Hvað er tæling?
Tæling er algeng aðferð hjá þeim sem misnota börn og unglinga. Tæling getur líka verið notuð gegn ungu fólki og fullorðnum einstaklingum í viðkvæmri stöðu. Sá sem beitir tælingunni reynir að vinna traust þolandans og þvinga hann til að samþykkja ofbeldið. Tæling getur átt sér stað bæði í persónu eða á netinu.
Það er oftast fjölskyldumeðlimur eða einhver sem þolandinn þekkir sem er tælarinn, til dæmis þjálfari eða kennari. Sá sem beitir tælingu er oft viðkunnanlegur, vinalegur og hjálpsamur.
Það gæti verið tæling ef einhver eldri og valdameiri manneskja:
- Veitir þér mikla athygli og hrós.
- Deilir með þér dýpstu leyndarmálum sínum.
- Gefur þér gjafir eða peninga.
- Bendir á það sem er sameiginlegt með ykkur.
- Sýnir þér mikla samúð eða samkennd.
- Segjast hafa tilfinningar gagnvart þér.
- Spyr þig um persónulegar upplýsingar eins og heimilisfang, í hvaða skóla þú ert eða hvar þú hengur oftast.
- Ýtir á þig eða skipar þér að gera hluti, oft með því að vekja með þér sektarkennd.
- Vill að þið hittist einsömul án þess að segja neinum, jafnvel á afskekktum stað.
Tælingarferlið
- Val á fórnarlambi. Fólk sem beitir tælingu fylgist oft með mögulegum fórnarlömbum og velur sér það byggt á hversu auðvelt sé að nálgast það og hversu varnarlaust það er.
- Aðgangur og einangrun. Tælarinn reynir að einangra manneskjuna, andlega eða líkamlega, frá þeim sem vernda hana og sækir oft í stöður þar sem auðvelt er að hafa samskipti við unglinga.
- Vinna traust og halda leyndarmál. Tælarinn reynir að vinna traust manneskjunnar með gjöfum, athygli, deila með henni leyndarmálum og fleira sem lætur henni líða eins og þau eigi í ástríku sambandi sem þarf að halda leyndu.
- Snerting og tal um kynferðisleg málefni. Tælarinn byrjar oft að snerta manneskjuna á það sem virðist saklausan hátt, eins og að knúsa, gamni-slást og kitla. Það færist svo yfir í kynferðislegri snertingu, eins og nudd og að fara í sturtu saman. Tælarinn sýnir stundum fórnarlambinu klám eða ræðir kynferðisleg málefni við það, til að kynna hugmyndina um kynferðislegt samneyti.
- Tilraun til að láta hegðunina virðast eðlilega. Þegar ekki er um mikinn aldursmun að ræða getur verið erfitt að þekkja tælingu. Það eru hættumerki ef á að halda sambandinu leyndu, ef sá sem er eldri er með óhóflega mikil áhrif eða stjórnun eða er sífellt að ýta á mörk þess sem er yngri.