Hvað þýðir að vera eltihrellir?
Eltihrellir (e. stalker) hótar, eltir, fylgist með eða ofsækir á einhvern hátt aðra manneskju. Eltihrellir situr um aðra til þess að stjórna og ógna.
Umsáturseinelti
Í dag er farið að nota orðið umsáturseinelti um það sem einnig er kallað að vera eltihrellir. Umsáturseinelti er þegar einhver áreitir þig endurtekið með óumbeðinni athygli eða samskiptum. Hegðunin er oft linnulaus, hættir ekki þótt þú biðjir um það og getur látið þér finnast eins og þú getir ekki losnað undan henni.
Dæmi um umsáturseinelti er:
- Endurteknir tölvupóstar eða skilaboð á samfélagsmiðlum.
- Endurtekin símtöl.
- Manneskjan eltir þig til og frá heimili eða vinnu.
- Miðar skildir eftir heima hjá þér, í vinnu eða bílnum þínum.
- Óumbeðin blóm eða gjafir eru send heim til þín.
- Samfélagsmiðlar eru notaðir til að fylgjast með þér, hrella þig eða ógna, eða ónáða þig með óvelkominni hegðun.
- Tæki eins og GPS eða AirTags eru notuð til að fylgjast með hvar þú ert.
- Manneskjan mætir óboðin heim til þín, á vinnustaðinn eða í skólann.
- Manneskjan mætir á sömu staði og þú þegar það er engin ástæða fyrir hana að vera þar.
Hegðunin byrjar stundum á góðum nótum en verður ágengari og jafnvel ofbeldisfull með tímanum. Stundum er umsáturseinelti hluti af ofbeldi í nánu sambandi. Eins og með annað ofbeldi snýst umsáturseinelti um stjórnun. Umsátrið hræðir þig svo að þú breytir þinni rútínu og hegðun og skapar óöryggi.
Hverjir eru eltihrellar?
Eltihrellar geta verið ókunnugir eða fólk sem þú þekkir varla. Þeir eru oft líka einhver sem þú þekkir vel, til dæmis:
- Makar.
- Fyrrverandi makar.
- Umönnunaraðilar.
- Foreldrar, forsjáraðilar eða aðrir fjölskyldumeðlimir.
- Uppkomin börn.
- Annað fólk sem þú býrð með eða sérð oft.
Fáðu hjálp
Enginn hefur rétt á því að ógna þér og stjórna með óvelkominni athygli. Ef setið er um þig eða einhvern sem þú þekkir getur þú fengið hjálp hjá Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri eða Sigurhæðum á Selfossi. Slíkt má líka tilkynna beint til lögreglu.