Limlestingar á kynfærum kvenna

Limlestingar á kynfærum kvenna er misþyrming og ofbeldi sem er ólöglegt á Íslandi.

Hvað er limlestingar á kynfærum kvenna?

Limlestingar á kynfærum kvenna (enska: Female Genital Mutilation - FGM) er stundum kallaður umskurður kvenna og er hefð í sumum löndum.

  • Þessi hefð er algengust í sumum Afríkulöndum, Mið-Austurlöndum og í Suður-Asíu.
  • Limlestingar á kynfærum kvenna er alvarlegt líkamlegt ofbeldi og er ólögleg á Íslandi.
  • Hægt er að dæma einstakling í allt að 16 ára fangelsi fyrir verknaðinn.

Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Hið sama á við ef brotaþoli er manneskja með kvenkyns kynfæri og hefur breytt skráningu kyns. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.

218. grein a. almennra hegningarlaga.

Eru limlestingar á kynfærum kvenna gerðar út af trú?

Limlestingar á kynfærum kvenna hafa ekkert með trúarbrögð að gera.

  • Það er ekkert um umskurð kvenna í Biblíunni eða Kóraninum.
  • Limlestingar á kynfærum kvenna eru framkvæmdar af kristnum samfélögum jafnt sem íslömskum.
  • Limlestingar á kynfærum kvenna eru framkvæmdir vegna siðvenju sem byggð er á hugmyndum sem eiga ekki við í nútíma samfélagi eins og Íslandi. Þær hugmyndir eru meðal annars að konur eigi að vera undirgefnar karlmönnum, að þær eigi að vera hreinar meyjar þegar þær giftast karlmanni og annað í þeim dúr.
  • Þó að eitthvað hafi verið gert lengi eða er venjulegt í vissum samfélögum þá þýðir það ekki að það sé í lagi.

Ofbeldi er ofbeldi sama hvar það er framið eða hver ástæðan er fyrir því.

Hvað er oftast gert?

Margar tegundir af aðgerðum eru gerðar á kynfærum kvenna.

Oftast eru þessar aðgerðir gerðar á börnum.

Þær eru gerðar með því að skera, raspa, gata, skafa eða brenna.

  • Stundum er snípur skorinn teknir af.
  • Stundum eru innri skapbarmar teknir af.
  • Stundum eru ytri skapbarmar saumaðir saman.

Allt af þessu telst limlesting sem er alvarleg líkamleg árás og ólöglegt á Íslandi.

Hvaða vandamál getur limlesting á kynfærum valdið?

Limlestingar á kynfærum eru gerðar til þess að koma í veg fyrir að konur fái ánægju af kynlífi eða til að koma í veg fyrir að þær geti stundað kynlíf nema með framtíðar eiginmanni.

Konur sem voru limlestar sem börn eiga oft við allskonar andamál í lífinu eins og:

  • Endurteknar sýkingar í kynfærum.
  • Endurteknar sýkingar í þvagfærum, sem getur valdið nýrnabilun.
  • Erfiðleikar við þvaglát.
  • Erfiðleikar við tíðablæðingar.
  • Sársauka og óþægindi í kynlífi.
  • Erfiðleikar við fæðingu fyrir bæði móður og börn.
  • Andleg vandamál.
  • Félagsleg vandamál.

Á ég að láta limlesta dóttur mína?

Svarið er einfalt: Nei.

Ef það er verið að þrýsta á þig að láta limlesta dóttur þína þá geturðu talað við ljósmóður þína. Hún mun geta leiðbeint þér.

Þú getur líka talað við hjúkrunarfræðing hjá annarri heilsugæslu en þú ferð til.

Limlesting á börnum er alltaf bæði barnaverndarmál og lögreglumál.

Þú getur líka farið beint til Barnaverndar til að koma í veg fyrir að limlesting verði gerð.

Sama hvað þér hefur verið sagt, þetta eykur ekki hreinlæti heldur eykur líkur á sýkingum. Ef hún býr á Íslandi og er limlest þá mun það gera líf hennar erfiðara, ekki auðveldara.

Það er þitt hlutverk sem foreldri að vernda barnið þitt frá skaða sama hversu erfitt það getur verið.

Svör sem þú getur notað

  • Ég tek ekki áhættu með dóttur mína, hún gæti dáið eða þurft að lifa með verki alla sína ævi.
  • Á Íslandi hef ég val að sleppa þessari siðvenju. Þess vegna vel ég að gera þetta ekki.
  • Ég virði mannréttindi.
  • Ég vil að dóttir mín ráði sjálf yfir sínum líkama.
  • Ég kenni dóttur minni góða siði og gildi svo hún verði góð manneskja.
  • Ég vil að dóttir mín giftist góðum manni sem ber virðingu fyrir henni og vill ekki taka eitthvað burt frá henni.
  • Ég elska og er stolt/ur af landi mínu og menningu – en ekki þessari siðvenju.
  • Unnið er að því að stoppa limlestingar á kynfærum kvenna þar sem þessi siðvenja er enn.
  • Limlesting á kynfærum kvenna er nú bönnuð í meira 30 löndum þar sem hún tíðkaðist áður.

Listi fenginn frá Þróunarmiðstöð íslenskra heilsugæslu.

Ef barnið þitt er limlest

Foreldrar hafa lent í því að barnið þeirra var limlest án þeirra samþykkis.

  • Oftast gerðist limlestingin í heimsókn í heimalandinu.
  • Mikilvægt er að leita til heilsugæslu með barnið sem fyrst.
  • Heilsugæslan getur vísað til sérfræðinga sem geta hjálpað og reynt að minnka skaðann.
  • Því fyrr sem það er gert því betra er það fyrir barnið.

Hvert get ég farið til að fá hjálp?

Heilsugæslur hafa þagnarskyldu og tala ekki við neinn um þig nema þú samþykkir það.

Ef þú ert á skólaaldri

Ef þú ert á skólaaldri og telur eða veist að þú ert þolandi limlestingar þá geturðu leitað til fullorðinnar manneskju sem þú getur treyst eins og:

  • Traustum kennara
  • Námsráðgjafa
  • Skólahjúkrunarfræðing
  • Skólasálfræðing
  • Heimilislækni
  • Hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni

Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa fengið þjálfun varðandi þetta og geta hjálpað þér.

  • Þú getur farið í heilsugæslu og beðið um að fá að tala við hjúkrunarfræðing.
  • Ef þér finnst óþægilegt að fara þá geturðu hringt í heilsugæslu og beðið um að fá símtal frá hjúkrunarfræðing.

Þú þarft ekki að fara til þinnar heilsugæslu eða tala við þinn heimilislækni.

Ef þú telur að vinkona sé þolandi limlestingar

Ef þú sérð eitthvað sem lætur þig halda að vinkona eða bekkjarsystir hafi orðið fyrir limlestingu þá er mjög mikilvægt að þú farir ekki að tala um það við jafnaldra þína. Það getur orðið til þess að stelpan verði fyrir stríðni eða öðru. Þú átt frekar að tala við fullorðinn einstakling sem þú treystir, eins og foreldra þína.

Ef þú ert fullorðin

Ef þú ert þolandi limlestingar á kynfærum þá geturðu leitað til heilsugæslunnar.

  • Heilsugæslan getur vísað þér til sérfræðinga sem geta reynt að minnka skaðann.
  • Þau geta líka hjálpað þér að fá sálfræðihjálp ef þörf er á.
  • Mikilvægt er að láta ljósmóður vita ef þú ert ólétt og í mæðraskoðun.

Heilsugæslan

Á heilsugæslunni starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sálfræðingar sem geta hjálpað þér.

Glöð börn að hoppa út í sundlaug.

Barnavernd

Markmið barnaverndar er að styðja foreldra til að hugsa vel um börnin sín. Ef þú heldur að barn sé beitt ofbeldi eða búi við vanrækslu ættirðu að láta barnavernd vita.

Þrjár dökkhærðar stelpur sitja á grasi. Þær snúa baki í myndavélina og spjalla saman.

Barnaheill

Barnaheill eru barnaréttindasamtök sem standa vörð um réttindi barna, berjast gegn einelti og kynferðisofbeldi á börnum. Samtökin leggja áherslu á að efla áhrifamátt barna í samfélaginu.

Umboðsmaður Barna Merki

Umboðsmaður barna

Umboðsmaður barna er opinber talsmaður barna og vinnur að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna.