Beint í efni

Hvernig kærirðu kynferðisbrot og hvað gerist?

Ef þú telur að brotið hafi verið á þér ættirðu alltaf að tilkynna það til lögreglu. Því fyrr sem þú leitar til lögreglunnar eftir brot, því líklegra er að rannsóknin heppnist vel. En þótt langt sé um liðið getur þú samt ennþá tilkynnt brot.

Að kæra gerandann getur verið mikilvægt fyrir þig til að geta skilið atburðinn eftir og haldið áfram með þitt líf. Með því að tilkynna ertu líka að gera allt sem í þínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að gerandinn brjóti aftur af sér.

Það er gagnlegt að þekkja muninn á hugtökunum "kæra" og "ákæra": Að kæra þýðir að tilkynna brot til lögreglu. Að ákæra þýðir að lögregla eða saksóknari ákveði að fara með brotið fyrir dóm. Það getur hjálpað til að vita hvernig ferlið í réttarkerfinu virkar. Hér er fjallað um meðferð kynferðisbrotamála þar sem þolandi er 15 ára eða eldri.

Brot tilkynnt til lögreglu

Þú getur tilkynnt brot eftir nokkrum leiðum:

  • Haft samband við 112 (sérstaklega ef brot er yfirstandandi eða nýliðið). Þú getur hringt, notað netspjall eða appið.
  • Í Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð geturðu fengið að tala við lögreglu.
  • Hringt, sent tölvupóst eða mætt á lögreglustöð. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að panta tíma í kærumóttöku með því að senda tölvupóst á kaerumottaka@lrh.is.
  • Á Neyðarmóttöku er hægt að óska eftir því að lögregla verði kölluð til eða tilkynnt um brotið.

Það er mikilvægt að kæra brot til lögreglu við fyrsta tækifæri. Oft reynist erfiðara að rannsaka brot ef langur tími líður þar til það er kært.

Rannsókn sakamála

Þegar þú kærir brot til lögreglu, þá tekur lögreglan við málinu og sér um rannsókn málsins. Þú verður ekki ákærandi, heldur saksóknari fyrir hönd lögreglu. Lögreglu er skylt að hefja rannsókn út af vitneskju eða gruns um að refsivert brot hafi verið framið, hvort sem kæra hafi borist eða ekki. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að hægt sé að ákveða þegar rannsókninni sé lokið hvort gerandi verður ákærður.

Erla Dögg Guðmundsdóttir vinnur hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar. Erla útskýrir af hverju það ætti alltaf að kæra kynferðisbrot og hvernig málið er rannsakað hjá lögreglunni. Í myndbandinu er talað til ungmenna en upplýsingarnar eiga líka við fullorðna.

Réttargæslumaður

Þú átt rétt á að fá réttargæslumann til að gæta hagsmuna þinna og veita þér aðstoð í málinu, til dæmis við að setja fram bótakröfu. Ef þú ert yngri en 18 ára færðu réttargæslumann án þess að þurfa biðja um hann. Þú færð aðstoð réttargæslumanns, óháð því hvar þú býrð eða hvaðan þú ert.

Réttargæslumaður er lögmaður sem er viðstaddur þegar þú gefur skýrslu hjá lögreglu og ferð fyrir dóm, þér til halds og trausts. Réttargæslumaður aflar upplýsinga fyrir þig um stöðu og meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi og útskýrir málsmeðferðina fyrir þér. Þjónusta réttargæslumanns er þér að kostnaðarlausu.

Skýrslutaka brotaþola

Við skýrslutöku hjá lögreglu er markmiðið að þú fáir tækifæri til að greina frá atvikum og að lögregla fái allar nauðsynlegar upplýsingar til að geta rannsakað málið. Spurningar um klæðnað og aðrar spurningar sem geta verið óþægilegar eru eingöngu til að fá skýrari mynd á atvikið og skipta máli fyrir sönnun í málinu. Þess lags spurningar eru spurðar í öllum sakamálum, ekki bara kynferðisbrotamálum.

Skýrslutakan fer fram á lögreglustöð en stundum líka annars staðar, til dæmis á vettvangi brots. Skýrslutakan er tekin upp bæði í hljóði og mynd. Lögregla skrifar skýrslu um það sem þú hefur að segja, annað hvort orð frá orði eða samantekt. Stundum er bara tekin ein skýrsla á meðan rannsókn stendur, stundum fleiri.

Skýrslur sem teknar eru af brotaþola, sakborningi og vitnum eru meðal þeirra gagna sem liggja fyrir í rannsóknargögnum lögreglu.

Skýrslutaka af sakborningi

Við rannsókn málsins tekur lögregla skýrslu af sakborningi þar sem honum er kynnt hvert sakarefni málsins er, honum boðið að tjá sig og er spurður um þau atriði sem lögregla telur að skipti máli. Það er misjafnt hvort tekin er ein skýrsla eða fleiri af sakborningi á meðan lögregla rannsakar málið.

Skýrslutaka af vitnum

Lögregla tekur skýrslur af þeim vitnum sem talið er nauðsynlegt að ræða við um atvik málsins. Vitni geta verið fleiri en þau eru vitni að atburðinum sjálfum. Skýrslutökurnar fara vanalega fram á lögreglustöð eða gegnum síma.

Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis

Á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis starfar þverfaglegt teymi sem sinnir þeim sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þar er framkvæmd réttarlæknisfræðileg skoðun, tekin sýni og gerð skýrsla um skoðunina. Þetta er hægt að nota ef þú ákveður að leggja fram kæru. Þessi skoðun getur haft mikla þýðingu í kynferðisbrotum. Til að auka líkurnar á að finna sakargögn er mikilvægt að koma eins fljótt og hægt er og ekki þvo þér eða fötin þín áður. Á Neyðarmóttöku býðst þér einnig lögfræðileg ráðgjöf vegna málsins.

Bótakröfur

Þú getur krafist bóta fyrir þann skaða og andlega vanlíðan sem þú hefur hlotið af brotinu. Réttargæslumaður þinn þarf að leggja kröfuna fram til ákæranda (saksóknara eða annars starfsmanns ákæruvalds) áður en ákæra er gefin út. Þá fylgir bótakrafan með í ákæruskjalinu sem dómari fær og kemur í veg fyrir að þú þurfir að sækja annað einkamál á hendur ákærða til að fá bætur.

Í sumum tilvikum eiga brotaþolar rétt á greiðslu bóta úr ríkissjóði. Nánari upplýsingar um greiðslu bóta má finna á vef bótanefndar.

Mál sem fer ekki fyrir dóm

Það er ekki alltaf sem að mál fer fyrir dóm. Það geta verið margar ástæður fyrir því.

Lögreglan getur vísað frá kæru um brot ef það þykir ekki ástæða til að hefja rannsókn. Lögreglan getur líka hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, til dæmis ef að frekari rannsókn mun ekki leiða betur í ljós hvað gerðist. Ef lögreglan ákveður að fella mál niður færð þú boð um að koma þar sem þér er tilkynnt niðurstaðan og þér er gefin útskýring á ástæðum niðurfellingarinnar.

Þegar rannsókn lögreglu lýkur fær ákærandi hjá héraðssaksóknara gögn málsins í hendur og leggur mat á málið. Ef hann telur gögnin ekki nægileg eða líkleg til sakfellingar er málið fellt niður. Ákærandi sendir þér bréf með rökstuðningi.

Þú getur kært þessar ákvarðanir til ríkissaksóknara.

Kolbrún Benediktsdóttir starfar hjá embætti ríkissaksóknara. Hún útskýrir af hverju sum mál fara ekki fyrir dóm.

Málsmeðferð fyrir dómi

Ef ákæranda finnst rannsóknargögn vera nægileg eða líkleg til sakfellingar er gefin út ákæra á hendur sakborningi og sakamál á hendur honum rekið fyrir dómstólum. Ef sakborningur neitar sök fer fram aðalmeðferð í málinu fyrir dómi og þú þarft að koma fyrir dóminn til að gefa skýrslu.

Dómarinn Sigríður Hjaltested útskýrir hvernig ferlið fyrir héraðsdómi virkar.

Vitnaskylda

Allir 15 ára og eldri eru skyldugir til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum um málsatvik. Það á bæði við um þig og önnur vitni.

Vitni með tengsl við ákærða eru ekki alltaf skyldug til að gefa skýrslu. Til dæmis ef vitnið er maki eða fyrrverandi ákærða, skyldmenni í beinan legg, stjúpforeldri eða stjúpbarn, tengdaforeldri eða tengdabarn.

Ef vitni kemur ekki fyrir dóm án þess að um lögmæt forföll sé að ræða getur ákærandi fengið lögreglu til að sækja vitnið eða færa það fyrir dóm.

Dómhúsið

Þegar þú kemur í dómhúsið til að gefa skýrslu fyrir dómi þarftu yfirleitt að bíða fyrst fyrir utan dómsalinn þar til það kemur einhver að sækja þig. Þú munt líklegast gefa skýrslu næst á eftir ákærða.

Þeir sem gefa skýrslu fyrir dómi mega ekki hlusta á framburð þeirra sem gefa skýrslur á undan. Miklu máli skiptir að vera stundvís og að mæta á boðuðum tíma. Stundum dragast skýrslutökur og þá getur orðið einhver bið á því að fólk sé kallað inn í dómsalinn.

Skýrslutaka fyrir dómi

Skýrslutakan fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu nema það eru fleiri viðstaddir í dómsalnum. Þar eru viðstaddir dómari eða dómarar, ákærandi, verjandi og réttargæslumaður.

Þú situr í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum frá þér séð sitja saksóknari (sá sem ákærir) og réttargæslumaður þinn en hægra megin sitja verjandi hins ákærða og sá ákærði. Meðferð sakamála fyrir dómi er almennt opin og því getur verið að einhverjir fleiri séu viðstaddir í salnum. Flest kynferðisbrotamál eru þó haldin fyrir lokuðum dyrum af því það eru viðkvæm mál.

Ákærði á rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi en undantekningar frá því eru oft gerðar í kynferðisbrotamálum. Réttargæslumaðurinn þinn þarf að gera kröfu um að ákærða verði gert að víkja úr dómsalnum á meðan þú gefur skýrslu og það er dómarans að meta hvort við því verði orðið. Oft samþykkir ákærði sjálfur að víkja úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu.

Við upphaf skýrslutöku biður dómari þig um að gera grein fyrir nafni þínu og útskýrir í stuttu máli hvernig framkvæmdin verður. Dómari greinir þér frá því að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að refsivert er að segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við því að þú segi ósatt, heldur er það skylda dómara að segja þetta við öll vitni sem koma fyrir dóminn.

Það er ekki ætlast til þess að þú getir sagt frá öllu því sem máli skiptir en yfirleitt er fyrst beðið um að segja frá því atviki sem er til umfjöllunar og síðan spyr ákærandi út í einstök atriði. Eftir það býðst verjanda að spyrja og stundum spyr dómari einnig.

Markmið skýrslutöku er að varpa ljósi á atvik máls. Þess vegna er mikilvægt að þú segir aðeins frá samkvæmt bestu vitneskju og eigin minni og látir vita ef þú ert óviss um einhver atriði. Stundum rifja dómari, ákærandi eða verjandi upp hvað þú sagðir í skýrslutöku hjá lögreglu og spyrja hvort sú lýsing hafi verið rétt. Eftir skýrslutökuna máttu velja hvort þú yfirgefur dómsalinn eða verður áfram og fylgist með framhaldi málsins.

Þú getur óskað eftir því að ákærandi (lögregla eða héraðssaksóknari) sjái um greiðslur vegna ferða og dvalar á dómstað. Þetta á sérstaklega við ef þú þarf að ferðast um langan veg og jafnvel dvelja yfir nótt utan heimilis. Styttri ferðir innan sama bæjarfélags teljast ekki með. Þegar þú hefur gefið skýrslu fyrir dómi, geturðu einnig krafist þess að dómari ákveði þér greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og þóknun fyrir atvinnumissi.

Dómsuppkvaðning

Máli lýkur með því að dómur er kveðinn upp. Í dóminum kemur fram:

  • Hver var ákærður.
  • Meginefni ákæru.
  • Hvers var krafist.
  • Helstu málsatvik.
  • Umfjöllun um sönnun og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu.
  • Niðurstöður um atriði eins og viðurlög og sakarkostnað.

Það á að kveða upp dóm eins fljótt og hægt er. Vanalega er það gert innan 4 vikna eftir að mál var flutt. Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp.

Þegar dómar í sakamálum eru birtir opinberlega eru nöfn brotaþola og vitna ekki birt í dóminum, samkvæmt 4. gr. reglna um birtingu dóma á vefsíðu héraðsdómstólanna.

Aðgangur að gögnum

Á meðan málið er til rannsóknar hjá lögreglu eða í meðferð hjá ákæruvaldi átt þú rétt á að fá upplýsingar um stöðu málsins og aðgang að þínum skýrslum.

Lögregla, ákærendur, dómarar og fangelsisyfirvöld hafa aðgang að öllum gögnum málsins til notkunar í störfum sínum.

Þegar málinu er lokið geta þú og sakborningur fengið aðgang að rannsóknargögnunum nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því.

Ef gögn geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin, þarf viðkomandi að sýna fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.

Úrræði

Sýndardómssalur

Vitnum í dómsmálum stendur til boða að heimsækja dómsal í sýndarveruleika til undirbúnings.

Bjarkarhlíð

Bjarkarhlíð veitir fólki sem hefur orðið fyrir ofbeldi og þolendum mansals stuðning og ráðgjöf í hlýlegu umhverfi. Þar geturðu fengið alla aðstoð á einum stað, eins og frá lögreglu, lögfræðingi og öðrum hjálparsamtökum.

Lögfræðiaðstoð laganema

Lögfræðinemar háskólanna bjóða upp á ókeypis lögfræðiráðgjöf gegnum síma.