Vitnaskylda
Allir 15 ára og eldri eru skyldugir til að koma fyrir dóm sem vitni til að svara spurningum um málsatvik. Það á bæði við um þig og önnur vitni.
Vitni með tengsl við ákærða eru ekki alltaf skyldug til að gefa skýrslu. Til dæmis ef vitnið er maki eða fyrrverandi ákærða, skyldmenni í beinan legg, stjúpforeldri eða stjúpbarn, tengdaforeldri eða tengdabarn.
Ef vitni kemur ekki fyrir dóm án þess að um lögmæt forföll sé að ræða getur ákærandi fengið lögreglu til að sækja vitnið eða færa það fyrir dóm.
Dómhúsið
Þegar þú kemur í dómhúsið til að gefa skýrslu fyrir dómi þarftu yfirleitt að bíða fyrst fyrir utan dómsalinn þar til það kemur einhver að sækja þig. Þú munt líklegast gefa skýrslu næst á eftir ákærða.
Þeir sem gefa skýrslu fyrir dómi mega ekki hlusta á framburð þeirra sem gefa skýrslur á undan. Miklu máli skiptir að vera stundvís og að mæta á boðuðum tíma. Stundum dragast skýrslutökur og þá getur orðið einhver bið á því að fólk sé kallað inn í dómsalinn.
Skýrslutaka fyrir dómi
Skýrslutakan fyrir dómi er svipuð skýrslutöku hjá lögreglu nema það eru fleiri viðstaddir í dómsalnum. Þar eru viðstaddir dómari eða dómarar, ákærandi, verjandi og réttargæslumaður.
Þú situr í sæti fyrir framan dómara. Vinstra megin í dómsalnum frá þér séð sitja saksóknari (sá sem ákærir) og réttargæslumaður þinn en hægra megin sitja verjandi hins ákærða og sá ákærði. Meðferð sakamála fyrir dómi er almennt opin og því getur verið að einhverjir fleiri séu viðstaddir í salnum. Flest kynferðisbrotamál eru þó haldin fyrir lokuðum dyrum af því það eru viðkvæm mál.
Ákærði á rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku fyrir dómi en undantekningar frá því eru oft gerðar í kynferðisbrotamálum. Réttargæslumaðurinn þinn þarf að gera kröfu um að ákærða verði gert að víkja úr dómsalnum á meðan þú gefur skýrslu og það er dómarans að meta hvort við því verði orðið. Oft samþykkir ákærði sjálfur að víkja úr dómsal á meðan brotaþoli gefur skýrslu.
Við upphaf skýrslutöku biður dómari þig um að gera grein fyrir nafni þínu og útskýrir í stuttu máli hvernig framkvæmdin verður. Dómari greinir þér frá því að það sé skylda að segja satt og rétt frá og að refsivert er að segja rangt frá fyrir dómi. Þetta þýðir ekki að dómari búist við því að þú segi ósatt, heldur er það skylda dómara að segja þetta við öll vitni sem koma fyrir dóminn.
Það er ekki ætlast til þess að þú getir sagt frá öllu því sem máli skiptir en yfirleitt er fyrst beðið um að segja frá því atviki sem er til umfjöllunar og síðan spyr ákærandi út í einstök atriði. Eftir það býðst verjanda að spyrja og stundum spyr dómari einnig.
Markmið skýrslutöku er að varpa ljósi á atvik máls. Þess vegna er mikilvægt að þú segir aðeins frá samkvæmt bestu vitneskju og eigin minni og látir vita ef þú ert óviss um einhver atriði. Stundum rifja dómari, ákærandi eða verjandi upp hvað þú sagðir í skýrslutöku hjá lögreglu og spyrja hvort sú lýsing hafi verið rétt. Eftir skýrslutökuna máttu velja hvort þú yfirgefur dómsalinn eða verður áfram og fylgist með framhaldi málsins.
Þú getur óskað eftir því að ákærandi (lögregla eða héraðssaksóknari) sjái um greiðslur vegna ferða og dvalar á dómstað. Þetta á sérstaklega við ef þú þarf að ferðast um langan veg og jafnvel dvelja yfir nótt utan heimilis. Styttri ferðir innan sama bæjarfélags teljast ekki með. Þegar þú hefur gefið skýrslu fyrir dómi, geturðu einnig krafist þess að dómari ákveði þér greiðslu vegna útlagðs kostnaðar og þóknun fyrir atvinnumissi.
Dómsuppkvaðning
Máli lýkur með því að dómur er kveðinn upp. Í dóminum kemur fram:
- Hver var ákærður.
- Meginefni ákæru.
- Hvers var krafist.
- Helstu málsatvik.
- Umfjöllun um sönnun og röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í málinu.
- Niðurstöður um atriði eins og viðurlög og sakarkostnað.
Það á að kveða upp dóm eins fljótt og hægt er. Vanalega er það gert innan 4 vikna eftir að mál var flutt. Dómari tilkynnir aðilum hvar og hvenær dómur verði kveðinn upp.
Þegar dómar í sakamálum eru birtir opinberlega eru nöfn brotaþola og vitna ekki birt í dóminum, samkvæmt 4. gr. reglna um birtingu dóma á vefsíðu héraðsdómstólanna.
Aðgangur að gögnum
Á meðan málið er til rannsóknar hjá lögreglu eða í meðferð hjá ákæruvaldi átt þú rétt á að fá upplýsingar um stöðu málsins og aðgang að þínum skýrslum.
Lögregla, ákærendur, dómarar og fangelsisyfirvöld hafa aðgang að öllum gögnum málsins til notkunar í störfum sínum.
Þegar málinu er lokið geta þú og sakborningur fengið aðgang að rannsóknargögnunum nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því.
Ef gögn geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin, þarf viðkomandi að sýna fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta.