Upplifun sýndardómsals
Í sýndardómsalnum er sérstakt herbergi með stól og borði sem notandinn sest við áður en sýndarveruleikagleraugun eru sett upp. Þegar manneskja setur upp gleraugun, þá er hún stödd í dyrunum á dómsalnum og gengur með þau á sér að vitnastúkunni og sest niður. Þar er hún um leið komin inn í nákvæma eftirlíkingu raunverulega dómsalsins sem er oftast notaður í kynferðisbrotamálum í Reykjavík.
Sýndarverur sitja í salnum og eru í hlutverki réttargæslumanns, ákærða, dómara og fleiri aðila sem yfirleitt koma að málinu. Sýndarverurnar bregðast við því sem er að gerast í dómsalnum í gegnum allt ferlið. Viðkomandi sest í vitnastúkuna og getur æft sig í raunverulegum aðstæðum.
Þróun verkefnisins
Fyrirtækið Statum hannaði og þróaði sýndardómsalinn. Upphafið má rekja til nemendaverkefnis í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Í framhaldi hafa verið gerðar rannsóknir innan sálfræðideildar háskólans sem sýnt hafa fram á greinilegan ávinning af honum fyrir líðan þolenda.