Er allt í góðu?

Það á að vera öruggt að fara út og skemmta sér. Við verðum að standa saman og koma í veg fyrir kynferðisofbeldi áður en það gerist. Verum vakandi og stígum inn í ef við sjáum einhvern ekki virða mörk.

Hvað er til ráða?

  • Vertu vakandi. Taktu eftir því ef einhvern vantar hjálp, einhver er ágengur eða sýnir yfirgang.
  • Treystu tilfinningunni. Ef þér finnst eitthvað vera að, er það líklegast rétt hjá þér. Treystu innsæinu. Ef þú hjálpar ekki, hver gerir það þá?
  • Stígðu inn í. Að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi getur verið eins einfalt og að spyrja: „Er allt í góðu?“
  • Fáðu aðstoð. Ef þú telur þig þurfa á hjálp að halda talaðu við vin, barþjón, dyravörð eða leigubílstjóra. Þú getur líka alltaf hringt í 112.

Kynferðisofbeldi

Kynferðisofbeldi er það þegar einhver fær þig til að gera eitthvað kynferðislegt sem þú vilt ekki gera, káfar á þér eða áreitir þig á kynferðislegan hátt.

Nauðgun

Enginn hefur rétt á að þvinga aðra manneskju til að gera eitthvað kynferðislegt sem hún vill ekki gera. Þegar kynmök eru höfð við manneskju án samþykkis er það nauðgun.

Kynferðisleg áreitni

Þegar farið er yfir mörk á kynferðislegan hátt er það kynferðisleg áreitni.

Ekki beita kynferðisofbeldi

Að virða mörk annarra er grundvallaratriði í heilbrigðum samskiptum. Hik er ekki sama og samþykki. Hefur þú mögulega farið yfir mörkin?

Byrlun

Byrlun er þegar einhver gefur annarri manneskju lyf, áfengi eða vímuefni án hennar samþykkis eða vitundar.