð félagsþjónustu.

Vettvangsrannsókn

Lögreglan annað hvort vísar þér af vettvangi eða handtekur þig. Ljósmyndir eru teknar af áverkum og skemmdum á eignum ef þau eru fyrir hendi. Talað er við þolanda og vitni. Lögreglan getur haldið áfram að rannsaka málið eða beðið um nálgunarbann á þig þrátt fyrir að þolandi dragi kæru til baka eða vilji ekki aðstoða.

Þú átt rétt á verjanda sem má vera viðstaddur skýrslutöku hjá lögreglu. Ef farið var fram á nálgunarbann eða brottvísun af heimili færðu upplýsingar um hvað það felur í sér. Í sumum tilvikum er gerð skrifleg yfirlýsing þar sem þú samþykkir sömu reglur og felast í nálgunarbanni eða brottvísun. Yfirlýsingin hefur ekki réttaráhrif en ef þú virðir ekki reglurnar gæti verið beðið um nálgunarbann gegn þér eða brottvísun af heimili.

Eftirfylgni

Lögreglan

Þú mátt búast við að lögreglan muni hringja í þig og hvetja þig til að leita þér aðstoðar hjá úrræðum eins og Heimilisfrið eða Taktu skrefið. Ef þú vilt leita þér aðstoðar hefurðu möguleika á að fá fjárhagsaðstoð.

Félagsþjónusta

Ef þörf þykir á mun félagsþjónustan koma í heimsókn í fylgd lögreglu til að kanna heimilisaðstæður og ástand fólks á heimilinu. Rætt er við þolanda og athugað hvort það séu nýir áverkar. Ef þú býrð enn á heimilinu er einnig rætt við þig. Ef þú fékkst nálgunarbann eða þér var vísað á brott er kannað hvort það hafi verið virt.

Barnavernd

Ef börn eru á heimilinu kemur barnavernd að málinu til að tryggja öryggi barna og veita þeim stuðning. Barnavernd ber að kanna aðstæður og líðan barna í heimilisofbeldismálum og er það meðal annars gert með því að ræða við alla fjölskyldumeðlimi. Barnavernd mun boða þig í viðtal þar sem farið verður yfir heimilisofbeldið og stöðu fjölskyldunnar til þess að meta viðbragðsaðgerðir og stuðningsúrræði.

Algengustu stuðningsúrræði barnaverndar í heimilisofbeldismálum eru:

 • Stuðningur við geranda við að sækja sérhæfða sálfræðimeðferð þar sem unnið er með ofbeldishegðun, eins og hjá Heimilisfriði.
 • Stuðningur við þolanda við að sækja sálfræðiviðtöl.
 • Sálfræðiviðtöl fyrir börn þar sem þau fá fræðslu og stuðning vegna heimilisofbeldis.
 • Fjölskyldu- eða paraviðtöl hjá fjölskyldufræðingi.

Málalok

Þegar lögregla fær mál til rannsóknar þá getur máli lokið á tvo vegu:

1. Mál fellt niður

Lögregla gæti hætt rannsókn ef ekki er grundvöllur til að halda henni áfram. Ef lögregla klárar rannsóknina og sendir málið áfram getur ákærandi fellt málið niður telji hann gögn ekki nægjanleg eða málið ólíklegt til sakfellingar.

2. Ákæra

Ef málið þitt er talið líklegt til sakfellingar þá er gefin út formleg ákæra. Þá ber þér skylda að koma fyrir héraðsdóm og svara þar til saka. Eftir málsmeðferð fyrir dómstólum fellur dómur málsins. Það getur þýtt sýkna eða sakfelling. Sakfelling fyrir heimilisofbeldi getur verið skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn dómur og bótagreiðsla.

Aðstoð í boði

Heimilisfriður

Heimilisfriður býður upp á meðferð fyrir öll sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

1717

1717 er hjálparsími og netspjall Rauða Krossins ef þú vilt tala við einhvern. Það er opið allan sólarhringinn. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.

Manneskja leiðir aðra manneskju í gegnum stóra gátt inn í bjartan himinn.

Félagsþjónusta sveitar­félaganna

Félags- og velferðarþjónustur sveitarfélaganna veita fjölbreyttan stuðning við börn og fjölskyldur þeirra. Þar er hægt að fá stuðning vegna ofbeldis.

Ekki beita kynferðisofbeldi

Kynlíf þarf að byggja á virðingu og góðum samskiptum þar sem langanir beggja aðila eru virtar. Að virða mörk annarra er grundvallaratriði í heilbrigðum samskiptum.

Ofbeldi er alls konar

Ofbeldi á sér margar birtingarmyndir. Sem dæmi má nefna að stjórna öðrum með þögn eða fýlu, kalla fólk ljótum nöfnum, nota sameiginlega fjármuni án leyfis, ógna með orðum eða líkama og að senda nektarmyndir til einhvers óumbeðið.

Manneskja styður höndum á gagnaugun. Henni líður greinilega illa. Eldingar eru teiknaðar hjá höfðinu.

Nauðgun

Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun. Ekkert réttlætir nauðgun því nauðgarinn einn er ábyrgur gerða sinna.