Hvernig á að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum?
Hér eru 5 skref til verndar börnum. Efnið er tekið af námskeiði Barnaheills: Verndarar barna.
1. Þekkjum staðreyndir og áhættuþætti
- Kynferðisofbeldi á sér stað þar sem markaleysi, afneitun og ótti fær að viðgangast.
- 60 til 80% gerenda er einhver sem barnið þekkir.
- Ein af afleiðingum kynferðisbrota er forðun og félagsleg einangrun.
2. Verum vakandi og drögum úr áhættuþáttum
- Kynhegðun þarf að kenna og börn þurfa leiðbeiningar um það eins og aðra hegðun.
- Mikilvægt er að líta á kynferðisofbeldi sem er framið af börnum og unglingum sem hegðunarvanda frekar en ofbeldi.
- Börn sem verða fyrir kynferðisofbeldi bera þess oftast einhver merki en það þarf að þekkja þau til koma auga á þau. Það gætu verið kvartanir, eins og undan maga- eða höfuðverkjum, sem eiga sér engar skýringar.
3. Fræðum börnin
- Forvarnir felast í að fullorðnir verndi börn áður en þau verða fyrir ofbeldi.
- Með því að tala opinskátt um mörk, líkama og samskipti við börn, með tilliti til aldurs og þroska, hjálpum við þeim til lengri tíma.
- Börn sem hafa fengið fræðslu hafa meiri möguleika á að leita aðstoðar ef eitthvað gerist sem lætur þeim líða illa eða gerir þau óörugg.
4. Hlustum, trúum og styðjum börn
- Að trúa frásögn barna um ofbeldi sem þau hafa verið beitt eykur líkurnar á að eitthvað sé gert strax í málinu og börn séu vernduð.
- Ef börn opna á kynferðisbrot og viðkomandi er ekki tilbúinn til að hlusta eða bregst rangt við geta þau lokað.
- Grunnurinn er traust og að vera til staðar og hlusta þegar barnið gefur skilaboð um að það sé kannski eitthvað skrýtið að gerast.
5. Bregðumst við og tilkynnum
- Ef barn leitar til fullorðins þarf að hafa í huga að sýna viðeigandi framkomu, halda ró sinni, gæta að réttum viðbrögðum og hlusta vel á frásögn barnsins.
- Mikilvægt er að fylgja grunsemdum, bregðast hratt og skjótt við og láta barnið alltaf njóta vafans.
- Þegar brugðist er við kynferðisofbeldi gegn barni á ábyrgan hátt er ekki bara einu barni bjargað heldur mörgum til viðbótar. Að baki eins geranda geta verið mörg börn.