Ofbeldi með stafrænni tækni

Það er stafrænt ofbeldi þegar ofbeldi er beitt gegnum síma, tölvu eða samfélagsmiðla (eins og TikTok, Facebook, Twitter, Instagram eða Snapchat). Það getur verið texti eða mynd með skilaboðum, tölvupósti eða gegnum samfélagsmiðil. Það er líka stafrænt ofbeldi ef einhver er að fylgjast með hvað þú gerir í símanum þínum og hvað þú gerir á netinu. Þú átt rétt á þínu einkalífi!

Stafrænt ofbeldi getur verið lúmskt. Það eru ýmis hættumerki sem benda til þess að það gæti verið að beita þig stafrænu ofbeldi:

  • Maki þinn (eða fyrrverandi) er sífellt að hafa samband og athuga hvar þú ert.
  • Viðkomandi heimtar að fá að skoða símann þinn, vita lykilorð þín eða að þú deilir staðsetningu þinni með sér.
  • Viðkomandi er alltaf að birtast óvænt á stöðum þar sem þú ert.
  • Skilaboðin þín eða myndir hverfa.
  • Vinafólk þitt fær skilaboð frá þér sem þú sendir ekki.
  • Þú færð tilkynningu um AirTag sé virkt nálægt þér.

Fólk sem verður fyrir stafrænu ofbeldi upplifir oft ótta, reiði, kvíða, þunglyndi og að vera ekki við stjórn á eigin lífi. Fólki finnst það ekki eiga neitt einkalíf, er líklegt til að einangra sig og upplifir hjálparleysi.

Það er stafrænt ofbeldi ef viðkomandi:

  • Merkir þig á móðgandi eða niðurlægjandi myndum.
  • Hótar að tala illa um þig eða bera út sögur á netinu.
  • Stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að tölvupósti, bankareikningi eða samfélagsmiðlum.
  • Stjórnar hver má vera vinur þinn á samfélagsmiðlum og við hverja þú mátt tala við þar.
  • Skráir sig inn á samfélagsmiðla í þínu nafni.
  • Hótar að sýna öðrum nektar- eða kynlífsmyndir af þér.
  • Sendir þér nektarmyndir af sér þótt þú vildir það ekki.
  • Notar einhverja tækni, eins og GPS, AirTags eða vefmyndavélar, til þess að fylgjast með þér.

Fáðu hjálp

Það er alltaf betra að segja einhverjum frá hvernig þér líður. Þú getur haft samband við Bjarkarhlíð í Reykjavík eða Bjarmahlíð á Akureyri sem sérhæfa sig í stuðningi við fullorðna varðandi hvers konar ofbeldi. Engu máli skiptir hversu langt er síðan ofbeldið átti sér stað.

Ef þú ert barn eða unglingur og hefur lent í áreiti á netinu, fáðu ráð til að bregðast við. Börn og fullorðnir geta líka alltaf talað við einhvern hjá 1717 (hjálparsíma Rauða krossins) eða haft samband við 112 gegnum síma eða netspjall.

Ef þú sérð óviðeigandi efni á netinu sem varðar börn geturðu tilkynnt það gegnum ábendingarlínu Barnaheilla.

Svarmyndir

Hefur einhver dreift eða hótað að dreifa kynferðislegri mynd af þér? Hefurðu fengið typpamynd sem þú baðst ekki um? Hér eru hugmyndir að skilaboðum sem þú getur svarað með. Taktu skjáskot og hafðu við höndina.

Að dreifa nektarmynd af öðrum á leyfis er ólöglegt! Þú getur farið í allt að 4 ár í fangelsi fyrir það sem þú varst að gera.

Þekkir þú birtingarmyndir ofbeldis?

Skoða fleiri dæmi

Andri

Andri var mjög glaður þegar hann sópaði myndinni af Helgu til hægri og komst að því að hún hafði líka áhuga á honum. Þau voru í sama menntaskóla, Helga einu ári eldri, vinsæl og miklu sætari – að Andra mati. Þau byrja að spjalla gegnum appið og fara fljótlega að daðra.

En nú líður Andra mjög illa, Helga bað hann um nektarmynd af sér og ætlaði að senda af sér til baka sem hún gerði svo aldrei. Helga sendi myndina á vini sína og nú eru þeir allir að mæla út nakinn líkama Andra. Helgu finnst þetta allt saman fyndið og gerir lítið úr mótmælum Andra. Hún birti meira að segja spjallið þeirra á Insta og allir krakkarnir í skólanum eru búnir að læka það.

Er þetta ofbeldi?

Aðstoð í boði

Sjá alla aðstoð

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Bjarmahlíð á Akureyri

Bjarmahlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Þrjár dökkhærðar stelpur sitja á grasi. Þær snúa baki í myndavélina og spjalla saman.

Barnaheill

Barnaheill býður upp á ráðgjöf um allt varðandi börn. Á vefsíðu Barnaheilla er hægt að benda á óviðeigandi hegðun gagnvart börnum á netinu.

Öryggi á netinu

Passaðu upp á öryggi þitt með því að tryggja að tækin þín séu ekki viljandi eða óviljandi að deila persónulegum upplýsingum sem þú vilt ekki að fari lengra. Hér má finna öruggar leiðir til að nota tölvur og síma.

Manneskja heldur um gagnaugun og yfir henni vofir regnský. Hún er leið á svipinn.  Önnur manneskja heldur regnhlíf yfir höfði hennar til að skýla henni fyrir regninu.

Fjárhagslegt ofbeldi

Fjárhagslegt ofbeldi er þegar einhver svíkur af þér peninga, tekur peninga þína af þér eða neitar að láta þig fá peningana þína.

Manneskja styður höndum á gagnaugun. Henni líður greinilega illa. Eldingar eru teiknaðar hjá höfðinu.